Drög að gjaldskrá vegna bakgrunnsskoðana til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að gjaldskrá fyrir framkvæmd bakgrunnsathugunar eða bakgrunnsskoðunar lögreglu á einstaklingi og útgáfu öryggisvottunar. Unnt er að senda athugasemdir til ráðuneytisins til og með 22. júní á netfangið [email protected].
Gjaldskráin er sett með stoð í 34. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, með síðari breytingum en á Alþingi hefur verið samþykkt breyting á lögunum þess efnis að heimilt sé að leggja á gjöld sem ætlað er að standa undir kostnaði við vinnu lögreglu vegna bakgrunnsathugunar á einstaklingi og útgáfu öryggisvottunar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Við ákvörðun gjalda er heimilt að leggja til grundvallar kostnað vegna vinnu við stofnun og skráningu máls, úrvinnslu gagna, skoðunar, skráningar og vöktunar í skráningarkerfum lögreglu eða öðrum gagnagrunnum og stjórnsýslulegrar meðferðar, svo sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Skilyrði gjaldtöku er að kveðið sé á um heimild til bakgrunnsathugunar í lögum. Ráðherra staðfestir gjaldskrá þjónustunnar. Gjaldskráin skal birt með tryggum hætti þar sem m.a. er kveðið nánar á um fjárhæð gjalds, sundurliðun þess ef við á og innheimtu.
Gert er ráð fyrir því í gjaldskránni að umsækjandi bakgrunnsskoðunar, þ.e. vinnuveitandi einstaklings, sem starfa sinna vegna þarfnast bakgrunnsskoðunar lögum samkvæmt, þurfi að greiða sem nemur 5.000 kr. fyrir hverja umsókn. Um er að ræða þjónustugjald sem greitt er á grundvelli kostnaðarmats á þeirri vinnu sem lögreglan þarf að inna af hendi til grundvallar bakgrunnsskoðunar og útgáfu öryggisvottunar eftir atvikum.
Undanþegnir gjaldskyldu samkvæmt framangreindu eru starfsmenn lögreglu, slökkvi- og sjúkraliðs, Landhelgisgæslu Íslands og ríkissaksóknara auk þeirra einstaklinga sem þarfnast bakgrunnsskoðunar á grundvelli varnarmálalaga.
Þeir aðilar sem þurfa að óska eftir bakgrunnsskoðun lögreglu í gegnum þriðja aðila, svo sem Isavia, skulu greiða gjaldið til Isavia, sem ber ábyrgð á að skila því til lögreglu, samhliða því að umsókn er send henni. Þeir aðilar sem óska eftir bakgrunnsskoðun beint til lögreglu, skulu greiða gjaldið til lögreglu þegar umsókn um bakgrunnsskoðun er lögð fram, nema annað sé tekið fram.