Hoppa yfir valmynd
22. júlí 2008 Innviðaráðuneytið

Viðamiklar vegaframkvæmdir á Norðausturlandi

Viðamiklar vegaframkvæmdir standa nú yfir á Norðausturlandi og fleiri eru í bígerð. Helstu verkefnin eru nýr vegur yfir Melrakkasléttu, nýr vegarkafli milli Vopnafjarðar og Hringvegar og á Hringvegi við Arnórsstaðamúla og hafist verður handa við nýjan Dettifossveg vestan Jökulsár á Fjöllum.
Norðausturvegur á Vopnafjarðarleið
Verið er að leggja nýjan kafla á Norðausturvegi á Vopnafjarðarleið.


Stærsta verkið sem komið er í gang er nýr vegur um Hólaheiði, nokkru norðan við núverandi veg um Öxafjarðarheiði og ný tenging hans við Raufarhöfn. Alls er framkvæmdin nýbygging á um 56 km vegi milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar um Hólaheiði og Hófaskarð, með tengingu til Raufarhafnar. Vegurinn verður hluti af Norðausturvegi nr. 85. Verkinu er skipt í þrjá áfanga. Sá fyrsti er bygging vegar milli Katastaða rétt sunnan Kópaskers og Norðausturvegar ofan við Kollavík. Annar áfanginn er vegagerð milli Fjallgarðsmela við Kollavík og Sævarlands við Þistilfjörð og sá þriðji er nýr vegur milli nýja vegarins um Hólaheiði og að Norðausturvegi nokkru sunnan við Raufarhöfn.

Samið var við lægstbjóðanda, Héraðsverk, um tvo fyrri áfangana en sá þriðji hefur ekki verið boðinn út enn. Kostnaður við tvo fyrstu áfangana er rúmlega 1,6 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að tveimur fyrri áföngunum ljúki árið 2010 en vegurinn um Hólaheiði verður þó tilbúinn síðsumars 2009. Þriðja áfanga verður lokið árið 2011. Verður þá leiðin greiðfær árið um kring milli Kópaskers og Raufarhafnar og áfram austur um. Öxarfjarðarheiði hefur aðeins verið fær að sumarlagi enda vegurinn mikið niðurgrafinn. Með nýju leiðinni þarf ekki lengur að aka fyrir Sléttu eins og verið hefur að vetrarlagi og styttist því tenging milli framangreindra byggðarlaga umtalsvert.

Hringvegur – Vopnafjörður

Annað viðamikið verkefni á Norðausturvegi er nýr vegur á nánast allri leiðinni milli Hringvegar og Vopnafjarðar. Byggður verður nýr vegur um Vesturárdal allt til Vopnafjarðar og gerð ný tenging yfir á núverandi veg í Hofsdal, skammt norðan Hofs. Verkið, sem er alls um 44 km að lengd, verður unnið í áföngum og hefur þegar verið hafist handa við vestasta kaflann sem er milli Brunahvammsháls og Bunguflóa sem er kringum 10 km. Þeim kafla á að ljúka í haust en ljúka á öllu verkinu árið 2011. Kostnaður við fyrri áfanga er alls kringum 460 milljónir króna og er Suðurverk verktaki. Stefnt er að því að bjóða út síðari áfangann í haust.

Þriðja umfangsmikla verkefnið á Norðausturlandi er nýr vegarkafli á Hringveginum innarlega í Jökuldal, um Skjöldólfsstaðafjall eða Arnórsstaðamúla. Vegurinn færist á þeim kafla norður fyrir Gilsá og er alls nærri 8 km langur. Með þeim kafla fækkar um einbreiða brú á Gilsá og eins hverfur erfið beygja og brattur vegarkafli við núverandi vegamót inn í Efra-Jökuldal. Verklok eru möguleg í haust og ræðst það nokkuð af veðri. Verktaki er Héraðsverk. Kostnaður er kringum 450 milljónir króna. Með þessum kafla verður allur Hringvegurinn milli Akureyrar og Egilsstaða lagður bundnu slitlagi.

Dettifossvegur

Nýr Dettifossvegur vestan Jökulsár á Fjöllum hefur verið í undirbúningi um skeið og er stefnt að því að hefja verkið síðsumars en því er skipt í tvo áfanga. Fyrri áfanginn er kaflinn milli Hringvegar og að Dettifossi og sá síðari milli Dettifoss og Norðausturvegar við Ásbyrgi og verður hann boðinn út í haust. Nýtt vegarstæði verður mun nær ánni að sunnanverðu en nú er. Verktaki í fyrri áfanga er Árni Helgason og er kostnaður kringum 800 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að öllu verkinu verði lokið 2011. Mögulegt verður að halda þessum nýja vegi opnum að nokkru leyti að vetrarlagi en í dag lokast vegirnir beggja vegna árinnar í fyrstu snjóum.

Af öðrum framkvæmdum sem unnið er að í sumar á Norðaustursvæði Vegagerðarinnar er helst að nefna lagfæringar í Þvottár- og Hvalnesskriðum, nýjan vegarkafla á Hringveginum í Hamarsfirði og kafla á Upphéraðsvegi og milli Lagarfoss og Unaóss á utanverðu Héraði.

       

 Framkvæmdir við Norðausturveg
Frá framkvæmdasvæði Norðausturvegar við Fremri Háls á Melrakkasléttu þar sem hann tengist eldri hluta vegarins.


         

 
 Hringvegur við Arnórsstaðamúla
Unnið er nú við nýjan kafla á Hringvegi við Skjöldólfsstaðafjall eða Arnórsstaðamúla.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta