Mál nr. 10/1993
Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 10/1993
A
gegn
umdæmisskrifstofu Pósts og síma Ísafirði.
Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 13. maí 1994 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu.
MÁLAVEXTIR
Með bréfi dags. 10. nóvember 1993 óskaði A, húsmóðir, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort sú ákvörðun Póst- og símamálastofnunar, umdæmis 11, Ísafirði, að taka ekki tilboði hennar í landpóstsþjónustu bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Með bréfi dags. 29. nóvember 1993 óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir afstöðu umdæmisstjóra umdæmis 11 til erindisins. Svarbréf hans er dags. 14. desember s.á. í málinu liggja fyrir afrit af tilboði kæranda og því tilboði sem var samþykkt ásamt útboðs- og verklýsingu. Á fund kærunefndar mættu A, kærandi málsins og B, umdæmisstjóri.
Hinn 21. september 1993 var landpóstsþjónusta frá Patreksfirði, þ.e. í Barðastranda- og Rauðasandshreppi boðin út til tveggja ára. Frestur til að leggja fram tilboð var til 18. október. Fjögur tilboð bárust, frá A og þremur körlum og var tilboð hennar lægst. Tekið var næst lægsta tilboði, frá C.
Útboðs- og verklýsing er svohljóðandi:
Um er að ræða svæði sem nær yfir Barðastranda- og Rauðasandshreppa. Í verkinu felst þjónusta við öll heimili og lögaðila á þessari leið ásamt sölu á vörum Pósts og síma til sömu aðila eins og nánar er kveðið á um í skilgreindri leiðar- og verklýsingu. Þjónustan skal framkvæmd samkvæmt reglugerð um póstþjónustu, svo og eftir öðrum þeim reglum og ákvæðum, sem sett hafa verið og kunna að verða sett, af Póst- og símamálastofnuninni, varðandi landpóstsþjónustu og er verktaki ábyrgur fyrir því að þeim sé hlítt. Við mat á tilboðum getur Póstur og sími farið fram á frekari eða skýrari upplýsingar. Tilboð verða metin út frá verði og gæðum tilboðs m.a. fjárhagslegri stöðu bjóðanda, tækjum sem bjóðandi hyggst nota og hversu stór hluti verkið verður af heildarstarfsemi bjóðanda, auk annars. Áskilinn er réttur til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum tilboðum.
Síðar segir:
Tilboð skal gera á meðfylgjandi tilboðsblað, sjá F4 Tilboðsblað. Tilboðum skal fylgja:
-
Útfyllt eyðublað F3 „Upplýsingar um bifreiðar“ fyrir hverja bifreið ef um fleiri bifreiðar er að ræða.
-
Sakavottorð.
-
Greinargerð, þar sem fram kemur rekstrarfyrirkomulag það sem tilboðið byggir á, þar með talið:
-
Fjölda bifreiða, gerð og tegund.
-
Fjölda starfsmanna og vinnufyrirkomulag.
-
Til hvaða úrræða verður gripið ef upp koma bilanir í bifreið.
-
Til hvaða úrræða verður gripið ef upp koma veikindi hjá starfsmönnum.
-
Kostnaðaráætlun.
-
Rekstrarform fyrirtækis (t.d. hf, sf eða annað) eigendur þess og fjárhagsstaða.
-
Form verktryggingar.
Öll tilboðin voru talin uppfylla skilyrði verklýsingar.
Í bréfi B umdæmisstjóra Pósts- og síma, dags. 14. desember 1993, segir að tilboði C hafi verið tekið vegna þess að hann hafi boðið fram bifreið betur búna til vetraraksturs en bifreið A svo og snjósleða og varabifreið sem einnig væri vel búin. Auk þess hafi C tilgreint tvo starfsmenn, sjálfan sig og eiginkonu sína sem ekki sé í vinnu og þriðja aðila til afleysinga. Hjá A hafi afleysingamaður átt að vera eiginmaður hennar sem sé í föstu opinberu starfi. Hætta hafi því verið talin á að hann yrði vart tiltækur með litlum eða engum fyrirvara. Þá hafi hún boðið fram sem varabifreið ótilgreindan bílaleigubíl. B mótmælir því alfarið að tilboði A hafi verið hafnað af því hún er kona.
Í bréfinu segir síðan:
Rétt er að fram komi að um mjög erfitt svæði að vetrinum er að ræða, svo búnaður skiptir öllu máli. Í þessu útboði, sem og öðrum slíkum var áskilinn réttur til að taka hvaða tilboði sem er. Var það niðurstaða þeirra sem um málið fjölluðu að tilboð C væri hagkvæmast með tilliti til verðs og gæða, og því rétt að taka því, enda í samræmi við útboðsstefnu ríkisins.
B lagði jafnframt áherslu á að auk þess að telja tilboð C best þó það hafi ekki verið lægst, hafi skipt máli að hann þekkti þessa leið þar sem faðir hans hafi verið landpóstur og C leyst hann af.
A telur að tilboði hennar hafi verið hafnað vegna þess að hún er kona. Tilboð hennar hafi verið lægst og á engan hátt verra en tilboð C. Samkvæmt útboðs- og verklýsingu sé æskilegt að tiltaka afleysingamann og krafa gerð um vel búinn bíl. Þessi skilyrði hafi hún uppfyllt. Hún hafi tilgreint að hún hefði afleysingamann og að hún myndi nota bílaleigubíl ef bifreið hennar bilaði. Í útboðsgögnum komi fram að skylt sé að hafa samráð við stöðvarstjóra við val á afleysingamanni og því hafi hún ekki talið þörf á að tilgreina einn tiltekinn mann í tilboði sínu. Í samtali við umdæmisstjórann hafi hún hins vegar tilgreint mann sinn. Hann sé vissulega í fullu starfi en eigi inni mjög mikið frí sem hann verði að taka á vetrum og það sé helst þá sem veður geti skipast svo að landpóstur þurfi aðstoð. C hafi tilgreint sem afleysingamann eiginkonu sína sem sé aðflutt og þekki því lítið til héraðsins eða veganna sem fara þarf um. Öðru máli gegni um mann hennar sem sé rekstrarstjóri hjá Vegargerð ríkisins og verkstjóri og veghefilsstjóri til margra ára. Ekki hafi því verið rök til að hafna tilboði hennar á þessari forsendu.
A segist hafi tjáð umdæmisstjóranum að hún hefði aðgang að snjósleða sem var ekki krafist og tekið fram í tilboði sínu að þetta yrði hennar aðalstarf. C stundi hins vegar smábátaútgerð. A mótmælir því að bifreið C hafi verið betur búin en hennar. Hún hafi boðið fram nýja bifreið af þeirri tegund sem henni var ráðlagt að kaupa til verksins. Vissulega hafi hún ekki verið sérbúin til vetraraksturs enda ekki komin til landsins þegar tilboðið var sett fram en það hafi þó staðið til. Eini munurinn á bifreiðunum fyrir utan tegundina hafi verið að hans bifreið hafi verið búin spili.
Um þá fullyrðingu að C þekki þessa leið þar sem hann hafi leyst af fyrri landpóst, segir A að hún sé fædd og uppalin á þessu svæði og hafi unnið hjá Vegagerðinni í mörg ár. Hún þekki því þessa vegi mjög vel. A bendir jafnframt á að veður eða færð hefti sjaldan för á þessu svæði. Leiðin hafi t. d. verið fær í allan vetur. Hins vegar hafi veturinn í fyrra verið mjög erfiður, þá komið skafbyljir sem stóðu í 2 til 3 daga í senn. Á það beri þó að líta að ekki sé farið með póst á hverjum degi og því ætíð ákveðinn sveigjanleiki þegar svo standi á. Oft hafi verið miðað við mokstursdaga Vegagerðarinnar og farið í kjölfar vinnuvéla.
A segir að þótt tekið hafi verið fram í útboðs- og verklýsingu að verkkaupi áskilji sér rétt til að taka hvaða tilboði sem væri eða hafna öllum, beri að líta til þess að afar fáar ef nokkrar konur séu starfandi landpóstar. Umdæmisstjórinn hafi sagt sér að henni væri hafnað vegna þess að þetta væru ekki vegir fyrir konu. Sú fullyrðing hafi verið sett fram munnlega og því ekki hægt að sanna hana. Við athugun á útboðs- og verklýsingu og skýringum umdæmisstjórans þá standist þær engan veginn. Því telji hún augljóst að sér hafi verið hafnað vegna þess að hún væri kona.
NIÐURSTAÐA
Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Eðli málsins samkvæmt hafa jafnréttislögin að geyma sérstök fyrirmæli til að stuðla að jafnrétti kvenna og karla í kjara- og launamálum og eru ýmsar skyldur lagðar á atvinnurekendur í því skyni.
Verður samkvæmt því að líta svo á að lögin tilgreini atvinnurekendur sérstaklega vegna þess lykilshlutverks sem þeir gegna í kjara- og launamálum og þar með almennt í jafnréttismálum. Þeir eru nefndir sérstaklega vegna þess að þeir eiga mikið oftar hlut að máli en ýmsir aðrir aðilar, sem þó geta verið í sambærilegri eða svipaðri stöðu að því leyti sem hér skiptir máli.
Með vísan til tilgangs laganna og grunnraka þeirra verður að túlka slík sérstök fyrirmæli rúmt og einskorða þau ekki við atvinnurekendur í hefðbundnum skilningi vinnuréttar. Ber því að beita rúmri túlkun eða eftir atvikum lögjöfnun og fella með því aðra aðila sem jafna má til atvinnurekenda í þessu tilliti, undir þau fyrirmæli jafnréttislaga, er samkvæmt orðanna hljóðan gilda um atvinnurekendur.
Í því efni koma verkkaupar til álita en mjög algengt er að gerðir séu verksamningar af ýmsu tagi, sem um allt eða flest er hér hefur þýðingu má jafna til ráðningarsamninga. Það standa eins og áður sagði öll rök til þess að beita ákvæðum jafnréttislaga um slíka verksamninga og jafna verkkaupum til atvinnurekenda þar sem það á við. Að öðrum kosti ná jafnréttislögin ekki tilgangi sínum og þá væri hægurinn að sniðganga ákvæði þeirra.
Hefðbundnir ráðningasamningar hafa í talsvert ríkum mæli og vaxandi að því er virðist þokað fyrir verksamningum og útboðum af ýmsum toga. Það hefur t.d. mjög færst í vöxt að opinberir aðilar bjóði út ákveðin verk eða ákveðna þætti í starfsemi sinni. Er útboð það og samningsgerð sú, sem hér er til umfjöllunar dæmi um slíkt.
Kærunefndin telur að með vísan til þessa, að umrætt útboð og verksamningar séu þess eðlis og atvik málsins að öðru leyti þannig að jafnréttislögin eigi við og málið hafi því réttilega verið lagt fyrir nefndina.
Í útboðs- og verklýsingu Pósts og síma er gerð, frágangi og meðferð tilboða lýst. Tekið er fram hvað skuli felast í tilboðsverði; hvaða skilyrði tilboð þurfa að uppfylla til að teljast gild og tilgreind eru ýmiss viðbótaratriði sem tilboðsgjafa er ekki skylt að uppfylla en tekið fram að þeim tilboðum sem uppfylla lágmarkskröfur og viðbótaróskir að auki, verði tekið að öðru jöfnu.
Tilboð C var á tilboðseyðublaði frá Pósti og síma svo sem áskilið var. Til viðbótar lágmarksskilyrðum verklýsingar, bauð hann fram m.a. annan starfsmann auk afleysingamanns, bifreið sérbúna til vetraraksturs, varabifreið og snjósleða. Tilboð A var ekki á tilboðseyðublaði Pósts og síma, ekki tekið fram að bifreið hennar yrði sérbúin til vetraraksturs, ekki boðinn fram annar starfsmaður auk afleysingamanns, varabifreið ótilgreindur bílaleigubíll og ekki boðinn fram snjósleði. Hins vegar er því ómótmælt að hún hafi síðar boðið fram snjósleða og tekið fram að bifreið hennar yrði sérbúin. Þegar tilboðin eru borin saman kemur í ljós að tilboð C er aðeins tæplega 7% hærra en tilboð A sem telja verður tiltölulega lítinn mun miðað við þær fjárhæðir sem um ræðir.
Með vísan til framangreinds telur kærunefnd jafnréttismála að umdæmisstjóri Pósts og síma hafi á fullnægjandi hátt sýnt fram á að rök hafi verið fyrir því að taka tilboði C. Umdæmisskrifstofa Pósts og síma hafi því ekki brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Helgi Guðjónsson