Nr. 931/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 25. september 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 931/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU24050126
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 15. maí 2024 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Úganda ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2024, um að synja umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. e-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt ótímabundið dvalarleyfi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar 12. september 2019, sbr. 1. mgr. 73. gr. laga um útlendinga, með gildistíma til 12. september 2023. Leyfið hefur verið endurnýjað einu sinni, með gildistíma til 20. október 2027. Hinn 8. ágúst 2023 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2024, var kæranda synjað um ótímabundið dvalarleyfi, með vísan til þess að hann ætti ólokið mál í refsivörslukerfinu, þar sem hann væri grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi, sbr. e-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 15. maí 2024. Ákvörðunin var kærð til kærunefndar útlendingamála samdægurs. Með tölvubréfi, dags. 3. júní 2024, lagði kærandi fram frekari gögn vegna kærumálsins. Með tölvubréfi, dags. 3. september 2024, óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um það hvort kærandi ætti ólokið mál í refsivörslukerfinu. Í svari frá lögreglunni, dags. 12. september 2024, kom fram að ekki yrði séð að kærandi eigi ólokin mál í refsivörslukerfinu.
III. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi lagði ekki fram greinargerð vegna málsins en með tölvubréfi dags. 3. júní 2024, lagði kærandi fram afrit af bréfi lögreglu þar sem fram kæmi að rannsókn sakamáls á hendur honum hefði verið hætt.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Eins og að framan greinir hefur kærandi dvalið hér á landi samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis frá 12. september 2019, sbr. 3. mgr. 73. gr. laga um útlendinga.
Frekari skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. tilgreind í stafliðum a-e í 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt e-lið er það skilyrði að útlendingur eigi ekki ólokið mál í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, dags. 12. september 2024, á kærandi ekki ólokið mál í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Samkvæmt framansögðu kemur e-liður 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga því ekki í veg fyrir að kæranda verði veitt ótímabundið dvalarleyfi. Í hinni kærðu ákvörðun var ekki tekin afstaða til annarra skilyrða 58. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares