Skýrsla samráðsnefndar um húsnæðismál til ráðherra
Samráðsnefnd sem sett var á fót í tengslum við samkomulag um endurskoðaða verka- og kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga vegna breytinga á húsnæðisstuðningi við leigjendur, úthlutun félagslegra íbúða o.fl. hefur skilað félags- og jafnréttismálaráherra skýrslu með niðurstöðum sínum.
Nefndin er skipuð í samræmi við sérstakt ákvæði í samkomulaginu þar sem kveðið var á um að á gildistíma samkomulagsins skuli starfa samráðsnefnd um vöktun og greiningu á áhrifum þess. Í nefndinni eiga sæti tveir fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra og einn fyrir hönd félags- og húsnæðismálaráðherra sem jafnframt er formaður. Hlutverk samráðsnefndarinnar er að fylgjast með hvernig markmiðum laga um framtíðarskipan húsnæðismála er náð og gera tillögur um úrbætur eftir því sem tilefni eru til. Hlutverk nefndarinnar er einnig að fjalla um einstök verkefni samkvæmt samkomulaginu, s.s. þróun á sérstökum húsnæðisstuðningi sveitarfélaga, uppbyggingu á félagslegu íbúðarhúsnæði, skipulagsmálum, lóðaframboði o.fl.
Samkvæmt samkomulaginu er nefndinni ætlað að skila árlega skýrslu um störf sín en þar sem hún tók formlega til starfa seinni hluta árs 2016 eru ársskýrslur 2016, 2017 og fram til júní 2018 birtar saman í meðfylgjandi skýrslu.
Í samantekt og ábendingum samráðsnefndarinnar segir að það sé mat hennar að skortur og á greiningum og tölfræði hafi staðið markvissri áætlanagerð fyrir þrifum. Með lögum sem nýlega voru samþykkt á Alþingi hafi verið skotið styrkari stoðum undir greiningarhlutverk Íbúðalánasjóðs sem setji ramma utan um áætlanagerð í húsnæðismálum. Samráðsnefndin fagnar þessu og segir enn fremur mikið framfaraskref að búið sé að skilgreina hlutverk sveitarfélaga við gerð húsnæðisáætlana og jafnframt að skylda sveitarfélög til þess að vinna að sameiginlegri húsnæðisáætlun myndi þau sameiginlegt búsetu- og atvinnusvæði: „Þessi skref, ásamt öðrum sem tekin hafa verið á undanförnum árum, eru til þess fallin að gefa betri heildarmynd af húsnæðismarkaðnum og þróun hans. Það er samt mikilvægt að allir aðilar, ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög, vinni saman að því að gögn og upplýsingar nýtist sem best til að það markmið náist að landsmenn eigi kost á hentugu og hagkvæmu íbúðarhúsnæði“ (skýrsla samráðshópsins bls. 7).