Mál nr. 7/1993
Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 7/1993.
A
gegn
menntamálaráðherra.
Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 25. mars 1994 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
MÁLAVEXTIR
Með bréfi dags. 18. ágúst 1993 óskaði A, framhaldsskólakennari, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu skólastjóra Rimaskóla í Reykjavík bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Með bréfi dags. 20. september 1993 var menntamálaráðherra kynnt erindið og óskað eftir upplýsingum um fjölda umsækjenda, menntun þeirra og starfsreynslu ásamt upplýsingum um hvaða sérstaka hæfileika sá hefur til að bera sem ráðinn var í starfið, sbr. 8. gr. jafnréttislaga. Jafnframt var óskað eftir afritum af faglegum umsögnum um umsækjendur ef fyrir lægju. Erindið var ítrekað með bréfi dags. 27. október. Svarbréf menntamálaráðuneytisins eru dags. 2. nóvember 1993 og 28. janúar 1994.
Málavextir eru þeir að hinn 25. apríl 1993 auglýsti Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur lausa til umsóknar stöðu skólastjóra við Rimaskóla í Reykjavík. Umsóknarfrestur var til 14. maí s.á. og voru umsækjendur sex. Menntamálaráðherra setti B, grunnskólakennara, í stöðuna frá 1. júní 1993 til 31. júlí 1994.
Fyrir liggja upplýsingar um menntun og starfsreynslu A og B.
A lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands vorið 1973 og stúdentsprófi frá sama skóla ári síðar. Hún tók B.A. próf í íslensku og ensku árið 1978, lauk námi til B.Ed. prófs frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1982 og lauk síðan Cand. mag. prófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands vorið 1992. A hefur sótt námskeið bæði hér heima og erlendis um skólamál. Hún hefur réttindi til að kenna á grunnskólastigi og á framhaldsskólastigi og verið metin hæf til kennslu á háskólastigi. Starfsferill hennar innan skólakerfisins er samtals 11 ár, þar af 5 ár sem skólastjóri. Hún hefur auk þess sinnt stundakennslu. Samkvæmt stigagjöf menntamálaráðuneytisins hefur A hæstu stigagjöfina af umsækjendum eða 259,5 stig.
B lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1976 og B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1979. Hann hefur sótt námskeið um skólamál. Hann hefur réttindi til að kenna á grunnskólastigi. Starfsferill hans innan skólakerfisins er samtals 14 ár sem grunnskólakennari. Samkvæmt stigagjöf menntamálaráðuneytisins hefur B 154,5 stig.
Samkvæmt 31. gr. laga nr. 49/1991 um grunnskóla ræður menntamálaráðherra skólastjóra að fengnum rökstuddum tillögum og umsögnum skólanefndar, kennararáðs og fræðslustjóra sem í hlut eiga.
Þar sem Rimaskóli er nýr skóli var einungis aflað umsagna og tillagna frá skólamálaráði og fræðslustjóra. Í bréfi menntamálaráðuneytisins dags. 2. nóvember 1993 kemur fram að fræðslustjóri hafi metið fjóra af sex umsækjendum hæfa, þ.á m. A og B. Að öðru leyti hafi fræðslustjóri ekki tekið afstöðu. Í bréfinu kemur jafnframt fram að fjórir af fimm fulltrúum í skólamálaráði hafi mælt með B í starfið en A hafi ekki fengið atkvæði.
Í erindi sínu til kærunefndar bendir A á að hún hafi ástæðu til að ætla að í stöðu skólastjóra Rimaskóla hafi verið ráðinn karlmaður með minni menntun og minni reynslu af stjórnun en hún. Hann hafi enga reynslu af skólastjórnun og hafi einungis kennt yngri bekkjum grunnskóla. Hún hafi aftur á móti reynslu af kennslu á bæði grunn- og framhaldsskólastigi og af skólastjórnun en Rimaskóli er fyrir nemendur 1. til 10. bekkjar grunnskóla. Þessu til stuðnings er m.a. vísað til álits dómnefndar Kennaraháskóla Íslands sem mat hana hæfa til að gegna stöðu lektors í íslensku við skólann. Telja verði því að með ráðningunni hafi menntamálaráðherra brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga.
Í bréfi menntamálaráðherra dags. 2. nóvember 1993 segir um val á umsækjendum: „Meirihluti skólamálaráðs, eða 4 af 5 fulltrúum þess, töldu B hæfastan til starfsins. Það mat byggðist fyrst og fremst á hæfileikum hans til samskipta og þekkingu hans á skólamálum, ekki síst stefnumótun. B hafði fengið mjög góð meðmæli skólastjórnenda í Reykjavík, auk þess sem hann var valinn af Kennarafélagi Reykjavíkur til að sitja í Skólamálaráði/Fræðsluráði Reykjavíkur og var það nefnt sem dæmi um hið mikla traust sem hann nyti meðal kennara í Reykjavík. Ennfremur kom fram að B hafði starfað í nefnd á vegum skólamálaráðs sem m.a. hafði það hlutverk að leggja fram hugmyndir um aukið sjálfstæði skóla. Þar hafi hann verið mjög virkur og stefnumótandi. Þekking hans og frumkvæði í nefndinni hafi átt stóran þátt í mótun á niðurstöðum sem nú er unnið eftir hjá Reykjavíkurborg. … Í ljósi þess að mikill meirihluti skólamálaráðs taldi B hæfastan til starfsins var tekin ákvörðun um setningu hans.“
NIÐURSTAÐA
Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Vegna þessa eru lagðar ýmsar skyldur á atvinnurekendur og má þar nefna ákvæði 5. gr. laganna er kveður á um að atvinnurekendur skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf. Ef einhver telur rétt á sér brotinn og vísar máli sínu til kærunefndar jafnréttismála skal atvinnurekandi sýna kærunefnd fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 2. mgr. 6. gr.
Það er ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfi umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvað þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Á því verður að byggja sem meginreglu í íslenskri stjórnsýslu að ráða beri þann hæfasta sem um opinbert starf eða stöðu sækir, sbr. til hliðsjónar ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir, ber með vísan til 1. gr. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir, sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð, bæði hjá hinu opinbera og á hinum almenna vinnumarkaði.
A hefur mun meiri menntun en B eða Cand. mag. próf frá Háskóla Íslands. Bæði hafa þau réttindi til að kennslu á grunnskólastigi en hún hefur að auki réttindi til að kenna í framhaldsskóla og hefur verið metin hæf til kennslu á háskólastigi Starfstími hans er 3 árum lengri en hennar. Á móti kemur að A hefur reynslu af stjórnun innan skólakerfisins þar sem hún hefur starfað sem skólastjóri í 5 ár. Að því er virðist hefur engin afstaða verið tekin til þessara þátta.
Telja verður A og B bæði hæf til að gegna stöðu skólastjóra. Sé einungis litið til upplýsinga um menntun og starfsreynslu þeirra er A ótvírætt hæfari. Kemur þá til álita hvort B hafi einhverja sérstaka hæfileika umfram A sem réttlætti að hann var ráðinn.
Rök menntamálaráðherra fyrir því að setja B í stöðu skólastjóra Rimaskóla eru þau að meirihluti skólamálaráðs hafi talið hann hæfastan. Mat skólamálaráðs byggir samkvæmt bréfi menntamálaráðherra frá 2. nóvember 1993 á hæfileikum B til samskipta, þekkingu hans á skólamálum, góðum meðmælum skólastjónenda, setu hans sem fulltrúa kennara í skólamálaráði og starfi hans á vegum skólamálaráðs í nefnd um aukið sjálfstæði skóla. Þessi rök gerir menntamálaráðherra að sínum. Ekkert sambærilegt mat er hins vegar lagt á þekkingu A á skólamálum eða hæfileika hennar til samskipta. Þó liggur fyrir að hún hefur kennt á öllum skólastigum, verið metin hæf til kennslu á háskólastigi og að umsókn hennar fylgdu lofsamleg meðmæli fyrrum samstarfsaðila, m.a. fræðslustjóra Suðurlands.
Með vísan til þessa er það niðurstaða kærunefndar að menntamálaráðherra hafi ekki sýnt fram á að B hafi sérstaka hæfileika umfram A sem réttlætt gátu að gengið var fram hjá henni, sbr. 2. mgr. 6. gr. jafnréttislaga. Menntamálaráðherra hafi því með setningu B í stöðu skólastjóra Rimaskóla í Reykjavík brotið gegn ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991, sbr. 8. gr. sömu laga.
Kærunefnd beinir þeim tilmælum til menntamálaráðherra að hann greiði A bætur eða fundin verði önnur viðunandi lausn á málinu sem hún getur sætt sig við.
Ragnhildur Benediktsdóttir
Sigurður Helgi Guðjónsson
Margrét Heinreksdóttir