Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Roðagyllt utanríkisþjónusta í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi

Utanríkisráðuneytið í roðagylltum ljóma. - mynd

Utanríkisráðuneytið og fjölmargar sendiskrifstofur Íslands erlendis hafa verið lýstar upp með roðagylltum lit í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið hófst á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum síðastliðinn föstudag og er roðagyllti liturinn táknrænn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis. Þetta er í þriðja sinn sem utanríkisþjónustan vekur athygli á átakinu með þessum hætti en því lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna 10. desember næstkomandi.

„Saman verðum við að berjast gegn hvers kyns ofbeldi gegn konum og stúlkum – allstaðar og alltaf. Því miður er ofbeldi gegn konum og stúlkum eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum og fyrirfinnst í öllum ríkjum heims. Mikilvægir sigrar hafa unnist þökk sé þrotlausri baráttu hugrakkra kvenna en á móti hafa nýjar tegundir ofbeldis komið fram á sjónarsviðið eins og stafrænt kynferðisofbeldi. Ég hvet öll til að láta til sín taka í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi þessa sextán daga – og alla daga,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Á meðal þeirra sendiskrifsstofa sem lýstar eru upp af þessu tilefni eru sendiráð Íslands í Berlín, Helsinki, Kaupmannahöfn, Moskvu, Peking, Tókýó og Stokkhólmi og aðalræðisskrifstofur Íslands í Nuuk og Þórshöfn.

Sem forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins gaf Þórdís Kolbrún út yfirlýsingu á dögunum þar sem hún hvatti aðildarríki ráðsins til að taka þátt í átakinu og berjast gegn kynbundnu ofbeldi alla daga. Á meðan á formennsku Íslands í Evrópuráðinu stendur verður lögð áhersla á vitundavakningu um ólíkar birtingarmyndir ofbeldis gegn konum og stúlkum. Í því skyni mun fastanefnd Íslands gagnvart Evrópuráðinu, í samstarfi við fastanefndir annarra aðildarríkja, standa fyrir samfélagsmiðlaherðferð til að vekja athygli á jákvæðum áhrifum samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, svokallaðs Instanbúl-samnings, í aðildarríkjum ráðsins.

Kynbundið ofbeldi er eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum og fyrirfinnst á öllum sviðum samfélagins. Samkvæmt nýrri skýrslu UN Women voru 81.100 konur og stúlkur drepnar af yfirlögðu ráði á síðasta ári og rúmlega helmingur þeirra voru drepnar af maka eða nánum ættingja.

  • Aðalræðisskrifstofa Íslands í Nuuk. - mynd
  • Roðagyllt utanríkisþjónusta í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi - mynd úr myndasafni númer 2
  • Sendiráð Íslands í Helsinki. - mynd
  • Aðalræðisskrifstofa Íslands í Þórshöfn - mynd
  • Sendiráð Íslands í Peking. - mynd
  • Sendiráð Íslands í Moskvu. - mynd
  • Sendiráð Íslands í Stokkhólmi. - mynd
  • Sendiráð Íslands í Tókýó - mynd
  • Sendiráð Íslands í Berlín. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta