Hoppa yfir valmynd
9. mars 2020

Réttindi hinsegin fólks í aðildarríkjum OECD til umfjöllunar á fundi fastafulltrúa stofnunarinnar

Á tveggja ára afmælisfundi jafnréttishóps fastafulltrúa OECD (Friends of Gender Equality Plus) var sjónum beint að réttindum hinsegin fólks í aðildarríkjunum og hvernig hraða megi umbótum á stöðu þeirra.

Ángel Gurría aðalframkvæmdastjóri OECD setti fundinn en aðalræðumaður var dr. Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði. Hann gerði grein fyrir þeirri umbreytingu sem orðið hefur á viðhorfi til hinsegin fólks í íslensku samfélagi á stuttum tíma og hvaða aðdraganda það hafði.

Kristján Andri Stefánsson sendiherra og fastafulltrúi Íslands gagnvart OECD er annar tveggja formanna jafnréttishóps fastafulltrúanna en hópurinn fylgist með framkvæmd jafnréttismarkmiða í starfsemi stofnunarinnar bæði m.t.t. jafnréttis kynjanna og hinsegin fólks. Kristján Andri stýrði umræðum á fundinum og sagði kærkomið að fá tækifæri til að benda á þann árangur sem náðst hefur á Íslandi en samkvæmt niðurstöðum könnunar sem birt var í skýrslu OECD Society at a glance 2019 nýtur hinsegin fólk mestrar samfélagslegrar viðurkenningar á Íslandi af öllum ríkjum OECD. „Mörg aðildarríki OECD eiga enn langt í land að bæta réttarstöðu hinsegin fólks. Þótt góður árangur hafi náðst víða nær vegið meðaltal á kvarðanum 1 til 10 ekki nema 5. Það er ekki aðeins siðferðilega óásættanlegt heldur kemur einnig niður á efnahagslegri og félagslegri stöðu þeirra sem í hlut eiga“ segir Kristján Andri.

Fundurinn var vel sóttur á honum sköpuðust líflegar umræður. Meðal þess sem fram kom er að samfélagsleg viðurkenning hinsegin fólks eykst mun hraðar í ríkjum sem sett hafa lög er heimila hjónabönd og ættleiðingar samkynhneigðra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta