Hoppa yfir valmynd
18. júní 2012 Dómsmálaráðuneytið

Sýning á tillögum um nýtt fangelsi opnuð á Háskólatorgi 20. júní

Sýning á tillögum sem bárust í hugmyndasamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði verður opnuð á Háskólatorgi miðvikudaginn 20. júní. Dómnefnd bárust alls 18 tillögur og bar tillaga Arkís arkitekta sigur úr býtum.

Tillaga Arkís arkiteka að nýju fangelsi.
Nýtt fangelsi mun rísa á Hómsheiði í Reykjavík.

Innanríkisráðuneytið bauð í ársbyrjun til opinnar hugmyndasamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík. Af tillögunum sem bárust voru átta frá innlendum aðilum og tíu tillögur erlendis frá. Fyrstu verðlaun í samkeppninni fékk tillagan frá Arkís arkitektum, önnur verðlaun hlaut tillaga frá Arkitektur.is og þriðju verðlaun fékk tillaga frá Teiknistofunni Tröð ehf.

Nýja fangelsið verður með 56 fangarýmum og á að leysa af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og fangelsi í Kópavogi en báðum þessum fangelsum verður lokað þegar hið nýja verður tekið í gagnið. Þá er og gert ráð fyrir að gæsluvarðhaldsdeild á Litla-Hrauni verði lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun. Gert er ráð fyrir að hönnun byggingarinnar og útboðsgögn verði tilbúin vorið 2013 og í kjölfarið geti framkvæmdir hafist. Vorið 2015 er stefnt að því að ljúka framkvæmdum og taka bygginguna í notkun.

Í dómnefnd sátu Steinunn Valdís Óskarsdóttir formaður og sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, Páll Winkel fangelsismálastjóri skipaður af ráðherra, Pétur Örn Björnsson arkitekt skipaður af ráðherra og tilnefnd af hálfu Arkitektafélags Íslands Gylfi Guðjónsson og Hildur Gunnarsdóttir arkitektar.  

Sýningin á Háskólatorgi mun standa frá 20.-27. júní.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta