Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2021 Forsætisráðuneytið

972/2021. Úrskurður frá 5. febrúar 2021.

Úrskurður

Hinn 5. febrúar 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 972/2021 í máli ÚNU 20110004.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 2. nóvember 2020, kærði A afgreiðslu ÁTVR á beiðni félagsins um upplýsingar.

Með erindi til ÁTVR, dags. 2. september 2020, fór kærandi fram á upplýsingar um lítrasölu vöru til viðbótar við framlegðarupplýsingar fyrir annars vegar tímabilið 1. maí 2019 – 30. apríl 2020 og hins vegar fyrir tímabilið 1. september 2019 – 31. ágúst 2020. Kærandi ítrekaði beiðni sína með tölvubréfum, dags. 21. september 2020 og 6. október 2020. Beiðninni var svarað með bréfi, dags. 7. október 2020, þar sem fram kom að gögn með upplýsingum um fjölda selda lítra einstakra vörutegunda á afmörkuðum tímabilum lægju ekki fyrir hjá ÁTVR. Var beiðninni því hafnað. Í bréfinu sagði einnig að ÁTVR hygðist eftirleiðis taka saman upplýsingar um framangreint og setja fram í framlegðarskrá og vísað var til fréttar á birgjavef ÁTVR, dags. 5. október 2020, þar sem áformin voru kynnt. Þá var kæranda leiðbeint um að á birgjavef ÁTVR mætti nálgast mánaðarlegar sölutölur frá janúar 2019 sem gerðu kleift að kalla fram umbeðnar upplýsingar. Loks er að finna leiðbeiningar í þremur töluliðum þar sem því er lýst hvernig unnt sé að kalla fram umbeðnar upplýsingar m.a. í excel.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt ÁTVR með bréfi, dags. 3. nóvember 2020, og stofnuninni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar.

Í umsögn ÁTVR, dags. 16. nóvember 2020, er gerð krafa um að kærunni verði vísað frá m.a. á þeim grundvelli að kæran sé svo óljós að óhjákvæmilegt sé að vísa henni frá og var í því sambandi vísað til ákvæða í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað aðallega á þeim grundvelli að ekki sé um nein slík gögn í skilningi upplýsingalaga nr. 140/2012 að ræða sem farið er fram á í kærunni. Í umsögninni er vísað til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem fram komi að ÁTVR sé ekki skylt að útbúa ný gögn. Þá er vísað til þess að ÁTVR hafi upplýst kæranda um hvernig hann geti notað þau gögn sem hann hafi aðgang að til þess að vinna upp úr þeim það sem hann kýs að kalla fram. Loks segir í umsögninni að tilgangur upplýsingalaganna sé fyrst og fremst sá að skylda opinberar stofnanir og fyrirtæki til þess að afhenda fyrirliggjandi gögn til almennings, eigi undantekningarákvæði laganna ekki við. Hafi þar verið um talsverða rýmkun að ræða frá fyrri rétti. Lögunum hafi hins vegar alls ekki verið ætlað að veita almenningi heimild til þess að láta aðila á borð við ÁTVR vinna fyrir sig við frekari úrvinnslu þeirra gagna sem aðilar hafi annað hvort þegar aðgang að eða kunni að eiga rétt til afhendingar á.

Umsögn ÁTVR var kynnt kæranda með bréfi, dags. 18. nóvember 2020 og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 30. nóvember 2020, kemur fram að hann telji einsýnt að umbeðin gögn séu til staðar, m.a. þegar horft sé til framkvæmdar stofnunarinnar, fyrirmæla í 16. og 24. gr. reglugerðar nr. 1106/2015, upplýsingagjafar á birgjavef og leiðbeiningum til hans, dags. 7. október 2020. Þannig birti ÁTVR mánaðarlegar upplýsingar á birgjavef um framlegð vöru, sem m.a. ræður umfangi dreifingar, eins og fram komi í kæru. Þar hafi einnig verið bent á að magnupplýsingar um heildarsölu vöru þurfi að liggja fyrir við útreikning á framlegð hennar. Janframt sé ljóst af þeim leiðbeiningum sem ÁTVR sendi kæranda að umrædd gögn liggi fyrir enda segi þar að kleift sé að kalla fram umbeðnar upplýsingar.

Niðurstaða

Í málinu er ágreiningur um afgreiðslu ÁTVR á beiðni kæranda um upplýsingar um lítrasölu vöru til viðbótar við framlegðarupplýsingar fyrir annars vegar tímabilið 1. maí 2019 – 30. apríl 2020 og hins vegar fyrir tímabilið 1. september 2019 – 31. ágúst 2020.

Í umsögn ÁTVR kemur fram að stofnunin geri aðallega kröfu um að kærunni verði vísað frá en til vara að kröfunni verði hafnað. Krafa ÁTVR um frávísun er á því byggð að kæran sé svo óljós og vanreifuð að óhjákvæmilegt sé að vísa henni frá. Í því sambandi er vísað til 80. og 100. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Úrskurðarnefndin telur af þessu tilefni rétt að árétta að ákvæði laga um meðferð einkamála gilda ekki um málsmeðferð stjórnvalda. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál er stjórnsýslunefnd og fer um málsmeðferð fyrir nefndinni eftir ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012 og skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins, þ.m.t. ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því felst að úrskurðarnefndinni ber skylda til að tryggja að eigin frumkvæði að málsatvik séu nægilega upplýst áður en úrskurður er felldur í máli, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þannig er nefndinni ekki fær sú leið að vísa kæru frá á þeim grundvelli að kæra sé ekki sett fram með nægilega skýrum hætti. Telji úrskurðarnefndin að kæru sé ábótavant eða ekki sé ljóst hvað í henni felst ber henni í samræmi við 7. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga að ganga úr skugga um hvert sé efni kærunnar, eftir atvikum með því að veita aðila máls færi á að bæta úr annmarkanum.

Í annan stað vísar ÁTVR til þess að umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og telur sér ekki skylt að útbúa sérstaklega gögn í því skyni að verða við gagnabeiðni kæranda. ÁTVR veitti kæranda þó leiðbeiningar um hvernig unnt væri að kalla fram þær upplýsingar sem óskað var eftir í excel frá janúar 2019 á vefsíðu stofnunarinnar.

Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga er meðal annars tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Upplýsingalög leggja því ekki skyldu á þá aðila sem falla undir lögin til þess að útbúa ný gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur einnig fram að þegar aðilum, sem falla undir gildissvið upplýsingalaga, berst beiðni um aðgang að upplýsingum beri þeim að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. laganna, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.

Þegar svo háttar til að beiðnin nær samkvæmt efni sínu til upplýsinga sem nauðsynlegt er að vinna upp úr fyrirliggjandi gögnum er því ekki sjálfgefið að unnt sé að synja beiðninni á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. heldur ber stjórnvaldi að kanna hvort beiðandi óski aðgangs að gögnunum þar sem umbeðnar upplýsingar er að finna svo hann geti tekið afstöðu til þess hvort hann vilji fá þau afhent, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 738/2018, 804/2019, 833/2019 og 884/2020.

Samkvæmt framangreindu gat ÁTVR annað hvort tekið afstöðu til þess hvort afhenda bæri kæranda aðgang að upplýsingum sem hann gæti sjálfur unnið upp úr eða það sjálft tekið saman umbeðnar upplýsingar. ÁTVR kaus að leiðbeina kæranda um hvernig unnt væri að kalla fram þær upplýsingar sem hann óskaði eftir aðgangi að sem samkvæmt svari stofnunarinnar við gagnabeiðni kæranda voru aðgengilegar frá janúar 2019 á svokölluðum birgjavef ÁTVR. Ljóst er að kærandi hefur gert athugasemdir við þessa afgreiðslu ÁTVR. Hins vegar hefur ekkert komið fram í málatilbúnaði kæranda sem gefur til kynna að honum sé ekki unnt að afla umræddra gagna með þeim hætti sem honum var leiðbeint um af hálfu ÁTVR. Eins og málið er vaxið þykir úrskurðarnefndinni ekki ástæða til að gera athugasemd við afgreiðslu ÁTVR á beiðni kæranda. Er það því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að vísa beri frá nefndinni kæru vegna afgreiðslu ÁTVR á beiðni kæranda.

Úrskurðarorð:

Kæru A um aðgang að upplýsingar um lítrasölu vöru til viðbótar við framlegðarupplýsingar fyrir annars vegar tímabilið 1. maí 2019 – 30. apríl 2020 og hins vegar fyrir tímabilið 1. september 2019 – 31. ágúst 2020 er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta