Endurskoðun reglna um bifreiðamál hreyfihamlaðra
Félags- og húsnæðismálaráðherra og heilbrigðisráðherra hafa ákveðið að hefja endurskoðun á reglum um bifreiðamál hreyfihamlaðra. Ýmsar ábendingar hafa komið fram sem sýna að endurskoðun þessara reglna er nauðsynleg og tímabær.
Reglur um bifreiðamál hreyfihamlaðra hafa verið óbreyttar að stofni til um árabil. Í skipunarbréfi nýskipaðs starfshóps um endurskoðun þeirra er meðal annars bent á að mikil viðhorfsbreyting hafi orðið í samfélaginu varðandi notkun einkabíla og almenningssamgangna og einnig á nauðsyn þess að rjúfa félagslega einangrun og auðvelda fötluðum að fara ferða sinna.
Bifreiðamál hreyfihamlaðra hafa verið til skoðunar í velferðarráðuneytinu í tengslum við heildarendurskoðun almannatryggingalaga. Ráðuneytinu hafa borist ýmsar ábendingar og kvartanir vegna gildandi reglna og eins hefur úrskurðarnefnd almannatrygginga kveðið upp nokkra úrskurði sem gefa tilefni til endurskoðunar þeirra. Einnig hefur umboðsmaður Alþingis gefið út álit er varða reglur um bifreiðamál hreyfihamlaðra sem nauðsynlegt er að bregðast við.
Miðað er við að starfshópurinn leiti til Þroskahjálpar um þau málefni endurskoðunarinnar sem snúa að fötluðum börnum og eins er mælst til þess að skoðað verði hvernig þessum málum er háttað annars staðar á Norðurlöndunum. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum að breytingum á gildandi lögum og reglum í málaflokknum.