Nr. 239/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 16. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 239/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20050028
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 20. maí 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Kósóvó (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. apríl 2020, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði breytt á þann veg að fallist verði á umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu og honum veitt dvalarleyfi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Maka kæranda var veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þann 7. desember 2017. Samkvæmt gögnum málsins gengu kærandi og maki hans í hjúskap í heimaríki kæranda þann 17. júlí 2019 og sótti kærandi um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli þess hjúskapar þann 15. október 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. apríl 2020, var umsókninni synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 6. maí sl. Kæra barst til kærunefndar útlendingamála þann 20. maí sl. en kæru fylgdi greinargerð og fylgigögn.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun sinni vísaði Útlendingastofnun til og reifaði ákvæði 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda synjað þar sem maki hans uppfyllti ekki skilyrði 3. mgr. 70. gr. laganna, enda hefði hún ekki starfað eða stundað nám hér á landi í löglegri dvöl síðustu fjögur ár fyrir framlagningu umsóknar um fjölskyldusameiningu. Þá hefði ekki verið sýnt fram á að undanþáguheimild 5. mgr. sömu greinar ætti við í málinu.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til þess að eiginkona hans hafi komið hingað til lands árið 2017 ásamt foreldrum sínum og fjórum systkinum. Hafi þau öll fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna. Kærandi og maki hans hafi kynnst tveimur árum áður en maki hans hafi flúið til Íslands en ást þeirra dafnað hægt og rólega í gegnum netmiðla. Það sé einlægur vilji kæranda og maka að stofna fjölskyldu en það geti þau ekki gert annars staðar en á Íslandi. Fjölskylda maka kæranda sé afar samheldin og þurfi á stuðningi hvers annars að halda. Telji maki kæranda það ekki koma til greina að hún geti nokkurn tíma flutt aftur til heimaríkis eða til Kósóvó. Hún hafi fylgt fjölskyldu sinni til Íslands af góðri ástæðu og á þeim tíma ekki órað fyrir því að hún kæmi síðar til með að giftast þáverandi kærasta sínum, þ.e. kæranda. Samband þeirra hafi þróast á annan veg en þau hafi gert ráð fyrir, m.a. með tilkomu samfélagsmiðla. Sumarið 2019 hafi þau síðan tekið ákvörðun um að ganga í hjúskap. Hafi kærandi og maki sent Útlendingastofnun ótal skjáskot af samskiptum þeirra á milli svo og myndir og myndbönd af þeim saman. Samskiptin séu mikil og á þann veg að að ljóst megi vera að þau hafi þekkst í langan tíma. Hafi þau ekki hugað að því að vista eldri samskipti þeirra á milli enda hafi hugsunin ekki verið á þeim tíma að tryggja sönnun fyrir sambandi þeirra síðar meir. Mikið af samskiptum þeirra framan af hafi verið í gegnum símanúmer sem hvorugt hafi aðgang að í dag. Þá vísar kærandi til þess að sökum trúarástæðna hafi tilhugalíf þeirra ekki verið jafn opinbert líkt og venjan sé hér á landi, þeim hafi til að mynda ekki dottið það til hugar að birta myndir af sér saman eða skiptast opinberlega á ástarorðum fyrr en eftir hjúskap.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn eigi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð. Skal sambúðin hafa varað lengur en eitt ár. Hvor aðili um sig verður að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar. Þá þarf hjúskapur eða sambúð viðkomandi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur. Loks er heimilt að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis.
Í 3. mgr. 70. gr. segir m.a. að byggi umsækjandi rétt sinn á útlendingi sem er með dvalarleyfi svo sem á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. þurfi sá aðili að hafa starfað eða stundað nám hér á landi í löglegri dvöl síðustu fjögur ár fyrir framlagningu umsóknar. Í máli þessu liggur fyrir að maki kæranda fékk útgefið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þann 7. desember 2017. Er því ljóst að skilyrðum 3. mgr. 70. gr. laganna um dvalartíma maka kæranda hér á landi er ekki fullnægt.
Samkvæmt 4. mgr. sama ákvæðis eiga skilyrði 3. mgr. ekki við í ákveðnum tilvikum, þ.e. ef aðilar voru í hjúskap áður en maki búsettur hér á landi fluttist til landsins, sbr. a-lið ákvæðisins, ef aðilar gengu í hjúskap á meðan báðir aðilar höfðu dvalarleyfi hér á landi, sbr. b-lið, eða ef aðilar eiga saman barn eða eiga von á barni saman, sbr. c-lið. Eins og fyrr greinir fékk maki kæranda útgefið dvalarleyfi þann 7. desember 2017 en hún og kærandi gengu í hjúskap eftir að maki kæranda fékk útgefið dvalarleyfi hér á landi. Þá hefur kærandi aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og liggur ekkert fyrir um að þau eigi barn saman eða eigi von á barni saman. Þannig er ljóst að undanþágur 4. mgr. 70. gr. eiga ekki við í málinu.
Í 5. mgr. 70. gr. laga um útlendinga segir að heimilt sé að veita frekari undanþágu frá skilyrðum 3. mgr. 70. gr. ef sérstakar aðstæður standa til þess. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga segir:
Í 5. mgr. er kveðið á um heimild til þess að víkja frá skilyrðum [...] og getur slíkt átt við í undantekningartilvikum ef ráðstöfun væri sérstaklega íþyngjandi eða fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu ættingjum hans. Sérstakar ástæður þurfa að koma til, t.d. að ómögulegt sé að viðkomandi fjölskyldumeðlimur og umsækjandi hans geti stofnað til fjölskyldu í öðru landi og getur það t.d. átt við í málum þar sem útlendingur hefur fengið alþjóðlega vernd hér á landi.
Eins og fram hefur komið var maka kæranda veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ásamt fjölskyldu sinni, þ.e. foreldrum og fjórum systkinum, þann 7. desember 2017. Þar sem maki kæranda var lögráða við meðferð máls hennar var tekin afstaða til umsóknar hennar um alþjóðlega vernd í sérstökum úrskurði, sbr. úrskurð kærunefndar nr. 664/2017. Í úrskurðinum kom m.a. fram:
Við mat á því hvort aðstæður kæranda falli undir 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga horfir kærunefnd jafnframt til ungs aldurs kæranda, að hún hafi verið á framfæri foreldra sinna í heimaríki og að hún hafi fylgt fjölskyldu sinni hingað til lands. Þá hefur kærunefnd litið til þess að framburður foreldra kæranda og systur hennar hafi verið trúverðugur um erfiðar félagslegar aðstæður kæranda og systkina hennar og aðkast sem þau hafi orðið fyrir. Kærunefnd leggur til grundvallar að félagslegar aðstæður kæranda yrðu áþekkar í heimaríki og þær voru í Kósóvó. Foreldrum kæranda og systkinum hennar hefur nú verið veitt dvalarleyfi hér á landi. Þótt kærandi kunni að hafa aðgang að húsnæði í heimaríki benda gögn málsins til þess að kæranda bíði erfiðar félagslegar aðstæður vegna fordóma og aðkasts og að hún muni ekki njóta stuðnings nánustu fjölskyldu sinnar þar í landi. Þá verður við heildstætt mat á þörf kæranda á vernd að hafa hliðsjón af því að kærandi tilheyrir minnihlutahópi í heimaríki sínu sem verði fyrir ákveðnum fordómum en það gæti gert henni enn erfiðar fyrir að fóta sig við heimkomu. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Líkt og greinir í úrskurði kærunefndar lagði kærunefnd til grundvallar að félagslegar aðstæður maka kæranda yrðu áþekkar í heimaríki, Serbíu, líkt og þær voru í Kósóvó. Þá bentu gögn málsins til þess að maka kæranda biðu erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki vegna fordóma og aðkasts og að hún myndi ekki njóta stuðnings nánustu fjölskyldu þar í landi. Var það mat kærunefndar, eftir sjálfstæða skoðun á máli maka kæranda, að hún hefði sýnt fram á ríka þörf á vernd. Með vísan til aðstæðna maka kæranda og fjölskyldu hennar, sem raktar hafa verið, með hliðsjón af framangreindum athugasemdum við ákvæði 5. mgr. 70. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga um aðstæður þeirra einstaklinga sem hlotið hafa vernd hér á landi, leggur nefndin til grundvallar að það feli í sér íþyngjandi og ósanngjarna ráðstöfun að ætlast til þess að kærandi og maki hans stofni til fjölskyldu í Serbíu, heimaríki maka kæranda, eða í Kósóvó, heimaríki kæranda. Liggur ekkert fyrir í málinu að kærandi og eiginkona hans hafi möguleika á að sameinast í öðru ríki. Af framangreindu virtu er það mat kærunefndar að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli kæranda í skilningi 5. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og því skuli veita undanþágu frá skilyrðum 3. mgr. 70. gr. laganna.
Þar sem Útlendingastofnun synjaði umsókn kæranda á grundvelli 3. mgr. 70. gr. laga um útlendinga kannaði stofnunin ekki frekar hvort kærandi fullnægði öðrum skilyrðum VIII. kafla laganna. Að mati kærunefndar er rétt að fram fari hjá Útlendingastofnun mat á því hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar sem fram koma í VIII. kafla laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka málið til nýrrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Daníel Isebarn Ágústsson