Hoppa yfir valmynd
29. maí 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 29. maí 2009

Mætt: Lára Björnsdóttir (LB) formaður, Guðrún Björk Bjarnadóttir (GBB), tiln. af SA, Guðrún Sigurjónsdóttir (GS), tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Kristján Sturluson (KS), tiln. af Rauða krossi Íslands, Páll Ólafsson (PÓ), tiln. af Bandalagi háskólamanna, Stefán Stefánsson (StSt), tiln. af menntamálaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir (SKV), tiln. af Reykjavíkurborg, Vilborg Oddsdóttir (VO), tiln. af Biskupsstofu, og Ingibjörg Broddadóttir (IB) starfsmaður.

1. Staða barna í Reykjavík

Gestir fundarins voru Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri Reykjavíkurborgar og formaður teymisins Börnin í borginni og Jóhanna Marteinsdóttir starfsmaður teymisins. Hlutverk teymisins er að fylgjast með líðan barna og starfsfólks í leikskólum, grunnskólum og í frístundastarfi á vegum Reykjavíkurborgar, leita leiða til að minnka og hafa áhrif á vanlíðan vegna álags og streitu, fylgjast með tölulegum upplýsingum sem gefa vísbendingar um breytta fjárhagsstöðu heimilanna og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem koma að málefnum barna og unglinga í borginni. Í teyminu sitja aðilar frá Menntasviði, Leikskólasviði, Velferðarsviði, Íþrótta- og tómstundasviði, Mannréttindaskrifstofu og Menningar- og ferðamálasviði auk fulltrúa skólastjóra, kennara og foreldra. Þetta kom fram í máli gestanna:

Almennt er gott ástand í grunnskólum borgarinnar sem eru 45 talsins. Þungu málin þyngjast og ástandið er nokkuð misjafnt eftir hverfum. Vanskil foreldra vegna greiðslna fyrir máltíð í hádegi eru fátíð eða vegna 130 barna og eru það minni vanskil en í góðærinu. Rúmlega 1% barna hefur hætt að kaupa máltíð í hádegi og er það innan eðlilegra sveiflna, en alls kaupa um 11 þúsund börn máltíð í hádeginu af rúmlega 14 þúsund grunnskólabörnum. Hafragrautur er boðinn sjö eða átta skólum og verða allir skólarnir hvattir til að bjóða graut á morgnana í samræmi við tillögu ungmennaráðs Reykjavíkur og hvatningu frá menntaráði. Ekki er mælanleg aukning á viðtalsbeiðnum hjá námsráðgjöfum og skólahjúkrunarfræðingum.

Teymið er að undirbúa tillögu til borgarráðs um sérstakar aðgerðir fyrir börn atvinnulausra, en um 2.500 börn í Reykjavík eiga atvinnulaust foreldri og af þeim eru um 850 þar sem báðir foreldrar eru atvinnulausir. Áhersla verður lögð á að skerða ekki félagsstörf á miðstigi og unglingastigi í grunnskólunum.

Vel gengur í leikskólum borgarinnar og ekki er merkjanlegur „krepputengdur órói“. Leikskólarnir tilkynna mun síður en grunnskólarnir til barnaverndarnefndar. Í nýlegri vinnustaðagreiningu hjá Leikskólum borgarinnar kom fram að starfsmenn hafa „aldrei verið ánægðari“. Þá er innheimta leikskólagjalda ekki verri en árið 2007. Ekki er enn ljóst hvaða áhrif hækkun leikskólagjalda fyrir lengri dvöl en 8 tíma muni hafa, en aukning uppsagna á leikskólaplássum hefur ekki komið fram undanfarið.

Börnum hefur fækkað um 170 á frístundaheimilumborgarinnar og dögum hefur einnig fækkað, en alls sækja um 2.500 börn frístundaheimilin sem eru í umsjá Íþrótta- og tómstundasviðs. Einkum hefur börnum fækkað á tveimur heimilum í Efra-Breiðholti og á heimili í tengslum við Austurbæjarskóla og má rekja það til bágs fjárhags foreldra. Skuldir hafa hlaðist upp vegna um það bil 100 barna og er ekki gengið hart eftir greiðslum.
Umræða hefur verið innan borgarkerfisins vegna atvinnumöguleika ungs fólks, 17–19 ára, í sumar. Mun fleiri hafa sótt um störf á vegum borgarinnar á þessum aldri en í fyrra og hittifyrra, árið 2007 sóttu 2.300 um og 1.300 ráðin, 2008 sóttu 2.200 um og 1.400 ráðin og 2009 sóttu 3.400 um og 1.240 ráðin. Rætt um mikilvægi þess að unga fólkið hafi eitthvað fyrir stafni og slæmt að sú staða komi upp að ungmenni 18–19 hafi ekki aðra möguleika en að sækja um fjárhagsaðstoð til sveitarfélagsins.

2. Atvinnumöguleikar framhaldsskólanema

Á fundinn kom Ómar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Samtaka íslenskra framhaldsskólanema (SÍF), en samtökin hafa miklar áhyggjur af atvinnumálum nemanna á komandi sumri. Ómar kynnti niðurstöður könnunar sem gerð var meðal framhaldsskólanema 7.–19 apríl síðastliðinn. Um 3.000 svör bárust eða 10%. Fram kom að 73% töldu frekar miklar eða mjög miklar líkur á að þau fengju vinnu í sumar. Ómar taldi á hinn bóginn líklegt að þessar tölur hafi breyst til hins verra frá því ungmennin svöruðu. Hringt sé milli 40–100 sinnum á dag í Hitt húsið vegna atvinnumála og margir greina frá því að þeir hafi talið sig vera komna með vinnu sem ekkert hafi orðið úr. Samstarf er milli Hins hússins, Rauða kross Íslands og SÍF varðandi úrræði og atvinnuleit. Meðal annars hefur verið rætt um: a) Sumarskóla þar sem háskólanemar kenni undir handleiðslu háskólakennara og farið yrði eftir módeli frá Fjölbraut í Breiðholti, en húsnæði Tækniskóla Íslands notað, b) örnámskeið 4–5 daga og c) sjálfboðaliðastörf í samstarfi við RKÍ. Samþykkt að StSt kanni hjá menntamálaráðuneyti hvort velferðarvaktin gæti komi að sumarskólanum, hugsanlega með því að styrkja verkefnið fjárhagslega.

3. Ályktun um stöðu barna í ljósi aukningar barnaverndartilkynninga

Lögð fram til umræðu drög að ályktun stýrihópsins um stöðu barna í ljósi aukningar barnaverndartilkynninga á undanförnum mánuðum. SKV greindi frá að ekki hafi dregið úr tilkynningunum til barnarverndarnefndar Reykjavíkur og væri aukningin í apríl síðastliðnum svipuð og hún var í janúar til mars. Samþykkt að milda orðalag í 2. mgr. og senda ályktunina síðan til stýrihópsins til samþykktar.

4. Önnur mál

Samþykkt að formenn vinnuhópanna verði boðaðir til samráðsfundar í næstu viku.

Næsti fundur stýrihópsins verður föstudaginn 12. júní 2009 kl. 13.15–15.15.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta