Hoppa yfir valmynd
19. september 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 274/2024-Úrskuðrur

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 274/2024

Fimmtudaginn 19. september 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. júní 2024, kærði B lögmaður, fh. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. mars 2024, um að synja umsókn hans um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ 26. febrúar 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. mars 2024, var umsókn kæranda synjað á grundvelli 8. gr. laga nr. 87/2023 um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ sökum þess að ekki væru til staðar tekjur frá atvinnurekandanum C á tímabilinu ágúst til október 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. júní 2024. Með bréfi, dags. 18. júní 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 9. júlí 2024 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. júlí 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi þann 1. nóvember 2024 verið ráðinn til starfa hjá fyrirtækinu C sem sé með starfsstöð í Grindavíkurbæ. Þann 10. nóvember 2024 hafi Grindavíkurbær verið rýmdur vegna náttúruhamfara og veruleg skerðing orðið á starfsemi vinnuveitanda í kjölfarið. Kærandi hafi verið meðal hóps starfsfólks sem ekki hafi getað gegnt vinnu sinni sökum náttúruhamfaranna. Með bréfi, dags. 6. febrúar 2024, hafi kæranda, ásamt öðrum starfsmönnum í landi sem ekki hafi getað sótt vinnu vegna hamfaranna, verið tilkynnt að fyrirtækið hefði ákveðið að stöðva greiðslu launa. Jafnframt hafi verið staðfest að framangreind ákvörðun hefði ekki áhrif á ráðningarsamband starfsfólks við vinnuveitanda. Starfsfólk hafi verið hvatt til að sækja um greiðslur til Vinnumálastofnunar á grundvelli laga nr. 87/2023. Kærandi hafi sótt um tímabundinn stuðning vegna launataps, dags. 26. febrúar 2024, vegna tímabilsins 7. febrúar til 29. febrúar 2024. Með ákvörðun, dags. 18. mars 2024, hafi Vinnumálastofnun hafnað umsókn kæranda.

Vinnumálastofnun hafi hafnað umsókn kæranda á grundvelli þess að skilyrði til greiðslu launa væru ekki uppfyllt. Stofnunin hafi vísað til 8. gr. laga nr. 87/2023 ákvörðun sinni til stuðnings þar sem kveðið sé á um að stuðningur til einstaklinga skuli taka mið af meðallaunum viðkomandi á tímabilinu ágúst til október 2023. Stofnunin hafi byggt á því að í greinargerð ákvæðisins segi að til meðallauna teljist þau laun sem einstaklingur hafi fengið greidd á umræddu tímabili frá þeim atvinnurekanda sem stöðvað hafi launagreiðslur til viðkomandi. Stofnunin hafi byggt ákvörðun sína á því að þar sem kærandi hefði ekki haft launagreiðslur frá vinnuveitanda á framangreindu tímabili væru skilyrði úrræðisins ekki uppfyllt og væri umsókn hans því hafnað. Stofnunin hafi að öðru leyti ekki fjallað um umsókn kæranda og skilyrði laganna fyrir veitingu tímabundins stuðnings vegna launataps.

Tilgangur laga nr. 87/2023 sé samkvæmt 2. gr. þeirra að vernda afkomu fólks sem geti ekki gegnt störfum sínum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ þar sem starfsstöðin sé staðsett í sveitarfélaginu með því að tryggja launagreiðslur til viðkomandi. Jafnframt sé markmiðið að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks. Í 1. gr. laganna sé tiltekið að úrræðið sé fyrir fólk sem hafi ekki getað sinnt starfi sínu á tímabilinu 11. nóvember 2023 til 20. júní 2024. Í lögunum komi ekki fram takmarkanir þess efnis að þeir einstaklingar sem uppfylli skilyrði laganna en hafi verið ráðnir til starfa 1. nóvember 2023 eða síðar skuli falla utan gildissviðs laganna.

Kærandi hafi orðið launalaus þann 7. febrúar 2024 vegna náttúruhamfaranna og það sé því óumdeilt að kærandi hafi verið launalaus á því tímabili sem lögin tilgreini. Nánari skilyrði fyrir veitingu stuðningsins til einstaklinga séu í 2. mgr. 5. gr. sömu laga. Fyrsta skilyrðið sé að ráðningarsamband sé til staðar. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi verið starfsmaður hjá vinnuveitanda frá því 1. nóvember 2023 og að ráðningarsambandið hafi enn verið til staðar á því tímabili sem sótt sé um bætur fyrir þrátt fyrir stöðvun launagreiðslna. Skilyrðið um ráðningarsamband sé því uppfyllt. Annað skilyrðið sé að starfsfólkið hafi ekki getað gegnt störfum sínum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ þar sem starfsstöð þess sé staðsett í sveitarfélaginu, enda liggi starfsemi á starfsstöðinni niðri, að hluta eða öllu leyti, vegna náttúruhamfaranna. Kærandi hafi átt að starfa á starfsstöð vinnuveitanda í Grindavíkurbæ þar sem starfsemi hafi að mestu leyti legið niðri vegna náttúruhamfaranna og það skilyrði sé því einnig uppfyllt. Af framangreindu sé því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði laganna fyrir tímabundinn stuðning til einstaklinga vegna launataps.

Um viðmið fyrir upphæð þess fjárhagslega stuðnings sem fólk eigi rétt á vegna launatapsins sé fjallað í 8. gr. laganna. Þar segi að tekið skuli mið af meðallaunum eða meðaltali reiknaðs endurgjalds viðkomandi á tímabilinu ágúst til október 2023. Þá komi upp sú staða að þeir sem hafi hafið störf 1. nóvember 2023 eða síðar hjá fyrirtækjum sem hafi ekki getað haldið úti fullum rekstri í Grindavíkurbæ vegna náttúruhamfaranna hafi ekki haft laun á framangreindu viðmiðunartímabili. Að mati kæranda virðist Vinnumálastofnun taka ákvörðun um að túlka ákvæðið með þeim hætti að hafna beri umsóknum þeirra sem ekki hafi haft laun á viðmiðunartímabilinu. Kærandi geti með engu móti fallist á þessa túlkun Vinnumálastofnunar.

Kærandi bendi á að 8. gr. laganna sé ekki orðuð með þeim hætti að um ófrávíkjanlegt skilyrði sé að ræða. Þvert á móti virðist ákvæðið aðeins fela í sér nánari fyrirmæli um útfærslu á úrræðinu sem lögin kveði á um. Samkvæmt 1. gr. laganna skuli úrræðið taka til starfsfólks sem geti ekki gegnt störfum sínum vegna náttúruhamfaranna og sé því án launa á tímabilinu 11. nóvember 2023 til júní 2024. Í 2. gr. laganna komi fram að markmið laganna sé að vernda afkomu fólks sem ekki geti gegnt störfum sínum vegna framangreindra ástæðna og að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekanda og starfsfólks. Í greinargerð frumvarpsins séu sömu sjónarmið áréttuð. Hvergi komi fram þau sjónarmið að vilji löggjafans standi til þess að takmarka aðgengi fólks að úrræðinu á grundvelli þess hvenær það hafi hafið störf. Í áliti sem velferðarnefnd hafi veitt um frumvarp það er hafi orðið að lögunum sé fjallað sérstaklega um viðmiðunartímabilið í 8. gr. Þar komi fram að nefndin hafi sérstaklega viðrað áhyggjur sínar af því að uppgefið tímabil kynni í einhverjum tilfellum að gefa ranga mynd af raunverulegum tekjum fólks. Enga umfjöllun sé að finna varðandi þá túlkun Vinnumálastofnunar að útiloka beri fólk frá úrræðinu sem hafi ekki haft tekjur á viðmiðunartímabilinu. Þvert á móti segi orðrétt í áliti nefndarinnar: „Nefndin leggur áherslu á að Vinnumálastofnun taki tillit til aðstæðna gefi tímabilið ranga mynd af tekjum fólks“.

Af framangreindu virðist það því ekki vilji löggjafans að útiloka kæranda og aðra þá er hafi hafið störf eftir 1. nóvember 2023 frá úrræðinu. Engin slík fyrirmæli sé að finna í lögunum eða öðrum lögskýringargögnum. Að mati kæranda virðist því vera um túlkun stofnunarinnar að ræða sem byggist á óljósri gagnályktun út frá efni 8. gr. laganna. Hér sé því um að ræða ákvörðun sem tekin sé um mikilvæg réttindi kæranda á afar óskýrum lagagrundvelli.

Samkvæmt lögmætisreglunni, sem sé meginregla í stjórnsýslurétti og sæki stoð sína í 2. gr. stjórnarskrárinnar, beri stjórnvöldum að byggja ákvarðanir sínar hverju sinni á viðhlítandi réttarheimildum. Dómstólar hafi fjallað um inntak reglunnar, til að mynda í dómi Hæstaréttar frá 10. desember 2007 nr. 634/2007 þar sem inntaki hennar sé lýst með eftirfarandi hætti:

„Þá er það undirstöðuregla íslenskrar stjórnskipunar að stjórnvöld eru bundin af lögum við sýslan sína. Í þessari reglu, sem almennt er nefnd lögmætisreglan, felst annars vegar að ákvarðanir stjórnvalds verða að eiga stoð í lögum og hins vegar að þær mega ekki vera í andstöðu við lög. Þýðingarmikill kjarni reglunnar er fólginn í því að stjórnvöld geta ekki íþyngt mönnum með ákvörðunum sínum nema hafa til þess viðhlítandi heimildir í lögum. Við skýringu á valdheimildum stjórnvalda er almennt á því byggt að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er þurfi að gera strangari kröfur til þess að lagaheimild sem ákvörðun er reist á sé skýr. Séu uppi tveir kostir við skýringu á texta lagaheimildar skuli velja þann sem hagkvæmari er þeim manni sem valdbeiting stjórnvalds beinist að.“

Kærandi byggi á því að um verulega íþyngjandi ákvörðun sé að ræða þar sem hann hafi orðið án launa með verulega skömmum fyrirvara vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem hvorki hann né vinnuveitandi hans beri ábyrgð á. Þá bendi kærandi á að hann hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum á tímabilinu sem sótt hafi verið um bætur fyrir þar sem ráðningarsamband hafi enn verið á milli hans og vinnuveitanda. Það hafi því verulega fjárhagslega þýðingu fyrir hann að njóta greiðslna á grundvelli laganna. Kærandi bendi á að lögin beri ekki með sér að takmarka skuli réttindi fólks með þeim hætti sem Vinnumálastofnun geri og ákvörðunin byggi því á mjög óljósum grunni. Kærandi telji því að ákvörðun stofnunarinnar hafi ekki verið tekin á viðhlítandi lagagrundvelli og hafi borið að skýra ákvæði laganna honum í hag.

Kærandi byggi jafnframt á því að ákvörðun Vinnumálastofnunar brjóti gegn jafnræðisreglunni sem lögfest sé í 11. gr. stjórnsýslulaga sem vernduð sé af 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Reglan feli í sér skyldu stjórnvalda til að gæta samræmis og jafnræðis til að koma í veg fyrir mismunun á milli einstaklinga. Þá sé jafnræðisreglan nátengd réttmætisreglunni sem feli í sér að stjórnvöld skuli beita valdi sínu á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því að þeir einstaklingar sem hafi hafið störf 1. nóvember 2023 eða síðar, og hafi ekki getað sinnt störfum sínum á tímabilinu sem tilgreint sé í 1. gr. laganna vegna náttúruhamfaranna, eigi ekki að njóta sömu réttinda og þeir sem hafi hafið störf fyrir 1. nóvember 2023. Þvert á móti beri lögin auk lögskýringargagna það með sér að úrræðinu sé ætlað að tryggja afkomu allra þeirra er ekki hafi getað gegnt störfum sínum vegna þeirrar stöðu sem sé uppi vegna náttúruhamfaranna. Kærandi og aðrir sem hafi hafið störf 1. nóvember 2023 eða síðar og hafi enn átt í ráðningarsambandi við vinnuveitanda sinn þegar þeir hafi orðið launalausir sökum náttúruhamfaranna séu í sömu stöðu og þeir sem hafi hafið störf fyrir 1. nóvember 2023 þar sem þeir eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum eða öðrum úrræðum til þess að vernda afkomu sína. Því sé ekki hægt að fallast á að framangreind mismunun sé byggð á málefnalegum sjónarmiðum og beri því að fara með mál kæranda líkt og mál þeirra sem hafi hafið störf fyrir framangreinda dagsetningu. Kærandi telji að með ákvörðun sinni hafi Vinnumálastofnun ekki gætt jafnræðis líkt og stofnuninni beri að gera samkvæmt lögum.

Þá bendi kærandi á að lög nr. 87/2023 veiti atvinnurekendum einnig stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfaranna í Grindavík. Í 7. gr. laganna sé fjallað um hvernig skuli ákvarða þann stuðning en þar komi fram að stuðningur við atvinnurekendur til greiðslu launa miðist við heildarlaun starfsfólks í þeim almanaksmánuði eða mánuðum sem starfsfólk hafi ekki getað gegnt störfum sínum vegna náttúruhamfaranna. Í ákvæðinu séu ekki settar neinar takmarkanir varðandi við hvaða almanaksmánuði skuli miða líkt og í 8. gr. sem fjalli um stuðning við einstaklinga. Kærandi hafi fengið greidd laun frá atvinnurekanda fyrir tímabilið 1. nóvember 2023 til 6. febrúar 2024 og samkvæmt framangreindu ákvæði hafi atvinnurekandi getað sótt um stuðning til greiðslu þeirra launa. Af þessu leiði að réttur atvinnurekanda til stuðnings samkvæmt lögunum sé ríkari heldur en launþega. Kærandi telji hér um augljósa mismunun að ræða sem brjóti gegn framangreindum jafnræðisreglum.

Í kæru er vísað til þess að stjórnvöldum beri við ákvarðanir sínar að gæta meðalhófs, það er að tryggja að ekki sé gengið lengra en þörf krefji í því skyni að ná því markmiði sem að sé stefnt. Við ákvörðun um upphæð fjárhagslegs stuðnings samkvæmt lögum nr. 87/2023 segi að taka skuli mið af meðallaunum viðkomandi og/eða meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingargjald af, eftir því sem við eigi. Í ákvæðinu sé tímabilið ágúst til október 2023 tiltekið sem viðmiðunartímabil en af greinargerð frumvarpsins sem og lögskýringargögnum megi ráða að taka skuli tillit til aðstæðna þeirra sem ekki hafi átt rétt á launagreiðslum á tímabilinu. Kærandi bendi á að tiltölulega einfalt hefði verið að reikna út meðallaun hans með öðrum hætti, til að mynda með því að miða við þau laun sem hann hafi átt rétt á samkvæmt samkomulagi við vinnuveitanda svo og þau laun sem hann hafi fengið greidd frá vinnuveitanda á tímabilinu desember 2023 til febrúar 2024, sbr. viðmið 7. gr. laganna. Þá árétti kærandi að velferðarnefnd hafi sérstaklega beint því til Vinnumálastofnunar í nefndaráliti sínu um frumvarpið að taka tillit til aðstæðna gefi tímabilið ranga mynd af tekjum fólks. Í ljósi framangreinds telji kærandi að Vinnumálastofnun hafi ekki gætt meðalhófs við ákvörðun sína þegar stofnunin hafi ákveðið að hafna umsókn kæranda þar sem hann hefði ekki haft tekjur á umræddu viðmiðunartímabili.

Að framangreindu virtu telji kærandi að ákvörðun stofnunarinnar um að hafna umsókn hans um tímabundinn stuðning vegna launataps brjóti í bága við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar auk ákvæða stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu um bann við mismunun. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi lagaheimildar og ómálefnalegra sjónarmiða.

Kærandi krefjist þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. mars 2024, um synjun umsóknar hans verði felld úr gildi og umsókn hans um tímabundinn stuðningi vegna launataps verði samþykkt.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að stofnuninni hafi borist umsókn kæranda um tímabundinn stuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ þann 26. febrúar 2024. Kærandi hafi sótt um stuðning vegna febrúar 2024 en hann hafi starfað hjá C og fengið tilkynningu frá fyrirtækinu um að launagreiðslur yrðu stöðvaðar vegna yfirvofandi náttúruhamfara á svæðinu. Starfsfólki fyrirtækisins hafi verið bent á að sækja um stuðning hjá Vinnumálastofnun á grundvelli nýrra laga nr. 87/2023 um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

Við afgreiðslu á umsókn kæranda hafi Vinnumálastofnun aflað upplýsinga frá Skattinum um laun kæranda á tímabilinu frá ágúst til október 2023 hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hafi kærandi ekki þegið laun frá fyrirtækinu á þeim tíma. Með erindi, dags. 18. mars 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans væri hafnað þar sem ekki hefði verið fyrir að finna launagreiðslur til kæranda frá fyrirtækinu.

Lög nr. 87/2023 gildi um stuðning við starfsfólk vegna launataps sem ekki geti gegnt störfum sínum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ og fái ekki greidd laun frá atvinnurekanda þrátt fyrir að ráðningarsamband sé til staðar. Markmið laganna sé að vernda afkomu fólks, sem ekki geti gegnt störfum sínum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ þar sem starfsstöð þess sé staðsett í sveitarfélaginu, með því að tryggja launagreiðslur til viðkomandi upp að ákveðnu hámarki.

Skilyrði fyrir beinum stuðningi til starfsfólks sé samkvæmt 5. gr. laganna að viðkomandi hafi ekki getað gegnt störfum sínum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, starfsstöð fyrirtækisins sé í sveitarfélaginu Grindavík, starfsemi fyrirtækisins liggi niðri að hluta eða öllu leyti og að viðkomandi starfsmaður hafi ekki fengið greidd laun.

Í 8. gr. laganna sé fjallað um stuðning til einstaklinga. Þar komi meðal annars fram að stuðningur skuli taka mið af meðallaunum viðkomandi á tímabilinu frá ágúst til október 2023. Í 2. mgr. 8. gr. segi svo að stuðningur taki mið af almanaksmánuði og sé hlutfallslega minni fyrir styttra tímabil. Stuðningur geti þó aldrei verið meiri en 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð auk 11,5% mótframlags til lífeyrissjóðs.

Óumdeilt sé að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu C, starfsemi hafi legið niðri að minnsta kosti að hluta til og að starfsstöð [fyrirtækisins] sé í Grindavík. Þá sé óumdeilt að launagreiðslur til kæranda hafi verið felldar niður 7. febrúar 2024. Kærandi hafi því uppfyllt almenn skilyrði 5. gr. laga nr. 87/2023 líkt og fram komi í málatilbúnaði kæranda til úrskurðarnefndarinnar.

Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort kærandi eigi rétt á stuðningi samkvæmt 8. gr. laga nr. 87/2023. Fyrir liggi að kærandi hafi hafið störf hjá C í byrjun nóvember [2023]. Líkt og fyrr segi skuli greiðslur taka mið af meðallaunum umsækjenda á tímabilinu frá ágúst til október 2023. Í athugasemdum með 8. gr. í frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 87/2023 segi að til meðallauna teljist einungis þau laun sem einstaklingur hafi fengið greidd á umræddu tímabili frá þeim atvinnurekanda sem hafi stöðvað launagreiðslur til viðkomandi. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hafi kærandi ekki þegið laun frá fyrirtækinu á framangreindu tímabili. Þegar stuðningur til kæranda sé reiknaður með hliðsjón af meðallaunum hans hjá fyrirtækinu á tímabilinu ágúst til október 2023 eigi hann því ekki rétt á greiðslum á grundvelli ákvæðisins, enda hafi hann engin laun fengið greidd frá atvinnurekandanum á viðmiðunartímabili laganna.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar komi meðal annars fram að kærandi telji að 8. gr. laganna feli ekki í sér ófrávíkjanleg skilyrði fyrir greiðslum, heldur fyrirmæli um útfærslu á úrræðinu sem lögin kveði á um. Í því samhengi sé vísað til umfjöllunar velferðarnefndar Alþingis við setningu laganna um viðmiðunartímabilið þar sem fram komi að nefndin hafi sérstaklega viðrað áhyggjur sínar af því að uppgefið tímabil kynni í einhverjum tilfellum að gefa ranga mynd af raunverulegum tekjum fólks. Í kæru segi enn fremur að enga umfjöllun sé að finna varðandi þá túlkun Vinnumálastofnunar að útiloka beri fólk frá úrræðinu sem hafi ekki haft tekjur á viðmiðunartímabilinu og að vilji löggjafans hafi ekki staðið til að útiloka þá er hafi hafið störf eftir 1. nóvember 2023 frá úrræðinu. Því sé haldið fram að túlkun stofnunarinnar byggi á „óljósri gagnályktun út frá efni 8. gr. laganna“ og „á afar óskýrum lagagrundvelli“.

Í athugasemdum með 8. gr. í frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 87/2023 segi að stuðningur við starfsfólk á grundvelli 2. mgr. 5. gr. eða 6. gr. skuli taka mið af meðallaunum viðkomandi á tímabilinu frá ágúst til október 2023. Svo segi:

„Hafi starfsfólk ekki átt rétt á launagreiðslu nema að hluta á framangreindu tímabili, svo sem vegna fæðingarorlofs, er gengið út frá því að Vinnumálastofnun sé heimilt að reikna út meðallaun viðkomandi á grundvelli þeirra mánaða sem hlutaðeigandi starfsfólk fékk greidd laun frá atvinnurekanda á tímabilinu ágúst til og með október 2023. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en einn við útreikning á meðallaunum.“

Samkvæmt framangreindu sé Vinnumálastofnun gert að miða við viðmiðunartímabilið í öllum tilfellum en stofnuninni sé þó heimilt að taka tillit til þess þegar tekjur innan þess tímabils gefi ranga mynd af launum umsækjenda. Það eigi til dæmis við í þeim tilfellum sem launamaður hafi einungis fengið greidd laun í tvo mánuði á þriggja mánaða viðmiðunartímabilinu eða fengið mun lægri laun hluta af því tímabili. Stofnuninni sé þá heimilt að finna út meðallaun viðkomandi umsækjanda með því að taka viðkomandi mánuði úr útreikningi á meðallaunum umsækjanda en skuli þó alltaf miða við að minnsta kosti einn mánuð innan tímabilsins. Það eigi ekki við í tilfelli kæranda, enda hafi hann engin laun fengið greidd frá fyrirtækinu innan tímabilsins.

Í tilvitnuðu áliti velferðarnefndar Alþingis, sem hafi ekki lagt til breytingar á frumvarpinu í meðförum þingsins, segi orðrétt:

„Við umfjöllun nefndarinnar var því velt upp hvort það tímabil sem miðað væri við kynni í einhverjum tilfellum að gefa ranga mynd af raunverulegum tekjum fólks með hliðsjón af því að einhverjir kynnu að vera með lægri tekjur yfir sumarmánuðina, svo sem vegna orlofs. Í því sambandi kom fram að miklu máli skipti um skilvirkni úrræðisins að framkvæmdin væri eins einföld og kostur væri á. Þá kemur einnig fram í greinargerð með frumvarpinu að gengið sé út frá því að Vinnumálastofnun sé heimilt að taka tillit til aðstæðna þar sem starfsfólk hafi ekki átt rétt á launagreiðslu nema að hluta á framangreindu tímabili og reikna út meðallaun viðkomandi á grundvelli þeirra mánaða sem hlutaðeigandi starfsfólk fékk greidd laun. Nefndin leggur áherslu á að Vinnumálastofnun taki tillit til aðstæðna gefi tímabilið ranga mynd af tekjum fólks.“

Af nefndaráliti verði hvorki ráðið að stofnunin beri að víkja frá skýru viðmiðunartímabili 8. gr. laganna né að nefndin hafi talið að stofnuninni væri heimilt að horfa til tekna á öðrum tímabilum. Þvert á móti sé vísað til ummæla í greinargerð frumvarpsins um starfsfólk sem hafi ekki átt rétt á launagreiðslu „nema að hluta á framangreindu tímabili“. Þar að auki myndu slík ummæli í nefndaráliti ekki víkja frá skýrum lagaákvæðum og skýringum með þeim, enda hafi nefndin ekki talið ástæðu til breytinga á frumvarpinu heldur lagt til að það yrði samþykkt óbreytt.

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki fengið greidd laun frá C á tímabilinu frá ágúst til október 2023. Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/2023 segi að stuðningur skuli taka mið af meðallaunum á því tímabili. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi segi einnig skýrum orðum að aldrei skuli miða við færri en einn mánuð af því tímabili við útreikning á meðallaunum. Hvorki í ákvæðinu sjálfu né skýringum með frumvarpi sé lagt til annað tímabil sem stofnuninni sé heimilt að miða við þegar komi að útreikningi á meðallaunum umsækjenda og stuðningi til þeirra. Nefndarálit það sem vísað sé til í kæru til úrskurðarnefndar leggi ekki til aðra reiknireglu. Vinnumálastofnun hafni því athugasemdum kæranda um að „tiltölulega einfalt hefði verið að reikna út meðallaun hans með öðrum hætti, t.a.m. með því að miða við þau laun sem hann átti rétt á skv. samkomulagi við vinnuveitanda svo og þau laun sem hann hafði fengið greidd frá vinnuveitanda á tímabilinu desember 2023 til febrúar 2024“. Til framangreindra ráðstafana sé ekki að finna heimild í lögum nr. 87/2023 né verði þær leiddar af almennum lögskýringargögnum. Vinnumálastofnun fallist því hvorki á að ákvörðun stofnunarinnar sé byggð á gagnályktun ákvæðis 8. gr. laga nr. 87/2023 eða óljósum réttarheimildum, enda sé skýrt og afmarkað lagaákvæði til staðar.

Þar sem kærandi hafi ekki verið með neinar tekjur frá C á viðmiðunartímabilinu ágúst til október 2023 reiknist meðaltekjur hans 0 kr. Vinnumálastofnun hafi því borið að hafna umsókn kæranda.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um tímabundinn stuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ á grundvelli 8. gr. laga nr. 87/2023 um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

Í 1. gr. laga nr. 87/2023 er kveðið á um gildissvið laganna. Þar segir:

„Lög þessi gilda um tímabundinn stuðning til greiðslu launa starfsfólks á almennum vinnumarkaði, sem vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ getur ekki gegnt störfum sínum þar sem starfsstöð þess er staðsett í sveitarfélaginu, á tímabilinu frá og með 11. nóvember 2023 til og með 30. júní 2024. Enn fremur gilda lögin um stuðning við starfsfólk vegna launataps geti það af sömu ástæðu ekki gegnt störfum sínum á sama tímabili og fær ekki greidd laun frá atvinnurekanda þrátt fyrir að ráðningarsamband sé til staðar. Þá gilda lögin um stuðning við sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna launataps geti þeir af sömu ástæðu ekki gegnt störfum sínum á sama tímabili.“

Samkvæmt 2. gr. er markmið laganna að vernda afkomu fólks, sem ekki getur gegnt störfum sínum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ þar sem starfsstöð þess er staðsett í sveitarfélaginu, með því að tryggja launagreiðslur til viðkomandi upp að ákveðnu hámarki. Jafnframt er markmið laganna að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks.

Í 5. gr. laganna er fjallað um skilyrði fyrir stuðningi vegna starfsfólks. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. er heimilt að veita starfsfólki tímabundinn stuðning vegna launataps upp að ákveðnu hámarki, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögunum, þrátt fyrir að það hafi ekki fengið greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda. Skilyrði fyrir stuðningi er að ráðningarsamband sé til staðar og að starfsfólkið hafi ekki getað gegnt störfum sínum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ þar sem starfsstöð þess er staðsett í sveitarfélaginu enda liggi starfsemi á starfsstöðinni niðri, að hluta eða öllu leyti, vegna náttúruhamfaranna.

Í gögnum málsins liggur fyrir að kærandi starfaði hjá fyrirtækinu C sem er með starfsstöð í Grindavíkurbæ. Óumdeilt er að starfsemi fyrirtækisins lá niðri að minnsta kosti að hluta til og að kærandi hafi ekki getað gegnt störfum sínum vegna náttúruhamfara í sveitarfélaginu. Þá liggur fyrir að launagreiðslur til kæranda voru felldar niður þann 7. febrúar 2024. Því er ljóst að kærandi uppfyllir skilyrði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 87/2023.

Í 8. gr. laga nr. 87/2023 er fjallað um stuðning við einstaklinga. Ákvæði 1. mgr. 8. gr. er svohljóðandi:

„Stuðningur á grundvelli 2. mgr. 5. gr. eða 6. gr. skal taka mið af meðallaunum viðkomandi og/eða meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af, eftir því sem við á, á tímabilinu frá ágúst til október 2023. Vinnumálastofnun ráðstafar 4% af stuðningnum til lífeyrissjóðs viðkomandi einstaklings.“

Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 87/2023, segir meðal annars um 8. gr.:

„Lagt er til að stuðningur við starfsfólk og sjálfstætt starfandi einstaklinga á grundvelli 2. mgr. 5. gr. eða 6. gr. skuli taka mið af meðallaunum viðkomandi og/eða meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af, eftir því sem við á, á tímabilinu frá ágúst til október á þessu ári. Hafi starfsfólk ekki átt rétt á launagreiðslu nema að hluta á framangreindu tímabili, svo sem vegna fæðingarorlofs, er gengið út frá því að Vinnumálastofnun sé heimilt að reikna út meðallaun viðkomandi á grundvelli þeirra mánaða sem hlutaðeigandi starfsfólk fékk greidd laun frá atvinnurekanda á tímabilinu ágúst til og með október 2023. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en einn við útreikning á meðallaunum.  Til meðallauna teljast einungis þau laun sem einstaklingur fékk greidd á umræddu tímabili frá þeim atvinnurekanda sem stöðvað hefur launagreiðslur til viðkomandi vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ þar sem starfsstöð viðkomandi er staðsett í sveitarfélaginu.“

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi engin laun greidd frá C á tímabilinu ágúst til október 2023 og var umsókn hans synjað á þeim grundvelli. Vinnumálastofnun hefur vísað til framangreindra athugasemda með ákvæði 8. gr. í frumvarpi til laga nr. 87/2023 um að til meðallauna teljist einungis þau laun sem einstaklingur hafi fengið greidd á tímabilinu ágúst til október 2023 frá þeim atvinnurekanda sem stöðvað hefur launagreiðslur til viðkomandi.

Af texta ákvæðis 8. gr. laga nr. 87/2023 verður ekki ráðið að útreikningur á meðallaunum þess sem fellur undir ákvæði 5. gr. laganna skuli einungis vera byggður á þeim launum sem viðkomandi fékk frá þeim atvinnurekanda sem stöðvað hefur launagreiðslur, þ.e. að það þurfi að vera um sama atvinnurekanda að ræða. Ákvæðið er hins vegar skýrt hvað varðar tímabilið sem skal miða við og að á því tímabili þurfi viðkomandi að hafa fengið greidd laun sem greitt hefur verið tryggingagjald af.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi fékk greidd laun frá öðru fyrirtæki á tímabilinu ágúst til október 2023, eða D. Að mati úrskurðarnefndar gengur það þvert gegn ákvæði 8. gr. laga nr. 87/2023, gildissviði og markmiðum þeirra að leggja ekki þau laun til grundvallar við mat á umsókn kæranda um stuðning vegna launataps.

Að því virtu er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ á grundvelli 8. gr. laga nr. 87/2023, felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. mars 2024, um að synja umsókn A um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta