Yfirlýsing norrænna varnarmálaráðherra um stöðuna í Úkraínu
Varnarmálaráðherrar Norðurlandanna hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu um málefni Úkraínu. Þar lýsa þeir yfir áhyggjum af stöðu og þróun mála í Úkraínu, árétta stuðning Norðurlandanna við fullveldi og landamærahelgi landsins, og rétt úkraínsku þjóðarinnar til að ákvarða eigin framtíð án utanaðkomandi afskipta.
„Norðurlöndin kalla eftir því að Rússland virði alþjóðlegar skuldbindingar og láti af hernaðaruppbyggingu í og við Úkraínu. Það er mikið í húfi fyrir öryggi Úkraínu og öryggisumhverfi Evrópu að Rússland bregðist við því ákalli sem nú endurómar frá Norðurlöndunum og öðrum vestrænum lýðræðisríkjum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sem einnig fer með varnarmál.
Fastaráð Atlantshafsbandalagins gaf frá sér yfirlýsingu um málefni Úkraínu fyrir helgi, eins og ráðuneytið greindi frá í tengslum við fund varnarmálaráðherra NB8-ríkjanna á föstudag.
Yfirlýsingu norrænu varnarmálaráðherranna um málefni Úkraínu er að finna hér.