Stöðumat á framkvæmd minjaverndar – ráðherra skipar starfshóp
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að vinna tillögur að stöðumati á framkvæmd minjaverndar í landinu.
Gert er ráð fyrir að tillögur hópsins snúi m.a. að skilgreiningu og afmörkun minjaverndar og tækifærum til umbóta, samantekt helstu úttekta og greininga, ásamt mati á umfangi verkefna minjavörslunnar og stöðu, þróun og helstu áskorunum Húsafriðunarsjóðs og Fornleifasjóðs.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er sameiginleg skylda okkar að standa vel að minjavernd í landinu. Framþróun sem leiðir af sér breytta landnotkun og byggingarframkvæmdir, sem og afleiðingar loftslagsbreytinga m.a. í formi landsbrots og skriðufalla, hafa áhrif á minjar og minjavörsluna. Það er mikilvægt að öðlast skýra mynd af stöðu minjaverndar og helstu áskorunum sem henni mæta, svo búa megi í haginn fyrir framtíðina.“
Starfshópinn skipa:
- Birgir Þórarinsson, formaður
- Arnhildur Pálmadóttir, Arkitektafélagi Íslands,
- Erna Hrönn Geirsdóttir, Samband íslenskra sveitarfélaga,
- Orri Vésteinsson, Félag fornleifafræðinga,
- Rúnar Leifsson, menningar- og viðskiptaráðuneytið
Með starfshópnum starfa Dagný Arnardóttir og Guðríður Þorvarðardóttir frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Starfshópurinn á að skila tillögu til ráðherra fyrir 1. júní nk.