Hoppa yfir valmynd
11. júní 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Kynning fyrir notendur ADHD-lyfja vegna breytinga varðandi lyfjaávísanir og afhendingu lyfja sem taka gildi 1. júlí

Markmið breytinganna og efni þeirra

Þann 1. júlí 2018 tekur gildi reglugerð nr. 1266/2017, um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja sem birt var á vef Stjórnartíðinda í lok síðasta árs. Á sama tíma tekur gildi reglugerðarbreyting sem snýr meðal annars að þeim sem nota lyf við ADHD (Athyglisbresti með ofvirkni), sem innihalda metýlfenidat. Breytingarnar sem kynntar eru hér að neðan koma fram í breytingarreglugerðinni sem fylgir hér sem viðhengi. Markmiðið er að sporna við misnotkun lyfjanna

Breytingarnar eiga einkum við um ADHD-lyf sem innihalda metýlfenídat en það eru til dæmis lyfin Concerta, Rítalín/Rítalín Uno, Methylphenidate Sandoz og Equasym. Engar breytingar verða gerðar á ávísunum eða afgreiðslu lyfja sem innihalda atomoxetin en það eru til dæmis lyf eins og Strattera og Atomeoxetine Sandoz.

Með breytingunum 1. júlí verður afgreiðsla lyfja sem innihalda amfetamín og metýlfenídat takmörkuð við lyfjaskírteini Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Því verður metýlfenídat ekki afgreitt nema viðkomandi einstaklingur sé með gilt lyfjaskírteini frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ). Til þess að fá útgefið lyfjaskírteini þurfa þeir sem orðnir eru 18 ára að snúa sér til geðlæknis eða fá tilvísun hjá lækni til þess að komast að hjá ADHD-teymi Landspítalans. Þetta þýðir að þeir sem ekki hafa fengið formlega greiningu og eru því án lyfjaskírteinis geta ekki fengið afgreidd metýlfenídatlyf frá 1. júlí næstkomandi.

Mikilvægt er fyrir alla að fullvissa sig um að lyfjaskírteini þeirra séu gild, bæði þegar læknir ávísar lyfjum og þegar lyf eru sótt í apótek. Gildistími lyfjaskírteina fyrir umrædd lyf er í mesta lagi 18 mánuðir.

Afgreiðslutakmörkun verður sett á ADHD-lyf sem innihalda metýlfenídat, sbr. 12. gr. reglugerðarinnar. Mest mega apótek nú afgreiða lyf til 30 daga í senn og það þurfa að líða 25 dagar milli afgreiðslna. Þetta þýðir t.d. að sá sem tekur út lyf sem hér um ræðir 1. júlí fær þau afgreidd til 30 daga. Næstu afgreiðslu getur hann ekki fengið fyrr en eftir 25. júlí og þá fær hann að  hámarki lyf til 30 daga. Lyfjafræðingi er heimilt að víkja frá þessum tímamörkum ef sérstaklega stendur á en fyrir slíkum undanþágum þurfa að vera mjög góðar og gildar ástæður.

Vakin er athygli á því að frá gildistöku reglugerðarinnar, 1. júlí 2018, gilda ekki lengur lyfjaávísanir lækna frá Evrópska efnahagssvæðinu á umrædd lyf, sbr. 26. gr. Af því leiðir að ávísanir á ADHD-lyf sem innihalda metýlfenídat og gefnar eru út af öðrum en íslenskum læknum verða ekki teknar gildar í apótekum hér á landi. Þeir sem nota erlendar lyfjaávísanir þurfa því að hafa samband við lækni með íslenskt lækningaleyfi.

Hvað þýðir þetta fyrir mig?

Hér að neðan geta þeir sem nota lyf við ADHD séð hvort þeir þurfi á einhvern hátt að bregðast við vegna þeirra breytinga sem reglugerðin felur í sér:

  • Ef þú tekur lyf sem innihalda atomóxetin þá munu þessar breytingar ekki hafa áhrif á þig.

    Ef þú tekur lyf sem innihalda metýlfenídat, til dæmis Concerta, Rítalín eða annað samheitalyf þarftu að gæta þess að vera með gilt lyfjaskírteini frá Sjúkratryggingum Íslands. Einsskaltu hafa í huga að það þarf að nálgast lyfin oftar í apóteki nú en áður. Þú munt aðeins fá afgreidd lyf til 30 daga í senn og getur aðeins sótt nýjan skammt á 25 daga fresti.

  • Ef þú berð ábyrgð á barni sem tekur ADHD-lyf sem inniheldur metýlfenídat þarftu að gæta að því að barnið sé með gilt lyfjaskírteini. Eins skaltu hafa í huga að sækja þarf lyfin í apótek oftar en áður, þar sem þessi lyf eru aðeins afgreidd til 30 daga í senn og þúgetur aðeins sótt nýjan skammt á 25 daga fresti.

  • Ef þú tekur ADHD-lyf sem innihalda metýlfenídat en ert ekki með formlega greiningu frá geðlækni eða ADHD-teymi Landspítalans þarftu annað hvort að hafa samband við geðlækni eða fá tilvísun frá heimilislækni til ADHD-teymis Landspítalans. Ekki er fullnægjandi að vera með greiningu frá öðrum aðila, til dæmis sálfræðingi. Þegar formleg greining liggur fyrir þá er það geðlæknir sem tekur ákvörðun um hvort sótt sé um lyfjaskírteini til Sjúkratrygginga Íslands. Athugaðu að frá og með 1. júlí 2018 munt þú ekki fá afgreidd metýlfenídatlyf nema fyrir liggi lyfjaskírteini frá Sjúkratryggingum Íslands.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta