Hoppa yfir valmynd
29. október 2021

Jafnréttisnefnd Evrópuþingsins kynnir sér launajafnrétti á Íslandi

Að þessu sinni er fjallað um:

  • fyrirhugaða heimsókn jafnréttisnefndar Evrópuþingsins til Íslands í næstu viku
  • jafnréttisviku í Evrópuþinginu
  • verkáætlun framkvæmdastjórnarinnar 2022
  • stafrænu Covid-vottorðin sem hafa slegið í gegn
  • grænan landbúnað
  • hækkandi orkuverð
  • flokkun kjarnorku
  • fund ráðuneyta um samstarfsáætlanir
  • fyrirhugaða úttekt Norðmanna á EES-samstarfinu
  • dagsektir sem lagðar hafa verið á pólska ríkið í deilu um sjálfstæði dómstóla
  • fyrstu skýrslu ESA um frammistöðu í loftslagsmálum

 

„Við viljum læra af Íslandi“

Í samtali við fréttaritara Brussel-vaktarinnar greinir Evelyn Regner, formaður jafnréttisnefndar Evrópuþingsins, frá því að hún muni koma ásamt fleiri þingmönnum til Íslands í næstu viku. Tilefnið er meðal annars umfjöllun nefndarinnar um tillögu framkvæmdastjórnar ESB að tilskipun um launagagnsæi.  Sagði Regner að hér væri um mikið hitamál að ræða og mikla hagsmuni í húfi til dæmis fyrir atvinnulífið. Því vildi nefndin afla sem bestra upplýsinga um aðgerðir Íslendinga til að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði sem myndu síðan nýtast til að ljúka umfjöllun um breytingartillögur.  Í viðtalinu fjallar Regner m.a. um nýafstaðna jafnréttisviku á Evrópuþinginu, stöðu kvenna í Afganistan og áhrif Covid-19 á jafnréttismál og stöðu kvenna. Sjá nánar hér.

Jafnréttisvika í Evrópuþinginu

Annað árið í röð var nú haldin vika jafnréttis kynjanna í Evrópuþinginu. Fór hún þannig fram að flestar þingnefndir fjölluðu sérstaklega um jafnréttisvinkla á þeim málefnum sem þær annars fjalla helst um. Með þessu móti er stuðlað að því að samþætta kynjasjónarmið við stefnumótun að öðru leyti. Meðal annars kom fram að konur hefðu að mörgu leyti farið verr út úr Covid-19 farsóttinni en karlar. Þær væru í meirihluta í störfum sem urðu fyrir barðinu á faraldrinum, eins og til dæmis í þjónustugeiranum. Þá hefðu lokanir skóla og dagvistarheimila leitt til þess að konur hefðu í meira mæli en karlar þurft að axla margfalda ábyrgð.

Fjallað var um hvernig fjármagni verður varið til endurreisnar eftir efnahagskreppu sem fylgt hefur faraldrinum. Áhersla er á verkefni sem tengjast græna sáttmálanum og stafrænni umbyltingu. Tiltölulega fá verkefni eru þar eyrnamerkt jafnréttismálum. Þó sé sérstök ástæða til að huga að því til dæmis hvernig auka megi þátttöku kvenna í tæknigeiranum, þar sem best launuðu framtíðarstörfin verði að finna. 

Miðar hægt í átt að jafnrétti kynjanna

Í jafnréttisvikunni kom út ný skýrsla um stöðu jafnréttismála innan ESB. Þar er byggt á tilteknum mælikvarða til að meta stöðu mála og framfarir. Í stuttu máli miðar fremur hægt í átt til jafnréttis kynjanna og myndi taka þrjár kynslóðir á þessum hraða. Best er staðan í Svíþjóð, Danmörku, Hollandi, Frakklandi og Finnlandi. Lökust er hún í Grikklandi, Ungverjalandi og Rúmeníu og Slóvenía er eina landið þar sem staðan hefur versnað milli ára.

Þau meginsvið sem horft er til við mat á stöðu kynjanna eru þátttaka á vinnumarkaði, tekjur og eignir, menntun, völd og áhrif, tími sem varið er til félagsstarfa, heimilisstarfa og ólaunaðrar umönnunar, heilsa og líkamlegt öryggi. Þetta eru ekki alveg sömu mælikvarðar og notaðir eru í könnun World Economic Forum þar sem Ísland hefur lengi vermt efsta sætið.

Fram kemur í skýrslunni að menn hafa miklar áhyggjur af því að farsóttin muni leiða til bakslags fyrir réttindi og stöðu kvenna sem ekki sé enn komið fram í þeim gögnum sem byggt var á. 

Verkáætlun framkvæmdastjórnarinnar 2022

„Eflum Evrópu saman“, er yfirskriftin á verkáætlun framkvæmdastjórnarinnar árið 2022. Áætlunin er mikilvæg vegna þess að hún veitir upplýsingar um það hvaða löggafartillögur og önnur áherslumál verði lögð fram á næsta ári.  Vísbending hafði þegar verið gefin í stefnuræðu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar, fyrr í haust, en nú hafa spilin verið lögð á borðið.

Varnar- og utanríkismál verða ofarlega á baugi þegar Frakkar gegna formennsku í ráðherraráðinu fyrri hluta árs 2022. Eitt það mikilvægasta sem til stendur að afgreiða er svokallaður „strategískur áttaviti“ – leiðarvísir á þessu sviði næstu 5-10 árin. Að öðru leyti má nefna:

  • Heimshliðið – e. Global Gateway, þar er þróunarlöndum boðið upp á samstarf um fjárfestingar í innviðum. Rætt er um að þetta sé svar við kínversku stefnunni sem kennd er við belti og braut en áhersla verði á tengingar við grunngildi ESB.
  • Nýja sameiginlega yfirlýsingu ESB og NATO.
  • Raunverulegt evrópskt varnarsamband. Framkvæmdastjórnin mun hraða þessari vinnu.
  • Vegvísi um varnar- og öryggistækni. Þetta er hluti af undirbúningi „varnarmálapakka“ sem framkvæmdastjórnin vinnur að.
  • Stefnu um alþjóðlega samvinnu á orkumálasviðinu. Auk þess mun framkvæmdastjórnin kynna aðgerðaáætlun um að hraða stafrænni umbreytingu á orkuiðnaði, þ.e. er varðandi orkudreifingu, nýtingu orku og upplýsingaöryggi.
  • Aðgerðaáætlun um alþjóðlega stjórnun úthafanna.
  • Löggjöf um netöryggi sem hefur það markmið að fastsetja sameiginleg öryggisviðmið fyrir nettengdar vörur. Að auki vill framkvæmdastjórnin byrja vinnu við öruggt fjarskiptakerfi í geimnum sem m.a. gerir mögulegt að bjóða netþjónustu á svæðum þar sem hún er ekki fyrir hendi .

Að öðru leyti má staldra við eftirfarandi:

  • Loftslagsmál: ný löggjöf um vottun fyrir förgun koltvísýrings; lagalegur rammi um enga losun í samgöngum: rétturinn til viðgerða, þ.e. réttur til að fara með hluti til viðgerðar hjá þjónustuaðila að eigin vali, en það er hluti af hringrásarhagkerfinu. Tillögur um stafrænt kerfi fyrir samgöngur sem styður við aukna skilvirkni og sjálfbærni og tekur til allra helstu ferðamáta.
  • „Plastpakkinn“: þar með talið löggjöf til að draga úr örplasti í umhverfinu.Löggjöf um fjölmiðlafrelsi.
  • Tilflutningur á sakamálum milli landa. Löggjöfinni verður ætlað að styðja við baráttuna gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi.
  • Heildarendurskoðun á evrópsku lyfjalöggjöfinni: Í því felst tækifæri að ná fram baráttumáli Íslands til nokkurra ára um að heimila notkun rafrænna fylgiseðla með lyfjum. Málið hefur hlotið stuðning á norrænum vettvangi og sameiginlega hafa Norðurlandaþjóðirnar farið þess á leit við Evrópusambandið að reglur um fylgiseðla með lyfjum verði endurskoðaðar þannig að heimilt verði að nota rafræna fylgiseðla eingöngu. Samkvæmt gildandi reglum skulu lyfjapakkningar innihalda fylgiseðil með viðkomandi lyfi á tungumáli þess lands þar sem lyfið er selt. Fyrirkomulagið felur í sér ýmsa annmarka, ekki síst fyrir lítil málsvæði. Horft er til þess að rafrænir lyfseðlar auðveldi m.a. sameiginleg lyfjainnkaup þjóða sem stuðli að lægri kostnaði og auknu lyfjaframboði, auðveldara verði að tryggja öllum notendum lyfja upplýsingar á tungumáli sem þeir skilja og eins geti rafrænir lyfseðlar dregið úr sóun.

Í verkefnaáætluninni er einnig að finna fyrirhugaðar tillögur sem ekki verða bindandi. Þannig á að leggja fram evrópska stefnu um umönnun, allt frá barnagæslu til aðbúnaðar langveikra. Tilgangurinn er að stuðla að gæðaþjónustu fyrir alla. Í ljósi farsóttarinnar á að leggja fram tilmæli um lágmarks tekjutryggingu.

Þjóðþingin styðjast gjarnan við verkefnaáætlunina til að forgangsraða því sem til stendur að fylgjast sérstaklega með. Í nýrri skýrslu um umbætur á evrópustarfi danska þingsins er lagt til að þingið velji á hverju ári 10-20 mál í forgangi og að haldin verði árleg umræða með þátttöku leiðtoga flokkanna um þessi mál og loks að þingnefndir tilnefni framsögumenn um hvert þessara mála.

Stafrænu Covid-vottorðin slá í gegn

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út skýrslu um framkvæmd varðandi stafræn Covid vottorð. Þar kemur fram að skilríkin hafi verið veigamikill þáttur í viðbrögðum Evrópuríkja við faraldrinum. Búið sé að gefa út tæplega 600 milljón vottorð. ESB sé þarna leiðandi á heimsvísu. Fyrir utan EES-ríkin og Sviss hafa 14 lönd gerst aðilar og tæknilegar viðræður eru í gangi við 28 lönd til viðbótar. Tilkynnt var í gær að Bretar væru komnir með aðgang að þessu sameiginlega kerfi. Samtök evrópskra flugvalla hafa greint frá því að umferð farþega hafi verið tvöfalt meiri í júlí 2021 heldur en ári áður, þökk sé m.a. evrópska covid-vottorðinu. Í 20 Evrópuríkjum er vottorðið notað innanlands sem skilyrði fyrir aðgangi að stærri viðburðum, veitingastöðum, kvikmyndahúsum, söfnum o.s.frv.

Vottorðin eru þrenns konar, þ.e. bólusetningarvottorð, vottorð um fyrri sýkingu og skilríki um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi. Fram kemur í skýrslunni að á Íslandi hafi verið gefin út um 530 þúsund bólusetningarvottorð. Skýringin er sú að sami einstaklingurinn getur náð sér mörgum sinnum í vottorð á Heilsuveru.

Evrópuþingið fylgjandi nýjum leikreglum í landbúnaði

Þrátt fyrir mikinn þrýsting frá hagsmunaaðilum samþykkti Evrópuþingið í síðustu viku að veita stefnunni „frá haga til maga“ brautargengi. Ályktun þingsins um þetta efni var samþykkt með 452 atkvæðum gegn 170 og 76 sátu hjá. Framsögumaður frá landbúnaðarnefnd þingsins, lét þau orð falla að bændur og neytendur þyrftu saman að axla byrðar vegna umhverfisvænni landbúnaðar. Nú þegar bændum yrði gert að draga úr notkun tilbúins áburðar, skordýraeiturs og sýklalyfja þá mætti það ekki gerast að framleiðsla færðist einfaldlega út fyrir álfuna. Styðja yrði við framleiðendur þannig að þeir gætu boðið vöru á samkeppnishæfu verði.

Sjá nánar: https://www.europarl.europa.eu/news/en/press-room/20211014IPR14914/new-eu-farm-to-fork-strategy-to-make-our-food-healthier-and-more-sustainable

Hækkun orkuverðs í deiglunni

Deildar meiningar eru um það innan Evrópusambandsins hvernig eigi að takast á við hækkandi orkuverð. Allir átta sig þó á því að til skamms tíma er hver sjálfum sér næstur. Þannig hafa 19 aðildarríki, þ.m.t. Frakkland, Ítalía, Holland og Spánn, nú þegar gripið til aðgerða heima fyrir í formi skattalækkana eða niðurgreiðslna. Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út svokallaða verkfærakistu til að leiðbeina aðildarríkjunum hvaða aðgerðir komi helst til greina til skamms tíma.

En til lengri tíma litið verður erfitt að finna samhljóm líkt og birtist á fundi orkumálaráðherra fyrr í vikunni. Einn hópur ríkja í norðurhluta álfunnar telur að hækkun orkuverðs sé tilfallandi vandamál sem kalli ekki á breytingar á orkustefnu sambandsins eða aðgerðum á grundvelli græna sáttmálans. Þetta kom fram í sameiginlegri yfirlýsingu Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Þýskalands, Hollands og Austurríkis, Írlands og Lúxemborgar sem birt var mánudaginn 25. október sl.

Önnur ríki, einkum Frakkland, Spánn, Rúmenía og Tékkland, vilja breytingar á reglum sem gilda um gas og raforkumarkaði. Þannig verði meiri samræming varðandi birgðahald gass og sameiginleg innkaup að einhverju marki. Þá verði raforkuverð ekki jafn tengt gasverði og nú er. Það myndi einkum gagnast ríkjum sem nýta aðrar orkuauðlindir til raforkuframleiðslu líkt og kjarnorku.

Þriðji hópur ríkja heldur því fram að ástandið nú sýni að endurskoða þurfi áform um að draga úr notkun kolefniseldsneytis. Þar fer Pólland fremst í flokki. Landið er nú mjög háð kolavinnslu og það felur í sér viðbótarkostnað miðað við önnur ríki að þurfa að hætta henni, kostnað sem bætist við hátt orkuverð að öðru leyti, reynist það meira en tilfallandi vandamál.

Hvernig á að flokka kjarnorkuna?

Áður hefur verið um það fjallað í Brussel-vaktinni hvernig það reyndist ekki sjálfgefið að vatnsafl væri flokkað sem grænast orkugjafa í yfirstandandi verkefni framkvæmdastjórnarinnar þar sem línur eru lagðar um græna fjármögnun. Hér er vísað til svokallaðrar „taxónómíu“ þar sem starfsemi er flokkuð út frá losun koltvísýrings og afleiðinga fyrir umhverfið. En það hangir margt á spýtunni.

Á fundi sínum í Brussel, 21. og 22. október, þrýstu leiðtogar aðildaríkjanna á framkvæmdastjórnina að ákveða fyrir lok nóvember á þessu ári hvernig beri að flokka kjarnorku og gas. Það ræðst síðan af flokkun framkvæmdastjórnarinnar, þ.e. hvort kjarnorka muni teljast „græn“ eða gas ásættanlegur orkugjafi á meðan á umskiptunum stendur, að hvað marki viðkomandi geirar ná að fjármagna fjárfestingar í framtíðinni.

Hækkun orkuverðs, hefur að sögn dagblaðsins Le Monde, gefið frönskum stjórnvöldum byr í seglinn er þau mæra ágæti kjarnorkunnar: Hagkvæm orka, engin kolefnabrennsla og stöðugleiki. Þrýst er á framkvæmdastjórnina að gefa græna stimpilinn þótt ekki hafi fundist með öllu ásættanleg lausn á vandanum við kjarnorkuúrgang sem hefur slæm umhverfisáhrif. Hér njóta Frakkar stuðnings annarra þjóða sem hafa bundið trúss sitt við kjarnorkuna. En að auki hefur myndast hentibandalag við þjóðir sem búa yfir gasi, eins og Pólverjar, og þurfa að nýta það enn um sinn til að losna úr viðjum kolefnisins.

Rúmenía, Tékkland, Finnland, Slóvakía, Króatía, Slóvenía, Búlgaría, Pólland og Ungverjaland munu vera á bandi Frakka. Holland, Eistland, Írland og Grikkland eru volg. Austurríki og Lúxemborg eru mjög andsnúin en umfram allt Þýskaland. Þessi þrjú lönd geta þó ekki hnekkt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar ef hún gefur kjarnorku græna stimpilinn. Málið er umdeilt í Svíþjóð þar sem kjarnorka leikur stórt hlutverk.

Það er hins vegar talið pólitískt flókið fyrir forseta framkvæmdastjórnarinnar, Ursulu von der Leyen, að gefa þýskum stjórnvöldum langt nef. Ekki síst vegna þess að margir í framkvæmdastjórninni eru mjög andsnúnir kjarnorkunni, til dæmis Frans Timmermans, einn af aðstoðarframkvæmdastjórunum. Blaðið hefur eftir ónefndum stjórnarerindreka að það sé þó auðveldara að horfa fram hjá andstöðu Þjóðverja nú en síðar í vetur þegar ný stjórn jafnaðarmanna og græningja er tekin við.

Frestur er á illu bestur, segir máltækið. Það er þó ekki endilega vænlegur kostur því Bretar, Bandaríkjamenn og Kínverjar eru að vinna að eigin flokkunarkerfi sem þeir munu vilja halda á lofti. Það er því ekki einungis tekist á um málefnið innan ESB heldur eru átök einnig fyrirsjáanleg á skákborði heimsveldanna.

Samstarfsáætlunum ýtt úr vör

Í vikunni boðaði utanríkisráðuneytið til samráðsfundar um undirbúning ráðuneytanna vegna framkvæmdar þeirra samstarfsáætlana sem Ísland mun taka þátt í (sjá Brussel-vaktina frá 1. október og ees.is). Áætlanir skiptast í grófum dráttum í miðstýrða samkeppnissjóði þar sem sótt er um verkefni beint til umsjónaraðila hjá ESB en Ísland hefur landstengilið sem sinnir fræðslu og upplýsingastarfi, auk þess að hvetja til umsókna. Hins vegar áætlanir sem er dreifstýrt og umsjónaraðilar í ríkjunum annast úthlutun fjármuna. Í sumum tilvikum eru áætlanirnar blandaðar. Mismunandi er hvort einstaklingar, lögaðilar eða stofnanir geti sótt um til samstarfsverkefna. Undirbúningur framkvæmdar hér á landi er mislangt á veg kominn eftir eðli áætlananna. Í sumum samkeppnissjóðunum eru fyrstu köllum eftir verkefnum þegar lokið, svo sem á sviði Horizon. Í öðrum er vinna við framkvæmd annað hvort nýhafin eða á frumstigi. Hagaðilar eru hvattir til að hafa samband við umsjónaraðila eða landstengilið hverrar áætlunar til að fá frekari upplýsingar eða til að upplýsa um áhuga á þátttöku með verkefnum (sjá nánar á ees.is).

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leiðir starfshóp með aðkomu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins þar sem unnið er að því að ganga frá þátttöku Íslands í svokallaðri InvestEU-áætlun, en innan áætlunarinnar er hægt að fá tryggingar m.a. vegna fjármögnunar stafrænna innviða og grænna fjárfestinga og orkuskipta.

Fyrirhuguð úttekt á reynslu Noregs af EES-samstarfinu

Norski þingmaðurinn Guri Melby, úr Vinstriflokknum, spurði Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra í Stórþinginu hvort fyrirhuguð úttekt á reynslu Noregs innan EES undanfarinn áratug, sem boðuð var í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, myndi einnig líta til aðildar að ESB og reynslu Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands í þeim efnum.

Ráðherrann segir í svari að EES-samstarfið standi á traustum grunni. Stjórnarsáttmálinn tiltaki hvergi aðra kosti en EES. Hins vegar sé þörf á að framkvæma sambærilega úttekt og þá sem gefin var út 2012 (Utenfor og innenfor – „fyrir innan eða utan“) og varpaði ljósi á mikilvægi EES-samningsins fyrir Noreg og þann ábata sem hann hefði skilað í gegnum tíðina. Ný skýrsla muni styrkja og bæta opinbera umræðu um Evrópumál. Evrópska landslagið hafi breyst umtalsvert á undanförnum áratug – bæði hvað EES varðar en sér í lagi innan ESB. Án þess að ákveða ramma úttektarinnar fyrirfram segir ráðherrann að Sviss og Bretland gætu t. a m. orðið góð samanburðarlönd. Ríkisstjórnin muni greina frá umboði og skipan nefndar hvað þetta varðar þegar þar að kemur.

Dagsektir lagðar öðru sinni á pólsk stjórnvöld

Spennan magnast enn í deilum Evrópusambandsins og Póllands. Að þessu sinni lýtur ágreiningur að sjálfstæði dómkerfisins og agadeild við hæstarétt landsins. Framkvæmdastjórn ESB hefur tekið undir með mörgum dómurum í Póllandi og stjórnarandstöðunni sem telja agadeildina stangast á við Evrópurétt og grundvallarreglur um sjálfstæði dómsvaldsins. Deildin sem er pólitískt skipuð hefur vald í agamálum dómara og getur þannig verið verkfæri stjórnvalda til að losa sig við dómara eða halda þeim í skefjum. Á meðan skorið er endanlega úr þessu þá kvað Evrópudómstóllinn upp þann úrskurð 14. júlí sl. að agadeildin ætti þegar að fella niður störf vegna hættu sem af henni stafaði fyrir réttarríkið. Pólsk stjórnvöld hafa ekki farið eftir því og telja að dómskerfið sé á forræði ríkisins en ekki Evrópusambandsins. Af þeim sökum ákvað Evrópudómstóllinn 27. október sl. að leggja dagsektir á pólska ríkið sem nema 1 milljón evra á dag.

Ekki eru nema nokkrar vikur síðan Evrópudómstóllinn ákvað að leggja 500 þús. evru dagsektir á pólska ríkið vegna kolanámu sem ekki hefur verið lokað en uppfyllir ekki kröfur um umhverfisvernd.

Og síðan er þess einnig skemmst að minnast að stjórnlagadómstóll Póllands kvað upp þann úrskurð nýverið að Evrópuréttur gengi ekki framar pólsku stjórnarskránni. 

ESA birtir skýrslu í fyrsta sinn um frammistöðu í loftslagsmálum

ESA birti í síðustu viku fyrstu skýrsluna um frammistöðu Íslands og Noregs við að ná loftslagsmarkmiðum. Þar kemur fram að Ísland er mjög nálægt því að ná settu markmiði árið 2030 miðað við þau gögn sem fyrir liggja.  Samkvæmt skýrslunni verður samdráttur losunar CO2 28% á þeim tímamótum en skuldbinding Íslands kveður á um 29% samdrátt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta