Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2018 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun Fiskistofu um að svipta skipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni.

Stjórnsýslukæra

Með bréfi, dags. 17. júlí 2016, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 18. ágúst sama ár, kærði [Y ehf.], [X hdl.], f.h. [Z ehf.], hér eftir nefnt kærandi, ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2016, um að svipta skipið [S], leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku.

Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2016, um að svipta skipið [S] leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku.

 

 

Málsatvik

Málsatvikum er lýst í bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 23. júní 2016, þar sem Fiskistofa tilkynnti kæranda, að stofnunin hefði mál félagsins til meðferðar og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir og senda gögn. Þar kemur fram m.a. að við hefðbundið eftirlit veiðieftirlitsmanns Fiskistofu sem framkvæmt hafi verið við höfnina á Bolungarvík þann 7. júní 2016 hafi komið í ljós að ekki hafði verið færð afladagbók um borð í [S]. Í brotaskýrslu eftirlitsmanns sem rituð hafi verið þann 9. júní 2016 segi m.a. að skipið [S] hafi komið inn til löndunar á Bolungarvík 7. júní 2016. Við það tækifæri hafi eftirlitsmaður óskað eftir því við skipstjórann að fá að skoða afladagbókina og hafi þá komið í ljós að ekki hafi verið búið að skrá í bókina afla dagsins og einnig hafi eldri aflaskráningu verið ábótavant. Einnig er þar gerð grein fyrir lögum og reglum sem gilda um veiðarnar, m.a. 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, þar sem kemur fram að allir skipstjórnarmenn veiðiskipa sem stundi veiðar í atvinnuskyni skuli halda sérstakar afladagbækur, 4. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 557/2007, um afladagbækur þar sem segir að afladagbók á bókarformi skuli ávallt vera um borð í þeim fiskiskipum þar sem heimilað hafi verið að færa slíka afladagbók og 4. mgr. 7. gr. sömu reglugerðar þar sem segir að afladagbókin skuli vera að fullu færð í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst sé að bryggju. Þá er þar gerð grein fyrir því að brot gegn framangreindum ákvæðum laga og reglugerða varði viðurlögum samkvæmt VI. kafla laga nr. 116/2006 og einnig gerð grein fyrir efni 24. gr. laga nr. 116/2006 þar sem kemur fram að Fiskistofa skuli veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef brotið sé gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar sé fyrir mælt í lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á ákvæðum laganna. Fiskistofa hafi mál þetta til meðferðar. Áður en ákvörðun verði tekin um hvort beitt verði viðurlögum væri kæranda gefinn kostur á að koma að andmælum og athugasemdum sem skyldu berast Fiskistofu eigi síðar en 8. júlí 2016. 

Engin andmæli bárust Fiskistofu frá kæranda vegna framangreinds bréfs, dags. 23. júní 2016.

Með bréfi, dags. 19. júlí 2016, tók Fiskistofa ákvörðun um að svipta skipið [S] leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku og skyldi sviptingin taka gildi við útgáfu næsta veiðileyfis.

Í ákvörðuninni er vísað til málavaxtalýsingar sem gerð var grein fyrir í umræddu bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 23. júní 2016 og einnig sömu laga og reglugerða og þar er gerð grein fyrir. Þar kemur fram m.a. að við hefðbundið eftirlit veiðieftirlitsmanns Fiskistofu sem framkvæmt hafi verið við höfnina á Bolungarvík 7. júní 2016 hafi komið í ljós að ekki hafði verið færð afladagbók um borð í [S]. Í brotaskýrslu eftirlitsmanns sem rituð hafi verið þann 9. júní 2016 segi m.a. að skipið [S] hafi komið inn til löndunar á Bolungarvík 7. júní 2016. Við það tækifæri hafi eftirlitsmaður óskað eftir því við skipstjórann að fá að skoða afladagbókina og hafi þá komið í ljós að ekki hafi verið búið að skrá í bókina afla dagsins og einnig hafi eldri aflaskráningu verið ábótavant. Fiskistofa hafi sent kæranda bréf, dags. 23. júní 2016, þar sem veittur hafi verið frestur til 8. júlí 2016 til að koma að andmælum. Engin andmæli hafi borist Fiskistofu frá kæranda vegna bréfsins. Einnig kemur þar fram að samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006 skuli allir skipstjórnarmenn veiðiskipa sem stundi veiðar í atvinnuskyni halda sérstakar afladagbækur. Í 4. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 557/2007, um afladagbækur, komi fram að afladagbók á bókarformi skuli ávallt vera um borð í þeim fiskiskipum þar sem heimilað hafi verið að færa slíka afladagbók. Þá sé í 4. mgr. 7. gr. sömu reglugerðar kveðið á um að afladagbókin skuli vera að fullu færð í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst sé að bryggju. Brot gegn framangreindum ákvæðum laga og reglugerða varði viðurlögum samkvæmt VI. kafla laga nr. 116/2006. Í 24. gr. laga nr. 116/2006 sé kveðið á um að Fiskistofa skuli veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef brotið sé gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum nr. 57/1996. Í 15. gr. laga nr. 57/1996 segi að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfi hafi brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta brot, sem varði sviptingu veiðileyfis, skuli leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skuli svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár. Við fyrsta minni háttar brot skuli Fiskistofa veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Fyrir liggi í málinu að skipstjóri skipsins [S] hafði ekki fært afladagbók í veiðiferð sinni 7. júní 2016 og að eldri aflaskáningu hafi verið ábótavant. Telji Fiskistofa þá háttsemi varða við 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006 og 1. mgr. 2. gr., og 1. og 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 557/2007. Kærandi hafi fengið skriflega áminningu 18. júní 2015 vegna [S] fyrir að hafa um borð ranga afladagbók og að hafa ekki fært afladagbók. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, hafi slík áminning ítrekunaráhrif í tvö ár. Með hliðsjón af öllu framangreindu og með vísan til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006 hafi Fiskistofa ákveðið að svipta skipið [S] leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku. Með vísan til 24. gr. laga nr. 116/2006 taki framangreind svipting veiðileyfis gildi við útgáfu næsta veiðileyfis.

Þá kemur þar fram að ákvörðunin sé kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda barst ákvörðunin samkvæmt 18. gr. laga nr. 57/1996 og einnig kom þar fram að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 17. júlí 2016, sem barst barst ráðuneytinu 18. ágúst sama ár, kærði [Y ehf.], [X hdl.], f.h. kæranda, þá ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2016, að svipta skipið [S] leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku.

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að málsatvik séu þau að eftirlitsmaður á vegum Fiskistofu hafi komið um borð í [S] þegar skipið hafi verið komið að bryggju á Bolungarvík þann 7. júní 2016. Báturinn hafi einungis verið lausbundinn við löndunarkrana en skipstjóri hafi átt eftir að leggja honum á endanlegum stað. Þá hafi ekki verið búið að landa afla dagsins. Skipstjórinn hafi bent eftirlitsmanninum á að ekki væri búið að leggja bátnum og að skráningu í afladagbók yrði lokið áður en til þess kæmi. Eftirlitsmaðurinn hafi talið mótmæli skipstjórans ekki eiga við rök að styðjast og að eldri skráningu í afladagbók væri einnig ábótavant. Í ákvörðun Fiskistofu sé vísað til 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 557/2007 en þar segi að í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst sé að bryggju skuli afladagbók skips vera að fullu færð. Þar sem báturinn hafi einungis verið lausbundinn við löndunarkrana og ekki búið að leggja honum endanlega verði ekki séð að brotið hafi verið gegn framangreindu ákvæði. Skipstjórinn hafi enn verið um borð til að ganga frá lausum endum og hafi veiðiferð bátsins þennan dag því enn verið ólokið. Ef beita eigi viðurlögum vegna meintra brota á reglugerðarákvæði verði að gera kröfu um skýrleika þess ákvæðis sem um ræðir og að lýsing á háttsemi hins brotlega sé í samræmi við verknaðarlýsingu ákvæðisins. Með hliðsjón af því að skipstjórinn hafi enn verið um borð í bátnum að ganga frá lausum endum og að ekki hafi verið búið að leggja bátnum endanlega verði ekki séð að hægt sé að heimfæra háttsemi skipstjórans að verknaðarlýsingu ákvæðisins en um sé að ræða íþyngjandi viðurlög. Þá komi fram í ákvörðun Fiskistofu að beiting viðurlaga sé einnig til komin vegna þess að eldri aflaskráningu hafi verið ábótavant. Það sé ekki útskýrt nánar í ákvörðuninni en ekki sé tiltekið með hvaða hætti eða hvenær aflaskráningu hafi verið ábótavant. Sé því um að ræða mjög óljósar ásakanir í garð skipstjórans. Beiting viðurlaga á grundvelli háttsemi sem ekki sé tilgreind nánar í lögum sé ekki heimil enda verði þeim sem ákvörðunin varðar að vera unnt að gera sér grein fyrir í hverju brot hans sé falið og eftir atvikum að geta sett fram mótmæli.

Með tölvubréfi, dags. 8. september 2016, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 7. október 2016, segir m.a. að samkvæmt 18. gr. laga nr. 116/2006 skuli Fiskistofa annast eftirlit með framkvæmd laganna og hafi í því skyni sérstaka eftirlitsmenn í sinni þjónustu. Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 163/2006, um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (viðurlagaákvæði) komi fram að réttilega færðar afladagbækur og söfnun þeirra hljóti að teljast mikilvægur liður í þeirri upplýsingaöflun sem nauðsynleg sé til að stjórnvöld geti tekið skynsamlegar ákvarðanir varðandi nýtingu fiskistofna. Því sé það málefnaleg og sanngjörn krafa að þeir sem hafi leyfi til að stunda veiðar í atvinnuskyni færi réttar upplýsingar í afladagbækur og skili þeim í samræmi við settar reglur. Fiskistofa meti ákvæði 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 557/2007 þar sem komi fram að í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst sé að bryggju skuli afladagbók skips vera að fullu færð á engan hátt óskýrt. Túlkun Fiskistofu hafi verið sú að bátur sé lagstur að bryggju þegar báturinn komi upp að bryggjukantinum. Ekki hafi verið horft sérstaklega til þess hvort bátur hafi verið lausfestur, endanlega festur, hvort áhöfn hafi lokið við að landa eða slökkt á vél bátsins heldur aðeins að báturinn sé kominn að bryggjunni. Að mati Fiskistofu verði bátur að vera lagstur að bryggju, líkt og reyndin hafi verið í þessu máli. Það sé því mat Fiskistofu að bátur kæranda, [S], hafi verið lagstur að bryggju í máli þessu, sbr. verknaðarlýsingu 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 557/2007 og að skipstjóri hafi þar af leiðandi átt að hafa lokið við að skrá afla að fullu í afladagbók. Þegar eftirlitsmaður Fiskistofu hafi komið um borð í [S] þann 7. júní 2016 og óskað eftir að skoða afladagbók hafi ekki verið búið að skrá í bókina afla dagsins. Þá hafi eldri aflaskráningu verið ábótavant. Í 6. gr. reglugerðar nr. 557/2007 segi að skipstjórum sé skylt að skrá tilteknar upplýsingar í afladagbækur. Í afladagbók kæranda hafi aðeins þrír róðrar verið skráðir, þ.e. 1., 2. og 6. júní. Við alla róðrana hafi skort skráningu löndunarhafnar, tegund afla og hvort afli hafi verið slægður eða óslægður. Við róðurinn þann 6. júní hafi vantað þar að auki skráningu á magni aflans. Ljóst sé því, samkvæmt ofangreindu ákvæði, að skráningu í afladagbók hafi verið ábótavant. Við eftirlit eftirlitsmanna Fiskistofu 7. júní 2016, hafi skipstjóra [S] einnig verið bent á að eldri aflaskráningu væri ábótavant og reglugerð nr. 557/2007 verið skýrð fyrir honum. Eftirlitsmaður hafi fyllt út skýrsluform afladagbókareftirlits, þar sem hafi komið fram að bæði hafi skort skráningu róðrar frá 7. júní og löndunaraflaupplýsingar við fyrri skráningar afladagbókar, og hafi skipstjórinn skrifað undir þá skýrslu. Ganga megi út frá því að skipstjóri [S] hafi gert sér grein fyrir í hverju brot hans hafi verið fólgið og hann getað, eftir atvikum, sett fram mótmæli hafi hann óskað þess. Fiskistofa hafi sent kæranda, útgerð [S], bréf dags. 23. júní 2016, þar sem veittur hafi verið frestur til 8. júlí 2016 til að koma að andmælum eða útskýringum vegna afladagbókarbrotsins. Engin andmæli hafi borist. Fyrir liggi í málinu að skipstjóri [S] hafi ekki fært afladagbók í veiðiferð skipsins 7. júní 2016 og að eldri aflaskráningu hafi verið ábótavant. Telji Fiskistofa þá háttsemi varða við 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006 og 1. mgr. 2. gr. og 1. og 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 557/2007. Einnig liggi fyrir að kærandi hafi fengið skriflega áminningu 18. júní 2015, vegna [S], fyrir að hafa haft um borð ranga afladagbók og að hafa ekki fært afladagbók. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 57/1996 hafi slík áminning ítrekunaráhrif í tvö ár. Hér sé því um að ræða brot af hálfu kæranda, er varði sviptingu veiðileyfis og ekki sé um að ræða fyrsta minni háttar brot kæranda.

Umsögn Fiskistofu fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) Brotaskýrsla Fiskistofu, dags. 7. júní 2016. 2) Afladagbók [S]. 3) Skýrsluform – afladagbókareftirlit, dags. 7. júní 2016).

Með tölvubréfi, dags. 17. október 2016, sendi ráðuneytið lögmanni kæranda ljósrit af framangreindri umsögn Fiskistofu, dags. 7. október 2016, og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina.

Með bréfi, dags. 27. október 2016, bárust ráðuneytinu athugasemdir lögmanns kæranda við umsögn Fiskistofu, dags. 7. október 2016. Þar segir m.a. að í ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2016, sé ekki tiltekið með hvaða hætti eða hvernig eldri aflaskráningu hafi verið ábótavant. Engu að síður hafi þessar óljósu ásakanir varðandi eldri aflaskráningu verið hluti af þeim forsendum sem lagðar hafi verið til grundvallar við beitingu þeirra viðurlaga sem um ræði í málinu. Beiting viðurlaga á grundvelli háttsemi sem ekki sé tilgreind nánar sé ekki heimil enda verði þeim sem ákvörðun varðar að vera unnt að gera sér grein fyrir í hverju brot hans sé falið og eftir atvikum að geta sett fram mótmæli. Ekki verði bætt úr með síðbúnum útskýringum sem fyrst hafi komið fram í umsögn Fiskistofu, dags. 7. október 2016. Ákvörðunina beri því að fella úr gildi þegar af þessari ástæðu. Einnig sé 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 557/2007 ekki nægjanlega ítarlegt og skýrt ákvæði. Ef beita eigi viðurlögum vegna meintra brota á reglugerðarákvæði verði að gera kröfu um skýrleika þess ákvæðis sem um ræði og að lýsing á háttsemi hins brotlega sé í samræmi við verknaðarlýsingu ákvæðisins. Með hliðsjón af því að skipstjórinn hafi enn verið um borð í bátnum að ganga frá lausum endum og að ekki hafi verið búið að leggja bátnum endanlega verði ekki séð að hægt sé að heimfæra háttsemi skipstjórans að verknaðarlýsingu ákvæðisins en um sé að ræða íþyngjandi viðurlög. Stjórnvaldi sé í lófa lagið að útfæra umrætt reglugerðarákvæði með ítarlegri hætti til að fyrirbyggja aðstæður á borð við þær sem séu fyrir hendi í þessu máli og þann vafa sem sé til staðar. Bent sé á að ef reglugerð sé á einn eða annan hátt íþyngjandi í garð borgaranna dugi almenn reglugerðarheimild ekki. Lögin sem innihaldi reglugerðarheimildina verði að mæla fyrir um tilteknar meginreglur, þar sem fram komi takmörk og umfang þess, sem skipa megi með reglugerðinni. Reglugerð nr. 557/2007 sé sett með heimild í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006 en þar segi að í reglugerð skuli kveða nánar á um þær upplýsingar sem skrá skuli í afladagbækur, form þeirra og skil til Fiskistofu. Þessi heimild hljóti að teljast mjög almenn og víðtæk enda hægt að útfæra reglur um upplýsingar, form og skil afladagbóka með margvíslegum hætti. Svo rúm heimild sé óviðunandi í ljósi þess að viðurlög séu vegna brota á reglugerðinni. Lagastoð reglugerðarinnar hefði orðið að kveða á með afgerandi hætti um takmörk og umfang þess sem skipa megi með reglugerðinni. Með þessari almennu og víðtæku lagastoð hafi framkvæmdarvaldshafa í raun verið framselt vald til skilgreiningar á háttsemi sem varðað geti íþyngjandi viðurlögum. Brjóti þetta gegn þrískiptingu ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Með tölvubréfi, dags. 22. maí 2017, bárust ráðuneytinu tiltekin viðbótargögn frá Fiskistofu, sem ráðuneytið hafði óskað eftir símleiðis, þ.e. ljósrit af hinni kærðu ákvörðun, dags. 19. júlí 2016 og bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 23. júní 2016.

 

 

Rökstuðningur

I. Stjórnsýslukæra í máli þessu barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þann 18. ágúst 2016, með tölvubréfi, dags. sama dag. Kærufrestur vegna ákvörðunar Fiskistofu, dags. 19. júlí 2016, sem er einn mánuður, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1996, var því ekki liðinn þegar stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu.

 

II. Hin kærða ákvörðun Fiskistofu í máli þessu, dags. 19. júlí 2016, um sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni byggir á því að brot kæranda samkvæmt framangreindum lögum nr. 57/1996 hafi verið fólgið í því að afladagbók skipsins [S] hafi ekki verið færð þegar skipið lagðist að bryggju eftir veiðiferð þann 7. júní 2016.

Ákvörðunin er byggð á því að með framangreindri háttsemi hafi verið brotið gegn 4. mgr. 7. gr. þágildandi reglugerðar 557/2007, um afladagbækur, sem sett var samkvæmt heimild í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006 en þar segir m.a.:

 

Skipstjórnarmenn veiðiskipa, sem hljóta veiðileyfi í atvinnuskyni skv. 5. gr., skulu halda sérstakar afladagbækur sem Fiskistofa leggur til. [...] Skal með reglugerð kveða nánar á um þær upplýsingar sem skrá skal í afladagbækur, form þeirra og skil til Fiskistofu.“

(http://www.althingi.is/lagas/146a/2006116.html)

 

Það var gert með þágildandi reglugerð nr. 557/2007 en í 6. gr. reglugerðarinnar eru talin upp þau atriði sem skrá skal í afladagbækur, m.a. afla eftir magni og tegundum, veiðidag, löndunarhöfn o.fl.

Ákvæði 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 557/2007, er svohljóðandi:

 

"Í lok hverrar veiðiferðar og áður er lagst er að bryggju skal afladagbók skips vera að fullu færð."

 

Einnig er ákvörðunin byggð á því að eldri skráningu í afladagbók skipsins hafi verið ábótavant, m.a. hafi skipið verið með ranga afladagbók í tiltekinni veiðiferð og ekki skráð öll þau atriði sem skylt sé að skrá samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 557/2007. M.a. hafi skort skráningu löndunarhafnar, tegund afla og hvort afli hafi verið slægður eða óslægður.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006 skulu allir skipstjórnarmenn veiðiskipa sem stunda veiðar í atvinnuskyni halda sérstakar afladagbækur. Í 3. málsl. 1. mgr. 17. gr. kemur fram að með reglugerð skuli kveða á um þær upplýsingar sem skrá skuli í afladagbækur, form þeirra og skil til Fiskistofu. Þá kemur fram í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 557/2007 að allir skipstjórar íslenskra fiskiskipa sem stunda veiðar í atvinnuskyni skuli halda sérstakar afladagbækur og í 4. mgr. 9. gr. sömu reglugerðar kemur fram að afladagbók á bókarformi skuli ávallt vera um borð í þeim fiskiskipum þar sem heimilað hafi verið að færa slíka afladagbók. Í 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 557/2007 er svo kveðið á um að afladagbókin skuli vera að fullu færð í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst sé að bryggju.

Fyrir liggur í málinu að skipstjóri skipsins [S] hafði ekki fært afladagbók í veiðiferð sinni 7. júní 2016 þegar veiðieftirlitsmaður Fiskistofu kom um borð í skipið.

Af hálfu kæranda hefur því ekki verið mótmælt að afladagbók skipsins hafi ekki verið færð á því tímamarki sem veiðieftirlitsmaður Fiskistofu kom um borð í skipið en því haldið fram að skipið hafi ekki verið lagst að bryggju þar sem skipið hafi verið lausbundið og skipstjórinn enn í skipinu að ganga frá lausum endum og m.a. átt eftir að ganga frá skipinu við bryggjuna og færslu í afladagbók.

Ráðuneytið fellst ekki á að skip kæranda, [S], hafi ekki verið lagst að bryggju í máli þessu, sbr. verknaðarlýsingu 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 557/2007, enda var veiðieftirlitsmaður kominn um borð í skipið, en samkvæmt því átti skipstjóri skipsins að hafa lokið við að skrá afla skipsins að fullu í afladagbók.

Þegar litið er til framanritaðs og þegar af þeirri ástæðu sem þar kemur fram er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi í máli þessu hafi brotið gegn 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og 1. mgr. 2. gr. og 1. og 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 557/2007, um afladagbækur, með síðari breytingum.

Kærandi heldur því fram að framangreint ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006 feli í sér of almenna og víðtæka heimild til setningar reglugerðar til að vera grundvöllur viðurlaga samkvæmt VI. kafla laga nr. 116/2006, sbr. og 15. gr. laga nr. 57/1996, m.a. með vísan til 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Af hálfu ráðuneytisins er ekki fallist á þessa málsástæðu kæranda með vísan til þess að í 24. gr. laganna sem gerð er grein fyrir í III hér á eftir er kveðið á um að brot gegn lögunum og reglum settum samkvæmt þeim geti varðað viðurlögum, þ.e. sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni eða skriflegri áminningu. Byggir ráðuneytið á því að í framangreindum lögum er fjallað með beinum hætti um réttindi og skyldur þeirra aðila sem undir ákvæði þeirra falla. Af ákvæðum laganna verður ráðið með skýrum hætti í hverju brot þeirra sem undir þau falla geta falist. Vegna þessa verður að telja að lögin hafi að geyma nægilega skýrar forsendur og lýsingar á þeim brotum sem ráða má að geti orðið grundvöllur viðurlaga. Verður ekki fallist á að skýrleika skorti að þessu leyti til í ákvæðum laganna.

Þegar litið er til þessa verður að telja að viðurlög sem um ræðir í máli þessu séu að öllu leyti samrýmanleg ákvæðum laganna þó svo að verknaðarlýsing sé útfærð í reglugerð. Byggist sú afstaða á því að sú verknaðarlýsing rúmast innan ákvæða laganna varðandi þá háttsemi sem um ræðir í máli þessu og talin hefur verið andstæð ákvæðum laganna.

 

III. Brot gegn þeim ákvæðum sem fjallað er um í II hér að framan varða viðurlögum samkvæmt 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þar er kveðið á um að Fiskistofa skuli beita áminningum eða svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef brotið sé gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar sé mælt fyrir í lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Í 15. gr. laga nr. 57/1996 er svohljóðandi ákvæði:

 

"Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim.

Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár.

Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu." (http://www.althingi.is/lagas/142/1996057.html

 

Í framangreindu ákvæði 15. gr. laga nr. 57/1996 kemur fram að Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa hins vegar þrátt fyrir framangreint ákvæði veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.

Ákvæðið felur í sér að þegar um er að ræða ítrekun beri að beita leyfissviptingu.

Eins og atvikum þessa máls er háttað þykja ekki vera skilyrði til að víkja frá beitingu viðurlaga, sbr. það sem að framan greinir.

Þá liggur fyrir að kærandi, útgerð skipsins [S], fékk skriflega áminningu 18. júní 2015 fyrir að hafa um borð í skipinu ranga afladagbók og að hafa ekki fært afladagbók. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, hefur slík áminning ítrekunaráhrif í tvö ár. Ekki kemur því til greina að beita áminningu í þessu máli.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2016, um að svipta skipið [S] leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku. Þar sem því veiðitímabili sem fjallað er um í málinu er lokið mun leyfissviptingin taka gildi við útgáfu næsta veiðileyfis, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. 

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 19. júlí 2016, um að svipta skipið [S] leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku og tekur leyfissviptingin gildi við útgáfu næsta veiðileyfis.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta