Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 115/2018 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 115/2018

 

Sérkostnaður/sameiginlegur kostnaður.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 2. október 2018, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 9. nóvember 2018, athugasemdir álitsbeiðanda, sendar með tölvupósti 9. nóvember 2018, og athugasemdir gagnaðila, dags. 19. nóvember 2018, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 30. janúar 2019.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls fjóra eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar á 3. hæð hússins en gagnaðili eigandi íbúðar á 2. hæð. Ágreiningur er um hvort vinna við útskiptingu á gleri í stofuglugga álitsbeiðanda sé sérkostnaður eða sameiginlegur kostnaður.

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

Að viðurkennt verði að álitsbeiðanda beri eingöngu að greiða kostnað vegna glers sem sett var í stofuglugga í íbúð hennar.

Í álitsbeiðni kemur fram að í máli kærunefndar nr. 83/2017 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að kostnaður vegna glers væri sérkostnaður álitsbeiðanda en allt annað sameiginlegur kostnaður. Gagnaðili sé á annarri skoðun og telji að í stað þess að álitsbeiðandi eigi inni 20.292 kr. hjá húsfélaginu, sem sé mismunur á opnanlegu fagi sem hún hafi greitt í mars 2017 og rúðugleri í borðstofuglugga, skuldi álitsbeiðandi húsfélaginu 8.558 kr.

Álitsbeiðandi telji að ekki sé hægt að skilja niðurstöðu kærunefndar í máli nr. 83/2017 á annan veg en þann að eingöngu sé um gler í stofuglugga að ræða sem hafi verið sagður sérkostnaður álitsbeiðanda en allur annar kostnaður sameiginlegur.

Í greinargerð gagnaðila segir að álitsbeiðandi telji að sérkostnaður íbúðar hennar eigi einungis við um glerið sjálft en tilheyrandi kostnaður við ísetningu þess eigi að falla á húsfélagið. Þessi túlkun álitsbeiðanda hafi verið til umfjöllunar á húsfundi 5. júlí 2018 þar sem samþykkt hafi verið sérstök ályktun að frumkvæði formanns húsfélagsins, sbr. eftirfarandi:

Húsfundur ályktar sem svo að til glers heyri augljóslega vinna við ísetningu, og akstur að auki, sbr. fylgiskjal. Kröfum 3. hæðar um endurgreiðslu til A er því hafnað.

Ljóst sé að miðað við samþykkt húsfundar hafi gagnaðila, sem gjaldkera, verið óheimilt að gera málið upp með þeim hætti sem álitsbeiðandi hafi krafist. Þá hljóti álitsbeiðandi að eiga að beina málinu gegn öllum sameigendum, þ.e. öðrum eigendum sem eigi hagsmuna að gæta og eigi með réttu að fá færi á að tjá sig um kröfuna. Málatilbúnaður álitsbeiðanda gagnvart gagnaðila einni standist því engan veginn og af þeirri ástæðu beri að vísa málinu frá. Verði ekki fallist á frávísun vísi gagnaðili til framangreindrar afstöðu húsfundar til málsins og rökstuðnings í því sambandi.

III. Forsendur

Gagnaðili fer fram á frávísun málsins á þeirri forsendu að álitsbeiðandi hafi með réttu átt að beina kröfu sinni gegn öllum eigendum hússins en ekki henni einni. Fyrir liggur að gagnaðili er gjaldkeri hússins og svarar hún kröfu álitsbeiðanda í greinargerð sinni. Með hliðsjón af því telur kærunefnd ekki tilefni til að vísa málinu frá, enda liggur fyrir skýr ágreiningur á milli aðila málsins um kröfu álitsbeiðanda.

Samkvæmt 3. tl. 8. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, fellur allur ytri gluggaumbúnaður, bæði á séreignarhlutum og sameign, undir sameign fjöleignarhúss. Kærunefnd telur í þessu sambandi að ytri gluggaumbúnað, sbr. ákvæði 3. tl. 8. gr. laganna, beri að skýra sem þann hluta glugga sem liggur utan glers.Hins vegar telst sá hluti gluggaumbúnaðar sem er inni í séreign, svo og gler í gluggum og hurðum, séreign, sbr. 5. tl. 5. gr. laganna. Í niðurstöðu kærunefndar í máli nr. 83/2017 kom fram að kostnaður við gler í stofuglugga álitsbeiðanda væri sérkostnaður hennar, enda tók hún ákvörðun um að skipta því út hagræðisins vegna þar sem yfirstandandi framkvæmdir voru við húsið. Með hliðsjón af því telur kærunefnd að kostnaður við útskiptingu glersins sé ekki sameiginlegur og því beri álitsbeiðanda að greiða kostnað vegna vinnu við ísetningar glersins og glerborða.

 

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 30. janúar 2019

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

Valtýr Sigurðsson                                                      Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta