Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2020 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/2020 - Úrskurður

Mál nr. 4/2020

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Ríkisútvarpinu ohf.

 

Ráðning í starf. Hæfnismat.

Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu kærða á karli í stöðu útvarpsstjóra. Kærunefndin fjallaði um þá sérstöðu sem opinber hlutafélög nytu að lögum. Þannig leiddi það af dómaframkvæmd Hæstaréttar að almennt giltu hvorki reglur opinbers starfsmannaréttar né reglur stjórnsýsluréttar um réttarstöðu starfsmanna opinberra hlutafélaga heldur reglur hins almenna vinnumarkaðar. Ráðning kærða á útvarpsstjóra lyti þar með lögmálum vinnuréttar fremur en opinbers starfsmannaréttar. Sú staða opinbers hlutafélags sem löggjafinn hefði ljáð kærða hefði þýðingu við úrlausn málsins þar sem kærði nyti samkvæmt framangreindu aukins svigrúms samanborið við opinbera veitingarvaldshafa við mat á því hvaða sjónarmið skyldu lögð til grundvallar við ráðningar sem og við mat á því hvernig einstakir umsækjendur féllu að þeim sjónarmiðum. Kærunefndin gerði ekki athugasemd við það mat kærða að karlinn hefði staðið kæranda framar í þeim tveimur matsflokkum sem vógu þyngst í ráðningarferlinu, þ.e. reynslu af stjórnun og rekstri, sem hafði 34% vægi, og reynslu af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu, sem hafði 26% vægi. Heilt á litið taldist kærandi ekki hafa leitt líkur að því að henni hefði verið mismunað við ráðningu í starf útvarpsstjóra, enda þótt nefndin hefði sett fram ákveðnar aðfinnslur við mat kærða á menntun kæranda og matsflokknum „fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmál“.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 26. ágúst 2020 er tekið fyrir mál nr. 4/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 21. febrúar 2020, kærði A ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf. um að ráða karl í stöðu útvarpsstjóra. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran, ásamt fylgigögnum, var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 25. febrúar 2020, og óskað eftir afstöðu hans. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 17. mars 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 19. mars 2020.
  4. Frestur til þess að skila athugasemdum við greinargerð kærða var framlengdur að beiðni kæranda til 14. apríl 2020 og þann dag barst kærunefndinni bréf kæranda, dagsett 14. apríl 2020, með athugasemdum við greinargerð kærða. Var bréfið kynnt kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 14. apríl 2020. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 28. apríl 2020, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 30. apríl 2020. Með sama bréfi var kærandi upplýst um að málið væri tekið til úrlausnar og var kærði jafnframt upplýstur um það með bréfi kærunefndar sama dag.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti laust starf útvarpsstjóra 15. nóvember 2019. Í auglýsingunni kom fram að hlutverk útvarpsstjóra væri að framfylgja stefnu Ríkisútvarpsins og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Leitað væri að öflugum og reyndum leiðtoga til að stýra Ríkisútvarpinu inn í nýja tíma miðlunar. Tekið var fram að útvarpsstjóri starfi í umboði stjórnar. Einnig að ráðið yrði í stöðuna til fimm ára og viðkomandi skyldi uppfylla hæfnisskilyrði samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið. Í auglýsingunni voru skilgreindar eftirfarandi hæfniskröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi; Reynsla af stjórnun og rekstri; Leiðtogahæfileikar og góð hæfni í mannlegum samskiptum; Skilningur og áhugi á nýjum miðlum; Reynsla af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu; Þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmálum; Góð tungumálakunnátta og góð hæfni til tjáningar í ræðu og riti. Þá var starfssviðinu lýst með eftirfarandi hætti: Dagleg stjórnun og ábyrgð á rekstri félagsins; Yfirumsjón og ábyrgð allrar dagskrárgerðar; Stefnumótun og markmiðasetning; Samskipti við hagaðila; Alþjóðlegt samstarf.
  6. Alls barst 41 umsókn um starfið. Fyrsta mat á umsóknum fór þannig fram að kærði fór yfir umsóknargögn og boðaði að því loknu 19 umsækjendur í starfsviðtal. Kærandi var þar á meðal. Í viðtölunum fengu umsækjendur fyrir fram ákveðnar spurningar og voru þau tekin af tveimur ráðgjöfum Capacent. Að loknu öðru mati var ákveðið að leggja persónuleikapróf fyrir fjóra umsækjendur en kærandi var ekki þar á meðal. Þegar niðurstöður persónuleikaprófsins lágu fyrir voru umsækjendur boðaðir í viðtöl hjá ráðgjafa Capacent þar sem farið var yfir niðurstöðu prófsins. Þá voru niðurstöðurnar kynntar kærða. Að loknu þriðja mati voru þrír umsækjendur boðaðir í framhaldsviðtöl við kærða og ráðgjafa Capacent þar sem lagt var fyrir þau raunhæft verkefni. Verkefnið samanstóð af fjórum eftirfarandi spurningum: „1.) Lýstu þinni framtíðarsýn fyrir kærða 2030. Hver verða lykilverkefni þín næstu 12 mánuði í starfi og hvernig mælir þú að þú sért á réttri leið? 2.) Hvaða þrjár til fjórar helstu áskoranir sérð þú fyrir þér í starfsemi kærða næstu misserin og hvernig hyggst þú takast á við þær? 3.) Nú stendur kærði frammi fyrir því að þurfa skera niður í rekstri félagsins. Hvernig myndir þú bregðast við því? 4.) Hvað þarft þú að gera persónulega til að vera góður útvarpsstjóri? Hvaða þróunarplan sérðu fyrir þér til næstu fjögurra ára og af hverju?“ Að viðtölunum afstöðnum var umsagna aflað um umrædda þrjá umsækjendur. Stjórn kærða fól ráðgjöfum Capacent það verkefni að hafa samband við umsagnaraðila. Að endingu var ákveðið að bjóða einum umsækjendanna, karlmanni, starfið sem hann þáði.
  7. Með tölvubréfi kæranda, sendu 28. janúar 2020, óskaði hún eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni um ráðninguna. Með tölvubréfi kærða, sendu 7. febrúar 2020, var þeirri beiðni kæranda synjað á þeirri forsendu að kærði taldi sér ekki lögskylt að veita einstökum umsækjendum sérstakan rökstuðning.
  8. Með tölvubréfi kæranda, sendu 28. janúar 2020, óskaði hún eftir öllum gögnum sem vörðuðu ráðningu útvarpsstjóra, þar með talin matsblöð, ferilskrár og umsagnir. Þá óskaði hún eftir lýsingu á ráðningarferlinu. Með tölvubréfi kærða, sendu 7. febrúar 2020, var þeirri beiðni kæranda synjað á þeirri forsendu að hann taldi sér ekki lögskylt að veita umbeðnar upplýsingar.
  9. Kærði birti minnisblað í formi tilkynningar, dagsettrar 14. febrúar 2020, vegna ráðningar í starfið.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  10. Kærandi telur með hliðsjón af auglýsingu um starfið og ferilskrá hennar að augljóst sé að hún hafi staðið framar karlinum sem ráðinn hafi verið. Beiðni hennar um gögn og rökstuðning frá ráðgjafarfyrirtækinu og stjórn kærða hafi verið hafnað. Það styrki grunsemdir hennar um að umsókninni hafi viljandi verið ýtt út af borðinu og hún því ekki fengið þá afgreiðslu sem henni hafi borið í ráðningarferlinu.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  11. Kærði segir að gæta verði að því að starfsemi hans sé lögbundin, sbr. nánar lög nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Kærði sé þjóðarmiðill og skuli rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Hann skuli leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleið, sbr. nánar 1. gr. laganna. Kærði sé sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Fjölmiðlaþjónustu kærða í almannaþágu, auk annarrar starfsemi, sé nánar lýst í lögunum. Um starfssvið stjórnar og hlutverk útvarpsstjóra sé fjallað í 10. og 11. gr. laganna. Þar segi meðal annars að útvarpsstjóri hafi daglegan rekstur félagsins með höndum og sé jafnframt æðsti yfirmaður dagskrárgerðar. Útvarpsstjóri sé jafnframt framkvæmdastjóri félagsins í skilningi laga nr. 2/1995 um hlutafélög og beri ásamt stjórn skyldur samkvæmt því, þar á meðal tengdum fjárreiðum félagsins. Varðandi síðasttalið atriði megi og benda á að ríkisendurskoðandi hafi í skýrslu, sem hafi tekið til starfsemi kærða, talið að greiðslugeta sé veik og fjárhagsleg staða félagsins viðkvæm.
  12. Fyrsta mat hafi verið byggt á skriflegum gögnum umsækjenda, það er ferilskrá og kynningarbréfi. Umsóknargögn hafi verið metin í samræmi við menntunar- og hæfniskröfur sem hafi komið fram í auglýsingu. Við matið hafi verið stuðst við fyrir fram skilgreind viðmið og vægi sem hafi byggt á hæfniskröfum í auglýsingu. Stjórn kærða hafi rætt og tekið ákvörðun um vægi matsþátta og skilgreiningu þeirra. Nánar tiltekið hafi vægi menntunar verið 12%, stjórnunar- og rekstrarreynsla 34%, reynsla af stefnumótun og innleiðing stefnu 26%, þekking/reynsla af fjölmiðlum, menningar- og samfélagsmálum 24% og tungumálakunnátta og hæfni til tjáningar í ræðu og riti 4%. Gefin hafi verið 0-4 stig undir hverjum matsþætti. Matið á þessu stigi matsferilsins hafi verið nokkuð gróft, en síðan tekið á sig nákvæmari mynd við frekari yfirlegu umsókna og með viðtölum við umsækjendur undir öðru stigi matsins. Vægi matsþátta hafi þá verið óbreytt.
  13. Annað mat hafi falist í ítarlegum viðtölum við 19 umsækjendur, þar á meðal kæranda og þann sem ráðinn hafi verið. Viðtölin hafi verið tekin af tveimur ráðgjöfum Capacent. Viðtölin hafi verið sérsniðin með tilliti til starfsins og tekið mið af hæfniskröfum sem hafi komið fram í auglýsingu um starfið. Í viðtölunum hafi verið reynt að fá fram með skýrum hætti hvernig umsækjendur mátu reynslu sína, þekkingu og hæfni til að sinna starfinu, sem og viðhorf þeirra, metnað og væntingar til starfsins. Viðtalið hafi byggt á nokkrum hæfniskröfum; stjórnunarreynslu, reynslu af rekstri og sýn á hlutverk útvarpsstjóra, auk þess sem viðmælendur hafi átt að gera grein fyrir ástæðu umsóknar um starfið.
  14. Varðandi menntun hafi umsækjendur, sem höfðu lokið meistarastigi í háskólanámi, jafnan fengið 4 stig, líkt og hafi háttað til um kæranda og þann sem ráðinn hafi verið. Ekki hafi þótt ástæða til að gera sérstakan greinarmun á því hvers konar háskólanám væri jafnan um að ræða, heldur fyrst og síðast að umsækjendur hefðu háskólapróf og þannig tileinkað sér rökhugsun, gagnrýna hugsun og skipulega aðferðafræði. Umsóknir kæranda og þess sem ráðinn hafi verið og starfsreynsla hafi jafnframt gefið ástæðu til að ætla að þau byggju yfir góðri tungumálakunnáttu, bæði í íslensku og ensku, og Norðurlandamáli, ásamt því að geta tjáð sig í ræðu og riti.
  15. Þau hafi einnig verið metin jafn hæf þegar komið hafi að þekkingu og reynslu af fjölmiðlum, menningar- og samfélagmálum, og fengið 2 stig hvort. Þau hafi þótt búa yfir ákveðinni þekkingu og reynslu í öllum þessum flokkum, en sá sem ráðinn hafi verið aðallega í samfélagsmálum, þar á meðal sem sviðsstjóri velferðarsviðs og borgarritari Reykjavíkurborgar, og áður sem lögreglustjóri, sem séu störf af mjög samfélagslegum toga, og kærandi aðallega í fjölmiðlum. Aftur á móti hafi hvorugt þeirra þótt hafa víðtæka reynslu og þekkingu í öðrum málaflokkum, þar með talið að loknum viðtölum ráðgjafa og frekara mati umsókna, en kærandi hafi upphaflega fengið 3 stig en sá sem ráðinn hafi verið 2.
  16. Hvað stjórnunar- og rekstrarreynslu hafi varðað hafi sá sem ráðinn hafi verið staðið kæranda framar. Hann hafi fjölbreytta reynslu af stjórnun og rekstri opinberra stofnana og margra opinberra hlutafélaga. Hann hafi sinnt starfi skrifstofustjóra og verið staðgengill ráðuneytisstjóra dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá árinu 2002 til 2006. Hann hafi stýrt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá stofnun embættisins árið 2007 til 2014, en mjög hafi reynt á lögregluna á því tímabili. Á árunum 2002 til 2006 hafi hann jafnframt verið stjórnarformaður Neyðarlínunnar hf. Frá árinu 2014 til ársins 2017 hafi hann starfað sem sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar en undanfarin tvö ár hafi hann gegnt starfi borgarritara og haldið þar utan um miðlæga stjórnsýslu borgarinnar og samskipti við hlutafélög í eigu borgarinnar. Hann hafi jafnframt verið staðgengill borgarstjóra. Kærandi búi einnig yfir stjórnunar- og rekstrarreynslu, en hún hafi aftur á móti ekki verið talin jafn fjölþætt og mikil og reynsla þess sem ráðinn hafi verið, þar á meðal að teknu tilliti til þess að kærði sé opinbert hlutafélag og rekstur þess um ýmislegt áþekkur rekstri opinberra stofnana. Kærandi hafi starfað sem framkvæmdastjóri SÍBS 1999 til 2000. Á árunum 2014 til 2018 hafi hún verið útgefandi og aðalritstjóri 365 miðla og 2018 til 2019 hafi hún starfað sem ritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins, frettabladid.is og Glamour. Á fyrsta matsstigi hafi kærandi fengið 4 stig líkt og sá sem ráðinn hafi verið, en hún hafi lækkað í 3 stig eftir viðtalið og frekara mat, en að mati sérfræðinganna hafi svör hennar í viðtali ekki borið nægilega með sér að hún hefði þá stjórnunar- og rekstrareynslu, þar með talda leiðtogahæfni, sem hæfði 4 stigum, sbr. hér síðar, ásamt því að reynsla hennar hafi verið talin vera á frekar afmörkuðu sviði samanborið við reynslu þeirra sem hafi skorað hæst.
  17. Hvað varði reynslu af stefnumótun og innleiðingu, þá hafi sá sem ráðinn hafi verið fengið 4 stig en kærandi 3 stig og hafi það verið óbreytt frá fyrsta mati. Þegar sá sem ráðinn hafi verið hafi tekið við starfi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu hafi hann fengið það verkefni að undirbúa stofnun embættisins. Embættið hafi formlega orðið til 1. janúar 2007 við sameiningu þriggja lögregluliða á höfuðborgarsvæðinu. Hann hafi leitt verkefnastjórn og síðar framkvæmdanefnd um nýskipan lögreglumála sem hafi mótað þær umfangsmiklu breytingar sem gerðar hafi verið á skipulagi lögreglunnar árið 2007. Auk þessa hafi hann komið að fjölmörgum breytingastjórnunarverkefnum, stórum sem smáum, í tengslum við störf sín innan lögreglunnar, hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu sem og hjá Reykjavíkurborg. Hann hafi jafnframt haft forystu um verkefni sem hafi meðal annars verið tilnefnd til nýsköpunarverðlauna, bæði hér heima og á erlendum vettvangi. Reynsla kæranda af stefnumótun og innleiðingu hafi fyrst og fremst falist í reynslu hennar sem stjórnanda hjá 365 miðlum, en dæmi þess efnis hafi þó ekki verið ítarleg. Ekki verði séð af fyrirliggjandi gögnum að reynsla hennar sé jafn fjölþætt og víðtæk og reynsla þess sem ráðinn hafi verið.
  18. Tilgangur með viðtölunum sem sérfræðingarnir hafi tekið hafi meðal annars verið sá að afla frekari upplýsinga en þeirra sem eingöngu hafi komið fram í umsóknargögnum. Mat á frammistöðu í atvinnuviðtali sé alltaf í eðli sínu að einhverju leyti huglægt. Það breyti því ekki að þau séu, svo sem alkunna sé, talin skipta verulegu máli við mat á starfshæfni umsækjenda og viðurkenndur mælikvarði sem líta beri til.
  19. Hvað varði þann sem ráðinn hafi verið, þá hafi það verið mat þeirra að hann hafi komið vel fyrir í viðtali, verið skýr og skipulagður í svörum. Hann hafi komið reynslu sinni sem leiðtogi og stjórnandi vel til skila og tekið mörg dæmi. Hann hafi verið afslappaður og yfirvegaður í viðtali og í erfiðum aðstæðum nýti hann þann hæfileika vel. Hann skilji hlutverk forstjóra mjög vel, þ.e. að stjórna í gegnum stjórnendur. Hann skilji skipulag, vinnu með stoðdeildum, mannauðsstjóra, fjármálastjóra, markaðsstjóra og að það séu þau sem hafi sérfræðiþekkingu. Hann fari ekki í smáatriði eins og hvað þessi og hinn dagskrárgerðarmaður geri heldur fari réttar boðleiðir.
  20. Um kæranda hafi verið tiltekið að í viðtalinu hafi komið vel fram að hún hafi góðan skilning á fréttum og starfsemi fréttastofu og hún hafi fyrst og fremst virst vera fréttamanneskja. Hún hafi ekki byrjað að blómstra í viðtalinu fyrr en umræðan hafi tengst listum. Hún hafi borið með sér að vera keppnismanneskja og hörkudugleg. Hún hefði mátt nýta tækifærið sem felist í viðtali betur og koma þekkingu, reynslu og hæfni sinni betur á framfæri og rökstyðja mál sitt með dæmum. Svör hennar hafi verið frekar almenn en sértæk. Hún hafi hvorki sýnt fram á né nefnt hvaða aðferðum hún beiti til að fá starfsfólk með sér í lið eða til að fylgja sér, né hvernig hún fari að því að hvetja fólk áfram í vinnu. Hún hafi rökstutt breytingar sem hún hafi tekist á við með því að nefna að hún hafi gert breytingar á starfsmannahópi. Þegar hún hafi tekið til starfa hjá 365 miðlum hafi fyrirtækið verið frekar karllægt og karlmenn í stjórnunarstöðum en hún hafi fjölgað konum í stjórnunarstöðum. Þá hafi hún sagst hafa reynslu af erfiðum starfsmannamálum. Hún hafi ekki getað nefnt sértækt dæmi en nefnt að erfiðast hafi verið að segja upp fólki. Af svörum í viðtali hafi komið fram að hún hafi ríka rekstrarvitund, það megi skilja að hún noti kostnað sem stjórntæki. Svör kæranda hafi borið þess vott að hún hafi ríkt kostnaðaraðhald og hafi hún virst vera aðhaldsmanneskja í rekstri.
  21. Að loknum viðtölum hafi ráðgjafarnir fundað með stjórn kærða þar sem farið hafi verið yfir niðurstöður þeirra. Í ljósi niðurstöðu annars mats hafi stjórnin ákveðið að leggja viðurkennt persónuleikamat OPQ 32 fyrir fjóra umsækjendur sem hafi þótt, að teknu tilliti til alls framangreinds, hafa sérstöðu í hópi umsækjenda og uppfylla best hæfniskröfur sem hafi komið fram í auglýsingu um starfið. Kærandi hafi ekki verið í þeirra hópi, og verði ekki séð, að öllu framangreindu gættu, að hún hafi verið jafn hæf og sá sem ráðinn hafi verið.
  22. Að öllu framangreindu virtu standi ekki rök til þess að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008 hvað kæranda varði við ráðningu í starf útvarpsstjóra.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  23. Kærandi telur svör kærða á engan hátt fullnægjandi til þess að sýna fram á að ekki hafi verið brotið á henni við ráðninguna. Um það vísist meðal annars til úrskurðar kærunefndarinnar í máli nr. 6/2019 sem kærandi telji um margt skylt sínu máli. Einnig sé vísað til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 8/2018 og álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6614/2011.
  24. Stjórn kærða hafi verið ábyrg fyrir ráðningu í starfið. Hún hafi útfært hvernig mat á umsækjendum færi fram, ákveðið vægi þátta og hverjum skyldi boðið í viðtöl. Hún hafi einnig gefið einkunnir á grundvelli matsins og breytt þeim eftir á, eftir því sem hafi hentað eftir því sem best verði séð.
  25. Stjórn kærða hafi í greinargerð sinni framvísað viðmiðum sínum við mat á umsækjendum. Stjórnin hafi sett sér viðmið og sé bundin af þeim við ákvörðun um ráðninguna. Því skipti engu hvort hún hafi verið bundin af stjórnsýslureglum við ákvörðunina. Augljóst sé að hún hafi ekki farið að eigin viðmiðum við ákvörðunina sem hafi því verið ómálefnaleg.
  26. Kærði leggi áherslu á að hann sé þjóðarmiðill, um starfsemi þess fari að lögum og það sé opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Þetta leggi stjórninni ríkar skyldur á herðar. Kærandi telji að ráðningin hafi falið í sér brot á þessum skyldum.
  27. Útvarpsstjóri sé yfirmaður stærsta fjölmiðils á Íslandi og eina ríkisfjölmiðilsins. Í ljósi þess sem stjórn kærða segi um kærða, geti hún ekki talist hafa frjálsar hendur við skilgreiningu viðmiða sem lögð séu til grundvallar við mat á umsækjendum. Viðmiðin eigi að vera almenn, ekki sértæk. Um þetta vísist meðal annars til niðurstöðu kærunefndarinnar í máli nr. 4/2013 sem staðfest hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 364/2014.
  28. Handvalin sjónarmið, sem hygli einum umsækjanda á kostnað annars, eigi ekki að komast að. Þær ríku skyldur, sem stjórn kærða telji til sín gerðar, eigi nákvæmlega að verða til þess að almenn sjónarmið um menntun og reynslu, sem fallin séu að starfinu, ráði því hver það hljóti.
  29. Kærandi dragi ekki í efa að stjórn kærða fari með ráðningarvaldið. Aftur á móti hafi henni borið skylda til að fara með það á málefnalegan hátt og leggja hlutlæga mælikvarða á eftir því sem auðið hafi verið. Að því marki sem huglægt mat eigi við, hafi stjórninni verið skylt að láta eitt yfir alla ganga og nálgast alla umsækjendur út frá sömu forsendum. Þessari skyldu hafi kærði brugðist.
  30. Kærði leitist við að sýna fram á að matsgrunnurinn hafi verið málefnalegur. Samanburður hafi verið settur upp í töflu til þess að undirstrika hversu hlutlægur hann hafi verið. Sé aftur á móti litið til þeirra þátta sem liggi undir blasi þó við að þeir séu meira og minna huglægir.
  31. Enginn vafi leiki á því að á grundvelli allra mælikvarða hafi kærandi verið betur að starfinu komin en sá sem það hafi fengið. Það helgist ekki síst af því að þegar komi að mati á reynslu megi augljóst vera að reynsla kæranda hefði með beinum hætti nýst í starfinu. Hún hafi í fyrri störfum sínum verið jafn nærri því að vinna störf sem séu sambærileg þeim sem útvarpsstjóri vinni og hægt sé, á Íslandi að minnsta kosti. Þetta eigi ekki við um þann sem ráðinn hafi verið.
  32. Augljóst sé að rétt beiting stjórnar kærða á eigin viðmiðum hefði orðið til þess að kærandi hefði staðið framar þeim sem hafi fengið starfið í niðurstöðu matsins.
  33. Það sé í raun enginn samjöfnuður með kæranda og þeim sem hafi fengið starfið þegar til dæmis komi að matsþættinum þekking og reynsla af fjölmiðlum, menningar- og samfélagsmálum. Kærandi hafi stærstan hluta starfsferils síns starfað við fjölmiðla, sem blaðamaður, við fréttastjórn og svo á síðustu sjö árum, sem hafi verið viðmiðunartímabil stjórnar kærða, við stjórn eina fjölmiðlafyrirtækis á landinu sem sé á nokkurn hátt hægt að bera saman við kærða. Umfangið hafi þar að auki verið um sumt meira þar sem einnig hafi verið um að ræða útgáfu dagblaðs.
  34. Áfram varðandi þann matsþátt hafi alfarið verið litið fram hjá störfum kæranda að menningar- og samfélagsmálum. Hún hafi stjórnað góðgerðarsjóði Baugs, sem hafi verið einn sá stærsti sinnar tegundar á Íslandi, hún hafi stutt listir, menningu og hvers kyns mannúðar- og velferðarmál. Hún hafi dvalið um nokkurra mánaða skeið í Malaví og Rúanda til að gera kynningarmynd um starfsemi Clinton-Hunter sjóðsins í löndunum tveimur. Verkefnið hafi falist í samstarfi við bændur á svokölluðum „Fair Trade“ forsendum sem sé útbreidd aðferð í þróunarmálum og hafi lyft hundruðum þúsunda í fátækustu ríkjum heims upp úr sárri fátækt. Hún hafi sótt sendifulltrúanámskeið Rauða krossins í Noregi til undirbúnings hjálparstarfi á átakasvæðum. Um þetta megi hafa langt mál sem kærandi hafi aldrei fengið tækifæri til að flytja á sama hátt og sá sem starfið hafi fengið. Fleira megi taka til, svo sem skipulag Krabbameinshlaups, sem hafi verið eitt fyrsta almenningsgötuhlaupið í höfuðborginni, hlutverk í barna- og unglingastarfi KR, seta í verðlaunanefnd Blaðamannafélags Íslands og formennska í stjórn samfélagsverðlauna Fréttablaðsins.
  35. Með vísan til framangreinds hefði kærandi í raun átt að fá fullt hús stiga í þessum matsþætti, út frá viðmiðum stjórnar kærða. Stjórnin hljóti að þurfa að færa rök fyrir slakri einkunn kæranda í þessum lið og þá sérstaklega því að hafa dregið hér frá henni stig í öðrum matshluta sem hún hafi fengið í fyrsta matshluta. Með því hafi kærandi hlotið sömu einkunn í þessum matslið og sá sem hafi fengið starfið.
  36. Sömu rök eigi við um hina tvo matsliðina þar sem kærandi hafi fengið lægri einkunn en sá sem hafi fengið starfið. Það sé einfaldlega röng niðurstaða, sé litið til þess að reynsla hennar úr fyrri störfum sé mun nær umræddu starfi heldur en hægt sé að segja um reynslu þess sem ráðinn hafi verið.
  37. Kærði færi engin rök fyrir því að hafa dregið stig af kæranda á síðari stigum, sbr. framangreint. Það hafi orðið til þess að meðaleinkunn hennar hafi farið úr 3,5 í 2,92. Gögn málsins virðast bera með sér að með því hafi hún fallið úr öðru sæti umsækjenda í það fimmta. Það hafi skipt töluverðu máli í ljósi þess að fjórir umsækjendur hafi verið valdir til frekara mats. Vegna þessa frádráttar hafi kærandi orðið af því og þar með möguleikanum til þess að gera enn frekari grein fyrir sér og sínum kostum.
  38. Á sama hátt sé augljóst að kærandi hefði staðið fremst umsækjenda hefði réttum viðmiðum verið beitt varðandi hina tvo matsliðina sem hún hafi fengið lakari einkunn í en sá sem ráðinn hafi verið. Kærandi geti því ekki varist þeirri hugsun að beinlínis hafi verið leitað leiða til þess að koma henni úr efstu sætunum og þar með ganga fram hjá konu, sem hafi verið hæfust til starfans, eða að minnsta kosti hæfari en karlinn sem hafi verið ráðinn, út frá bæði almennum sjónarmiðum og réttri beitingu þeirra viðmiða sem stjórn kærða hafi sett sér. Freistandi sé að álíta að matsgrunnurinn hafi í raun verið búinn til eftir á og leitast við að stilla hann þannig af að réttlætta mætti að velja þann sem ráðinn hafi verið umfram kæranda.
  39. Niðurstaðan í fyrrnefndu máli kærunefndarinnar nr. 6/2019 beri ekki einungis með sér að þeim sem ráði í stöður beri að beita málefnalegum sjónarmiðum við mat, heldur enn fremur að kærunefndin hafi vald til þess að endurmeta. Sama vald sé staðfest nefndinni til handa í áðurnefndum dómi Hæstaréttar nr. 364/2014 og enn gæti sömu sjónarmiða í úrskurði nefndarinnar nr. 8/2018. Sérstaklega megi í því máli vísa til þess að ástæða hefði verið til að kalla eftir umsögnum varðandi matskennda þætti sem ekki hafi verið gert. Í ljósi þess sem fram komi í nefndum málum, fari kærandi fram á að kærunefndin beiti valdi sínu til endurmats í þessu máli.
  40. Enn fremur sé gerð krafa um að kannað verði hvort kærði hafi afhent nefndinni öll gögn Capacent sem einhverju kunni að hafa varðað í samanburði á kæranda og þeim sem ráðinn hafi verið. Í því sambandi sé vakin athygli á því að grundvallarmunur sé á framsetningu viðtala Capacent við kæranda og þann sem starfið hafi hlotið. Viðtalið við kæranda sé sett fram sem endursögn Capacent af viðtali við hana, í þriðju persónu. Viðtal við þann sem starfið hafi fengið sé sett fram sem fyrstu persónu frásögn, rétt sem hann hefði skrifað hana sjálfur. Það hljóti að teljast undarlegt að slík grundvallargögn séu ekki framreidd á sama hátt. Gögnin virðast þó benda til þess að viðtölin hafi verið tekin á sama hátt og af sömu starfsmönnum Capacent.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  41. Kærði segir að kærandi hafi hvorki komið jafn vel út og sá sem ráðinn hafi verið samkvæmt hinum hlutlægu viðmiðunum né viðtali. Sjónarmiðum og málatilbúnaði kæranda sé mótmælt í einu og öllu.
  42. Sjónarmið kæranda um að matsgrunnurinn hafi verið búinn til eftir á og leitast hafi verið við að stilla hann af sé ekki raunveruleikanum samkvæmt. Allir matsþættirnir hafi verið málefnalegir.
  43. Þótt kærandi telji að hún hafi verið betur að starfinu komin en sá sem hafi hlotið það, sé það ekki rökstutt sérstaklega varðandi menntun eða tungumálakunnáttu og hæfni til tjáningar í ræðu og riti. Um þessa matsþætti og einkunnir kæranda og þess sem ráðinn hafi verið vísist til greinargerðar, en bæði hafi þau hlotið fullt hús stiga.
  44. Þau hafi verið metin jafn hæf þegar komið hafi að þekkingu og reynslu af fjölmiðlum, menningar- og samfélagsmálum og fengið tvö stig hvort. Aftur á móti hafi hvorugt þeirra verið talið hafa víðtæka reynslu og þekkingu í hinum málaflokkunum tveimur, þar með talið að loknum viðtölum ráðgjafa og frekara mati umsókna. Þær upplýsingar sem komi fram í athugasemdum kæranda um reynslu og störf hennar haggi ekki framangreindu mati. Einnig skuli bent á að sá sem ráðinn hafi verið hafi einnig búið yfir reynslu úr öðrum málaflokkum. Gæti þannig jafnframt innbyrðis samræmis.
  45. Þeir umsækjendur, sem hafi fengið fullt hús stiga í matsþættinum reynsla af stefnumótun og innleiðingu, hafi verið þeir sem hafi jafnan verið í „bílstjórasæti“, þ.e. leiðandi hlutverki í mjög stórum og umfangsmiklum verkefnum með háu flækjustigi. Sá sem ráðinn hafi verið hafi búið yfir fjölþættri og umfangsmikilli reynslu. Reynsla kæranda af stefnumótun og innleiðingu hafi einnig verið þó nokkur, en hafi þó einkum verið bundin við störf hennar sem stjórnanda hjá 365 miðlum og hafi hún ekki verið talin jafn fjölþætt og víðtæk og reynsla þess sem ráðinn hafi verið. Í athugasemdum kæranda gefi ekki að líta neinn efnislegan rökstuðning/andmæli varðandi framangreindan samanburð.
  46. Tilgangur viðtalanna við umsækjendur hafi meðal annars verið sá að afla frekari upplýsinga en þeirra sem eingöngu kæmu fram í umsóknargögnum. Mat á frammistöðu í atvinnuviðtali sé alltaf í eðli sínu að einhverju leyti huglægt. Það breyti því ekki að þau séu, sem alkunna sé og komi fram í greinargerð kærða, talin skipta verulegu máli við mat á starfshæfni umsækjenda og viðurkenndur mælikvarði sem líta beri til, þar með talið að lögum, líkt og staðfest hafi verið einnig í dóma- og stjórnsýsluframkvæmd.
  47. Að öllu framangreindu virtu fái kærði ekki séð, þar með talið byggt á heildstæðum samanburði á framkomnum umsóknum með tilliti til þeirra krafna sem lög geri til þess einstaklings sem gegna megi starfinu og þeirra sjónarmiða sem kærði ákveði að auki að byggja val sitt milli umsækjenda á, að mat stjórnar kærða þess efnis að kærandi væri ekki jafn hæf til starfans og sá sem ráðinn hafi verið, sé ómálefnalegt.

    NIÐURSTAÐA

  48. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  49. Þegar kærunefnd jafnréttismála hefur fjallað um ráðningar í formi matskenndra stjórnvaldsákvarðana opinberra aðila hefur nefndin lagt til grundvallar að almennt verði að játa stjórnvöldum nokkurt svigrúm við mat þeirra á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndarinnar í máli nr. 2/2020. Kemur þá til skoðunar hvaða stöðu kærði nýtur í þessum efnum.
  50. Fyrir liggur að í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, kemur fram að Ríkisútvarpið sé sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Efnislega sambærilega skilgreiningu var að finna í 1. mgr. 1. gr. eldri laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf.
  51. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög er hugtakið opinbert hlutafélag skilgreint sem félag sem hið opinbera, einn eða fleiri hluthafar, á að öllu leyti, beint eða óbeint. Í athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 90/2006, sem bættu fyrrgreindri skilgreiningu við lög nr. 2/1995, kemur meðal annars fram að ákvæði stjórnsýslulaga og laga um opinbera starfsmenn gildi ekki formlega um opinber hlutafélög. Í samræmi við þetta segir meðal annars í 1. tölulið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að lögin taki ekki til starfsmanna hlutafélaga jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins.
  52. Í dómi Hæstaréttar frá 7. júní 2018 í máli nr. 557/2017 er rakið að með lögum nr. 6/2007 hafi Ríkisútvarpinu verið breytt í opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Um slík félög gildi almennt ekki reglur opinbers starfsmannaréttar, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 70/1996. Frá því kunni þó að vera undantekningar á grundvelli lagaákvæða, samkomulags eða vegna annarra atvikabundinna aðstæðna. Síðar í dóminum segir um gildandi lög nr. 23/2013 í tengslum við skýringu Hæstaréttar á 1. mgr. 12. gr. laganna: „Áréttað er það sem fram er komið að almennt gilda hvorki reglur opinbers starfsmannaréttar né reglur stjórnsýsluréttar um réttarstöðu [...] starfsmanna opinberra hlutafélaga heldur reglur hins almenna vinnumarkaðar.“
  53. Ráðning kærða á starfsfólki, þar með talið útvarpsstjóra, lýtur þar með lögmálum vinnuréttar fremur en opinbers starfsmannaréttar. Það er meginregla vinnuréttar að atvinnurekandi hefur um það frjálsar hendur hvern hann velur til starfa í sína þágu, sbr. dóm Hæstaréttar frá 22. janúar 2004 í máli nr. 330/2003. Því vali eru þó settar þær skorður sem leiddar verða af ákvæðum laga nr. 10/2008 þegar kona og karl sækja um sama starfið, enda tekur ákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna um bann við mismunun á grundvelli kyns við ráðningu ekki aðeins til stjórnvalda heldur jafnframt til einkaaðila á borð við opinber hlutafélög.
  54. Sú staða opinbers hlutafélags sem löggjafinn hefur ljáð kærða hefur þýðingu við úrlausn málsins þar sem kærði nýtur samkvæmt framangreindu aukins svigrúms samanborið við opinbera veitingarvaldshafa við mat á því hvaða sjónarmið skuli lögð til grundvallar við ráðningar sem og við mat á því hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim sjónarmiðum. Svigrúm kærða í þessu máli takmarkast fyrst og fremst af lögbundnum kröfum um starfsgengi og hlutverk útvarpsstjóra, sbr. 11. gr. laga nr. 23/2013 og að nokkru leyti 10. gr. og 5. mgr. 9. gr. laganna.
  55. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 23/2013 er útvarpsstjóri framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins. Skal hann uppfylla hæfisskilyrði samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laganna, en ákvæðið vísar meðal annars til 66. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Af þessu leiðir einkum að útvarpsstjóri skal vera lögráða, fjár síns ráðandi og má ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt nánar tilgreindum lögum.
  56. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 23/2013 skal útvarpsstjóri ráðinn til fimm ára í senn og er heimilt að endurráða hann einu sinni. Fram kemur að hann hafi daglegan rekstur Ríkisútvarpsins með höndum og sé jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar. Í 3. mgr. 11. gr. er rakið að við daglegan rekstur Ríkisútvarpsins skuli útvarpsstjóri hafa að leiðarljósi hlutverk og skyldur þess eins og kveðið sé á um í lögunum. Í þeim efnum hafa einkum þýðingu að mati kærunefndarinnar 3. gr. og 4. gr. laganna. Í 3. gr. er fjallað um fjölmiðlaþjónustu félagsins í almannaþágu. Í 4. gr. er síðan fjallað um aðra starfsemi félagsins. Í 4. mgr. 11. gr. er meðal annars kveðið á um að útvarpsstjóri ráði aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins.
  57. Vikið er að samspili stjórnar kærða og útvarpsstjóra í 10. gr. laga nr. 23/2013. Vert er að rekja efni þessa lagaákvæðis að því marki sem það varpar sérstöku ljósi á hlutverk útvarpsstjóra. Í 1. tölulið 10. gr. kemur fram að starfssvið stjórnar nái til þess að móta í samvinnu við útvarpsstjóra dagskrárstefnu og megináherslur í starfi Ríkisútvarpsins til lengri tíma. Í 4. tölulið 10. gr. er rakið að stjórn sé falið að taka meiri háttar ákvarðanir um rekstur Ríkisútvarpsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falli undir daglegan rekstur, ýmist að eigin frumkvæði eða að fengnum tillögum útvarpsstjóra eða annarra starfsmanna. Af 5. tölulið 10. gr. verður loks ráðið að útvarpsstjóra er falið að gæta þess að stjórnin sé á hverjum tíma upplýst um helstu þætti í starfsemi Ríkisútvarpsins. Áætlanir sem gerðar séu fyrir hvert ár skuli jafnframt kynntar í stjórn.
  58. Einnig er vikið að hlutverki útvarpsstjóra í samþykktum kærða. Þar kemur meðal annars fram í grein 5.3. að útvarpsstjóri skuli sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur. Auk þess skuli hann sjá til þess að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.
  59. Í starfsauglýsingu kærða voru, eins og áður segir, settar fram eftirfarandi hæfniskröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi; Reynsla af stjórnun og rekstri; Leiðtogahæfileikar og góð hæfni í mannlegum samskiptum; Skilningur og áhugi á nýjum miðlum; Reynsla af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu; Þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmálum; Góð tungumálakunnátta og góð hæfni til tjáningar í ræðu og riti. Þá var starfssviði útvarpsstjóra lýst með eftirfarandi hætti: Dagleg stjórnun og ábyrgð á rekstri félagsins; Yfirumsjón og ábyrgð allrar dagskrárgerðar; Stefnumótun og markmiðasetning; Samskipti við hagaðila; Alþjóðlegt samstarf.
  60. Að mati kærunefndarinnar voru fyrrgreindar hæfniskröfur málefnalegar og rúmuðust innan svigrúms kærða til að skilgreina þær að þessu leyti, sbr. einnig kröfur til starfsgengis útvarpsstjóra samkvæmt lögum nr. 23/2013 og umfjöllun laganna um hlutverk hans.
  61. Í fyrrgreindu minnisblaði kærða sem birtist í formi tilkynningar, dagsettrar 14. febrúar 2020, kemur fram að fyrsta mat kærða hafi byggst á skriflegum gögnum umsækjenda, þ.e. ferilskrá og kynningarbréfi. Umsóknargögn hafi verið metin í samræmi við menntunar- og hæfniskröfur sem fram komu í auglýsingu. Við matið hafi verið stuðst við fyrir fram skilgreind viðmið og vægi sem byggðust á hæfniskröfum í auglýsingu. Markmið fyrsta mats hafi verið að vinna forsendur fyrir ákvörðun um hvaða umsækjendur skyldu boðaðir í fyrsta viðtal. Stjórn kærða hafi metið öll gögn og tekið ákvörðun um vægi hvers matsþáttar. Ráðgjafar Capacent hafi fundað með stjórn kærða til að fara yfir matið og hafi stjórnin ákveðið að boða 19 umsækjendur í viðtal við ráðgjafa, þ.e. þá sem best hafi þótt uppfylla þau hæfnisskilyrði sem komið hafi fram í starfsauglýsingu.
  62. Kærði byggir á því fyrir nefndinni að matið á fyrsta stigi ráðningarferlisins hafi verið fremur gróft en síðan hafi tekið við nákvæmara mat við frekari yfirlegu umsókna og með viðtölum við umsækjendur. Aftur á móti hafi vægi matsþátta verið óbreytt.
  63. Í gögnum málsins er að finna eyðublað sem ber heitið „Mat á innsendum gögnum, ferilskrá og kynningarbréfi“. Þar birtist mat stjórnar kærða á kæranda og þeim karli sem starfið hlaut. Samkvæmt málatilbúnaði kærða var þetta skjal ekki einungis notað við frummat kærða heldur einnig í framhaldinu, þar með talið eftir viðtöl við umsækjendur. Á þeim grunni hafi tilgreind stig kæranda í skjalinu verið lækkuð að vissu marki þegar leið á ráðningarferlið. Kærandi hafi þannig hlotið 3,50 stig af 4 stigum mögulegum í frummatinu en lækkað síðar niður í 2,92 stig. Karlinn sem ráðinn var í starfið hafi aftur á móti hlotið 3,52 stig bæði í frummati og í endanlegu mati.
  64. Í skjalinu kemur fram hvaða vægi kærði ljéði eftirfarandi hæfniskröfum: Háskólamenntun sem nýtist í starfi (12% vægi); Reynsla af stjórnun og rekstri (34% vægi); Reynsla af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu (26% vægi); Þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmálum (24% vægi); Góð tungumálakunnátta og góð hæfni til tjáningar í ræðu og riti (4% vægi). Stig á kvarðanum 0 til 4 voru veitt fyrir hvern flokk.
  65. Að mati kærunefndarinnar fellur mat kærða á vægi hvers og eins framangreindra þátta innan þess svigrúms sem kærði naut til að móta kröfur til starfsins, en hvað varðar vægi stjórnunar- og rekstrarreynslu þá hefur kærði byggt á því fyrir nefndinni að ríkisendurskoðandi hafi talið greiðslugetu félagsins veika og fjárhagsstöðu þess viðkvæma.
  66. Þess skal getið að í skjalinu er ekki vikið að eftirfarandi hæfniskröfum starfsauglýsingar: Leiðtogahæfileikar og góð hæfni í mannlegum samskiptum; Skilningur og áhugi á nýjum miðlum. Þá er hæfniskrafa um reynslu af nýsköpun ekki talin með reynslu af stefnumótunarvinnu og innleiðingu stefnu sem tekin er upp í skjalið. Nánar er að þessu vikið hér á eftir.
  67. Í starfsauglýsingu var, eins og áður segir, gerður áskilnaður um háskólamenntun sem nýtist í starfi. Í þeim efnum hlutu bæði kærandi og karlinn sem ráðinn var fjögur stig í mati kærða. Af hálfu kærða hefur verið byggt á því fyrir nefndinni að umsækjendur sem lokið hefðu háskólanámi á meistarastigi hefðu jafnan fengið fjögur stig. Ekki hafi þótt ástæða til að gera sérstakan greinarmun á því hvers konar háskólanám væri jafnan um að ræða, heldur fyrst og síðast að umsækjendur hefðu háskólapróf og þannig tileinkað sér rökhugsun, gagnrýna hugsun og skipulega aðferðafræði. Enda þótt kærunefndin geti fallist á það með kærða að málefnalegt hafi verið að meta hvort umsækjendur hefðu tileinkað sér framangreind atriði þá varð starfsauglýsing kærða ekki skilin öðruvísi en svo að gerður væri greinarmunur á háskólamenntun þannig að sérstaklega væri óskað eftir háskólamenntun sem myndi nýtast í umræddu starfi. Við þær aðstæður varð kærði óhjákvæmilega að meta hvernig menntun umsækjenda kæmi til með að nýtast í starfi útvarpsstjóra miðað við starfsauglýsingu og lögbundið hlutverk hans samkvæmt lögum nr. 23/2013. Að mati kærunefndarinnar gátu námsgráða kæranda í íslensku og námsgráða karlsins í lögfræði báðar nýst í starfi útvarpsstjóra, en telja verður að námsgráða kæranda hafi meiri skírskotun til lögbundins hlutverks kærða, sbr. 1. gr. laga nr. 23/2013. Ekki síst vegna áherslu sem kærði leggur í málatilbúnaði sínum á að kærði skuli leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Kærandi hafði einnig MBA-gráðu sem ætla verður að hafi þýðingu í stjórnunarstörfum á borð við það sem hér er til umfjöllunar. Þá hafði hún lokið diplóma-námi á sviði fjölmiðlunar. Andspænis þessari menntun hafði karlinn lokið námskeiði Bloomberg Harvard um stjórnun borga og svokölluðu forystunámi á vegum Reykjavíkurborgar auk ýmissa skemmri námskeiða Endurmenntunar Háskóla Íslands, þar með talið lestur ársreikninga og starfsmannastjórnun í opinberum rekstri. Að öllu þessu virtu telur kærunefndin að kærandi og sá karl sem starfið hlaut hafi bæði haft háskólamenntun sem gat nýst í starfi, en að kærandi hafi staðið karlinum að nokkru leyti framar í þessum matsflokki.
  68. Hvað viðvíkur hæfniskröfu um stjórnunar- og rekstrarreynslu þá hlaut kærandi þrjú stig en karlinn hlaut þar fjögur stig. Að mati kærunefndarinnar rúmast sú afstaða kærða að leggja áherslu á fjölþættari og meiri reynslu karlsins í þessum efnum, samanborið við sérhæfðari reynslu kæranda, innan svigrúms kærða til að meta þetta atriði, en kærði hefur einnig stutt framangreinda niðurstöðu sína við huglægt mat ráðgjafa í þá átt að svör kæranda í viðtali hafi ekki borið nægilega með sér að hún hefði þá stjórnunar- og rekstrareynslu, þar með talda leiðtogahæfni, sem hæfði fjórum stigum. Þannig virðist kærði ekki einskorða mat sitt í þessum þætti við starfsreynslu umsækjenda heldur einnig líta til sjónarmiða um leiðtogahæfni, en það var ein af kröfum starfsauglýsingarinnar þótt hennar sé ekki getið í fyrrgreindu skjali um tölulegt mat á umsækjendum. Kærunefndin gerir ekki athugasemd við niðurstöðu kærða um að karlinn hafi þar með staðið kæranda framar, ekki síst vegna starfa hans sem staðgengill ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, borgarritari, og þar með hlutverks hans sem eins af staðgenglum borgarstjóra, og sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, en fram kemur í gögnum málsins að yfir 400 manns hafi heyrt undir hann í því starfi.
  69. Varðandi hæfniskröfu um reynslu af stefnumótunarvinnu og innleiðingu stefnu þá var það niðurstaða kærða að veita kæranda þrjú stig í þeim flokki en karlinum fjögur stig. Þess skal getið að í starfsauglýsingu kærða var þessi krafa um hæfni sett fram samhliða kröfu um reynslu af nýsköpun, en ekki er vikið að nýsköpun í þessum dálki skjalsins. Í málatilbúnaði kærða er niðurstaða vegna þessa dálks þó rökstudd meðal annars með vísan til verkefna karlsins sem tilnefnd hafi verið til nýsköpunarverðlauna og virðist þannig við þetta mat hafa verið litið til reynslu sem tengist nýsköpun. Að mati kærunefndarinnar er unnt að fallast á það mat kærða að veita verkefnum tengdum svokallaðri breytingastjórnun vægi sem og að reynsla kæranda hafi ekki verið eins fjölþætt og víðtæk og reynsla karlsins í þessum flokki. Eru því ekki efni til að gera athugasemd við þessa niðurstöðu kærða.
  70. Hvað varðar hæfniskröfuna um þekkingu og reynslu af fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmálum þá hlutu bæði kærandi og karlinn tvö stig. Kærði byggir á því að þau hafi bæði búið yfir ákveðinni þekkingu á öllum flokkunum þremur en karlinn aðallega af samfélagsmálum og kærandi aðallega af fjölmiðlun. Orðið samfélagsmál er skilgreint í íslenskri nútímamálsorðabók sem málefni er varða samfélagið. Hér er þannig um fremur vítt hugtak að ræða. Fyrir kærunefndinni hefur kærandi rakið ýmsa reynslu sína af samfélagsmálum, eins og rakið er hér að framan. Kærði telur aftur á móti að þessi reynsla og störf kæranda haggi ekki fyrrgreindri niðurstöðu sinni í þessum matsflokki. Eins og áður er rakið naut kærði svigrúms til að meta hvernig einstakir umsækjendur féllu að hæfniskröfum starfsauglýsingarinnar, ekki síst vegna stöðu sinnar sem opinbert hlutafélag. Enda þótt kærunefndin geti fallist á það með kærða að störf umrædds karls sem sviðsstjóri velferðarsviðs, borgarritari og lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hafi verið af mjög samfélagslegum toga þá verður ekki séð að störf kæranda í fjölmiðlum árum saman hafi, auk annarrar reynslu sem hún tilgreinir, síður veitt henni þekkingu og reynslu af samfélagsmálum sem slíkum. Kærði færir auk þess ekki viðhlítandi rök fyrir slíkri niðurstöðu sinni. Að mati kærunefndarinnar telst kærandi þar með hafa staðið karlinum framar í þessum flokki matsins, en það er raunar í samræmi við upphaflegt mat kærða áður en stjórn hans tók þá ákvörðun að lækka stigagjöf til hennar á síðari stigum ráðningarferlisins.
  71. Hvað varðar kröfu í starfsauglýsingu um góða tungumálakunnáttu og góða hæfni til tjáningar í ræðu og riti þá fengu kærandi og sá karl sem starfið hlaut fjögur stig í þeim flokki. Stóðu þau þar með jafnfætis hvað þessa hæfniskröfu varðaði. Gerir kærunefndin ekki athugasemd við þá niðurstöðu kærða.
  72. Eins og áður segir víkur skjal kærða um tölulegt mat á umsækjendum ekki að hæfniskröfum starfsauglýsingar um annars vegar leiðtogahæfileika og góða hæfni í mannlegum samskiptum og hins vegar skilning og áhuga á nýjum miðlum. Aftur á móti verður ráðið af framangreindri umfjöllun um reynslu af rekstri og stjórnun að þar var einnig litið til mats á leiðtogahæfileikum.
  73. Þá hefur kærði lagt sérstaka áherslu í málatilbúnaði sínum á að huglægt mat á frammistöðu í viðtali hafi haft nokkuð að segja um niðurstöðu sína. Í þeim efnum hefur kærði rakið fyrir nefndinni ályktanir af viðtali við karlinn sem starfið hlaut, en þær eru að öllu leyti jákvæðar. Hvað frammistöðu kæranda varðar þá dregur kærði fram bæði jákvæða og neikvæða þætti. Hvað hið síðarnefnda varðar hefði kærandi að mati ráðgjafa kærða mátt nýta betur tækifærið sem fælist í viðtali og koma þekkingu, reynslu og hæfni sinni betur á framfæri og rökstyðja mál sitt með dæmum. Svör hennar hefðu verið frekar almenn en sértæk. Hún hefði hvorki sýnt fram á né nefnt hvaða aðferðum hún beitti til að fá starfsfólk með sér í lið eða til að fylgja sér, né hvernig hún færi að því að hvetja fólk áfram í vinnu. Að teknu tilliti til þess svigrúms sem ljá verður kærða við mat á því hvernig einstakir umsækjendur féllu að þeim sjónarmiðum sem birtust í starfsauglýsingu kærða telur nefndin ekki unnt að álykta sem svo að kærði hafi farið út fyrir það svigrúm þegar hann veitti frammistöðu í viðtali vægi við ákvörðun um ráðningu í hið auglýsta starf.
  74. Samantekið liggur fyrir að karlinn stóð kæranda framar í þeim tveimur matsflokkum sem vógu þyngst í ráðningarferlinu, þ.e. reynslu af stjórnun og rekstri, sem hafði 34% vægi, og reynslu af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu, sem hafði 26% vægi, auk þess sem kærði mat það svo að hann hefði staðið kæranda framar hvað frammistöðu í viðtali áhrærir. Hróflar það ekki við niðurstöðu málsins þótt kærandi hafi staðið karlinum framar varðandi flokkinn menntun, sem hafði 12% vægi, og hins vegar flokkinn „fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmál“, sem hafði 24% vægi. Að öllu framangreindu virtu telst kærandi ekki hafa leitt líkur að því að henni hafi verið mismunað við ráðningu í starf útvarpsstjóra.
  75. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna umfangs málsins, annríkis nefndarinnar og veitts frests til málsaðila undir rekstri málsins.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Ríkisútvarpið ohf., braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kæranda, A, var ekki boðið starf útvarpsstjóra sem ráðið var í með samningi 29. janúar 2020.

 

Arnaldur Hjartarson

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta