AGS leiðréttir mat á stöðu stuðningsaðgerða vegna Covid-19 – Ísland í hópi grænna ríkja
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur leiðrétt upplýsingar sem sjóðurinn birti á dögunum um samanburð á umfangi stuðningsaðgerða ríkja vegna Covid-19. Í uppfærðum upplýsingum kemur fram að umfang aðgerðanna nemi 9,2% af vergri landsframleiðslu og sé þannig það hæsta á Norðurlöndunum.
Ísland er því í hópi „grænna“ ríkja þar sem umfang stuðningsaðgerða er á bilinu 7,5-10% af vergri landsframleiðslu, en þar undir falla m.a. ríki á borð við Danmörku, Belgíu, Frakkland, Ítalíu og Spán.
Í fyrri tölum var hlutfallið hér á landi sagt vera 2,1%, en skekkjan leiddi m.a. af því að aðeins var horft til nokkurra aðgerða, einkum hlutabóta, greiðslu launa á uppsagnarfresti og útgjalda innan heilbrigðiskerfisins. Þá náði samantektin aðeins til ársins 2020 en ekki til ársins í ár og þeirra næstu, ólíkt því sem átti við um önnur lönd og ætlunin var með gagnagrunninum.
Í uppfærðum gagnagrunni hefur verið tekið tillit til ýmissa veigamikilla stuðningsaðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til vegna heimsfaraldursins, sem ekki komu fram í fyrri samantekt. Þar má nefna fjárfestinga- og uppbyggingarátak, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Þá voru aukin framlög til ýmissa félagslegra málefna ekki talin með og ekki aukinn stuðningur við rannsóknir og þróun.
Enn fremur var ekki tekið tillit til lækkunar ýmissa skatta og gjalda sem eru hluti af stuðningsaðgerðum stjórnvalda, þ.m.t. lækkun og niðurfelling tiltekinna gjalda í ferðaþjónustu. Jafnframt hefur ríkissjóður ábyrgst lán til fyrirtækja, sem gagnagrunnur AGS náði ekki til.
Árangurinn óvíða meiri
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Það er mikilvægt að þessi leiðrétting sé komin fram, enda gaf fyrri samantekt ekki rétta mynd af stöðunni. Í leiðréttum gagnagrunni kemur fram að óvíða hafa verið tekin stærri skref í að bregðast við efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldursins.
Auk þessara aðgerða hafa sjálfvirkir sveiflujafnarar ríkisfjármálanna og aðrar hagstjórnaraðgerðir varið lífskjör hér á landi. Árangurinn sést best á því að ráðstöfunartekjur heimilanna eru taldar hafa aukist árið 2020 þrátt fyrir faraldurinn og innlend eftirspurn dróst aðeins saman um 1,9%, sem er með minnsta samdrætti á meðal Evrópuríkja.“
Yfirlit yfir COVID-19 ráðstafanir 2020 og 2021, ma.kr. |
2020 |
2021 |
---|---|---|
Tekjur |
-0,9 |
-22,0 |
Aukin endurgreiðsla VSK, v/framkvæmda |
-4,7 |
-11,9 |
Afturfæranlegt tap tekjuskatts lögaðila |
-1,0 |
- |
Niðurfelling gistináttaskatts |
-0,3 |
-0,8 |
Niðurfelling tollafgreiðslugjalds |
-0,2 |
-0,4 |
Heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar |
5,3 |
0,8 |
Lækkun bankaskatts, flýting |
- |
-5,7 |
Lækkun tryggingagjalds skv. yfirlýs. 29. sept. |
- |
-4,0 |
Gjöld |
88,0 |
82,0 |
Atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli |
23,4 |
6,0 |
Fjárfestingarátak 2021-2023 |
15,1 |
30,0 |
Greiðsla hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti |
12,1 |
- |
Annar kostnaður vegna COVID-19 |
10,6 |
5,8 |
Ýmis félags- og heilbrigðismál |
5,7 |
3,6 |
Ráðgjöf og Náms- og starfsúrræði |
5,0 |
6,2 |
Barnabótaauki |
3,1 |
- |
Markaðsátak innanlands og erlendis |
3,0 |
- |
Mótvægisaðgerðir til sveitarfélaga skv. yfirlýsingu |
2,1 |
- |
Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar |
2,1 |
- |
Framlenging á tekjutengdan atvinnuleysisbótarétt |
2,1 |
1,5 |
Stuðningur við nýsköpun og þróun |
1,4 |
2,5 |
Styrkur vegna lokunar |
1,0 |
0,6 |
Framlag vegna bóluefnis gegn COVID-19 |
0,9 |
1,4 |
Greiðslur launa í sóttkví |
0,4 |
0,2 |
Tekjufallsstyrkir/ Viðspyrnustyrkir |
0,0 |
19,8 |
Ýmsar tillögur/ aðgerðir 2021 |
- |
2,4 |
Sérstök hækkun atvinnuleysisbóta 2021 |
- |
2,0 |
Samtals |
88,9 |
104,0 |
% af VLF |
3,0% |
3,3% |