Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 210/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 210/2024

Fimmtudaginn 22. ágúst 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. maí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. maí 2024, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 3. apríl 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. maí 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hjá fyrrum vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi ákvörðunarinnar með beiðni, dags. 6. maí 2024, sem veittur var með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2024. Mál kæranda var einnig tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun í kjölfar skýringa frá honum. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 13. maí 2024, var fyrri ákvörðun staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. maí 2024. Með bréfi, dags. 15. maí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 12. júní 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. júní 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 24. júní 2024 og voru kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. júní 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að áður en hann hafi hafið störf sem framkvæmdastjóri hjá B hafi honum verið tilkynnt að fjárhagsstaða félagsins væri góð, laun framkvæmdastjóra myndu hækka að nokkrum mánuðum liðnum ásamt því að hann fengi fullt umboð til að stýra rekstri félagsins með eðlilegum hætti.

Þegar kærandi hafi hafið störf hafi slæm fjárhagsstaða félagsins komið í ljós. Nægir fjármunir hafi ekki verið fyrir hendi til að greiða laun ásamt því að félagið hafi skuldað skammtímakröfur upp á tugi milljóna króna langt aftur í tímann. Samhliða því hafi félagið ekki verið að greiða starfsfólki þess yfirvinnukaup og álag samkvæmt kjarasamningsbundnum réttindum þess. Kærandi hafi ómögulega getað vitað af þeirri stöðu fyrir fram þar sem ársreikningar félagsins væru ekki aðgengilegir hjá fyrirtækjaskrá.

Kærandi hafi talið nauðsynlegt í ljósi stöðunnar að ráðast í aðhalds- og skipulagsbreytingar til þess að snúa við slæmum rekstri félagsins ásamt því að bæta úr starfskjörum starfsfólks. Þær hugmyndir hafi fallið í grýttan jarðveg hjá formönnum deilda félagsins og fleiri hagsmunaaðilum. Kröfur félagsins hafi verið þær að vinna sem flesta titla og auka leikmannakaup enn frekar. Kærandi hafi í raun haft lítið um það að segja hvaða fjármunum væri ráðstafað í leikmannakaup og ýmsan kostnað sem hefði fallið til í starfsemi félagsins.

Í viðleitni kæranda til að bæta afkomu félagsins og rekstur þess hafi hann mátt þola ýmsar ásakanir og rógburð sem hafi borist til stjórnar félagsins. Stjórn félagsins hafi aldrei upplýst kæranda um hverjar þær ásakanir væru eða hvaðan þær kæmu. Þá hafi stjórn félagsins aldrei veitt kæranda það umboð sem hann hafi þurft til að geta sinnt starfi sínu sem skyldi. Því hafi starfsumhverfi kæranda verið óviðunandi að öllu leyti. Í ljósi framangreinds hafi kærandi engan annan kost haft en að segja starfi sínu lausu hjá B. Kærandi hafi talið ljóst að hann gæti ekki sinnt starfi sínu og þeirri ábyrgð sem framkvæmdastjóra bæri að gera lögum samkvæmt.

Í athugasemdum vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar bendir kærandi á að hann hafi verið ráðinn sem framkvæmdastjóri félagsins á fölskum forsendum og að hann hefði ekki tekið starfinu hefði hann vitað um raunverulega stöðu félagsins. Kærandi hafi leitað til stjórnarformanns og stjórnar til þess að leita allra leiða til að bæta afkomu og rekstur félagsins en það hafi skilað litlum árangri.

Kærandi hafi formlega sagt upp störfum þann 31. janúar 2024. Samningsbundinn uppsagnarfrestur hafi verið þrír mánuðir og hafi kærandi boðist til að vinna uppsagnarfrestinn. Áætluð starfslok hafi því verið þann 30. apríl 2024.

Kærandi hafi unnið hjá félaginu til 20. febrúar 2024 þegar stjórnarformaður þess hafi tilkynnt kæranda að starfskrafta hans væri ekki lengur óskað. Stjórnarformaður hafi viljað gera starfslokasamning sem kvæði á um tveggja mánaða uppsagnarfrest. Við það hafi kærandi ekki getað unað og hafi þriggja mánaða uppsagnarfrestur loks verið samþykktur af félaginu eftir aðkomu stéttarfélags og lögmanns kæranda.

Við síðustu launagreiðslu hafi kærandi einungis fengið helming launa sinna þar sem félagið hefði áætlað nítján veikindadaga á kæranda. Að mati kæranda hafi enginn fótur verið fyrir því, auk þess sem ekki hafi verið tekið tillit til áunninna veikindadaga og orlofs. Kærandi hafi þurft að leita til stéttarfélags að nýju sem hafi leitt til þess að hann hafi fengið endurgreitt vegna áunninna veikindadaga og orlofs. Full laun hafi þó aldrei skilað sér.

Mál þetta snúist fyrst og fremst um það hvort kærandi hafi haft „gildar ástæður“ til að segja starfi sínu lausu án þess að þurfa að sæta biðtíma eftir greiðslum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé hvergi að finna skýringu á því hvað teljist til gildra ástæðna. Hið sama eigi við um greinargerð sem fylgi frumvarpi til laganna. Það sé því alfarið í höndum Vinnumálastofnunar að meta og túlka hvað teljist til gildra ástæðna.

Kærandi geri athugasemdir við að í rökstuðningi Vinnumálastofnunar sé ekkert tillit tekið til þess að kærandi hafi verið æðsti yfirmaður félagsins, þ.e. framkvæmdastjóri þess, og allrar þeirrar ábyrgðar sem því fylgi lögum samkvæmt.

Vinnumálastofnun vísi til óánægju kæranda með vinnuumhverfið, sem hafi vissulega verið til staðar, en að mati kæranda séu málavextir mun alvarlegri en það. Vinnuumhverfið hafi verið með þeim hætti að kæranda hafi verið ómögulegt að sinna þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem fylgi því að vera framkvæmdastjóri í slíku félagi. Framkvæmdastjóra sé ekki stætt í starfi hafi hann ekki fullt umboð til að stýra daglegum rekstri félagsins þannig að fjármál þess séu í lagi og að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart starfsfólki sínu og kröfuhöfum.

Þá geri kærandi athugasemdir við eftirfarandi afstöðu Vinnumálastofnunar í greinargerð, dags. 12. júní 2024:

,,Þær skýringar sem kærandi hefur veitt Vinnumálastofnun á ástæðu uppsagnar hans í starfi voru að megin stefnu til vegna óánægju í starfi og deilur kæranda við stjórnendur um skipulagsbreytingar hjá félaginu. Í slíkum tilvikum hefur í framkvæmd verið gerð sú krafa til launamanna að þeir nýti sér öll tiltæk úrræði til úrbóta, svo sem að leita til síns stéttarfélags eða tryggja sér annað starf, áður en þeir ákveða að segja starfi sínu lausu. Fyrir liggur að kærandi tryggði sér ekki annað starf, áður en hann sagði starfi sínu lausu. Það er því afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.“

Í framangreindri niðurstöðu Vinnumálastofnunar sé ekkert tillit tekið til þeirra aðstæðna sem kærandi hafi búið við vegna ásakana og rógburðar sem hann hafi mátt sæta og hafi borist til stjórnar félagsins. Ljóst hafi verið að þessar ásakanir hafi verið alvarlegar en stjórnarformaður og stjórn félagsins hafi aldrei upplýst kæranda um hverjar þær væru eða hvaðan þær kæmu.

Umræddar ásakanir hafi legið þungt á kæranda sem hafi upplifað sig einan og einangraðan innan félagsins. Lögmaður kæranda hafi talið að kærandi ætti sér óvildarmenn innan félagsins sem hafi hreinlega viljað hann burt. Því væri mikilvægt að koma sér í burtu frá félaginu sem fyrst til þess að minnka líkur á orðsporshnekkjum sem skaðað gætu starfsframa kæranda til framtíðar.

Kærandi geri einnig athugasemdir við að skjal vanti í gögnum Vinnumálastofnunar sem hafi borist þann 18. apríl 2024 sem beri heitið „Frestun. Viðbótarfrestur. Ástæður starfsloka B27 ISL ENG.pdf“. Í því skjali segi orðrétt:

,,Það er mat Vinnumálastofnunar að í þeim tilvikum sem óánægja starfsmanns með launakjör eða vinnuumhverfi sitt er ástæða starfsloka, þurfi sá er hlut á í máli a.m.k. að hafa gert tilraunir til úrbóta með aðkomu yfirmanns á vinnustað, stéttarfélags síns og eftir atvikum Vinnueftirlitsins áður en hann tekur ákvörðun um að segja starfi sínu lausu.“

Hér séu upptalin þau atriði sem Vinnumálastofnun geri kröfu um að viðkomandi þurfi að hafa gert til að geta sagt starfi sínu lausu sé um að ræða óánægju starfsmanns með launakjör eða vinnuumhverfi. Hér sé þó óupptalið það sem síðar komi fram í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 12. júní 2024, að starfsmaður þurfi að hafa tryggt sér annað starf áður en hann ákveði að segja starfi sínu lausu. Að mati kæranda virðist það vera aðalástæða þess að hann þurfi að sæta biðtíma á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar.

Af túlkun Vinnumálastofnunar megi draga þá ályktun að sama hvað gangi á sé starfsmanni aldrei heimilt að segja starfi sínu lausu nema hann hafi tryggt sér annað starf. Því búi starfsmaður við algjöran ómöguleika til að segja upp starfi sínu við jafn ömurlegar aðstæður og kærandi hafi búið við. Að mati kæranda geti þetta ekki verið tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hafi gert allt sem í hans valdi hafi staðið til að leita leiða til úrbóta á stöðu sinni. Sem æðsti yfirmaður félagsins hafi hann reynt að leita til stjórnarformanns og stjórnar en án árangurs. Kærandi hafi jafnframt leitað til stéttarfélags og lögmanns til að reyna eftir bestu getu að stýra atburðarásinni sem farsællegast fyrir alla aðila en án árangurs.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 3. apríl 2024. Í umsókn hafi kærandi tilgreint að ástæða atvinnuleysis væri sú að hann hefði sjálfur sagt upp störfum hjá B. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi starfað hjá B á tímabilinu október 2023 til apríl 2024.

Kæranda hafi verið boðið að skila frekari skýringum vegna starfsloka hjá B með erindi, dags. 18. apríl 2024, og veittur sjö virkra daga frestur til þess. Í skýringum á starfslokum kæranda sem hafi borist 3. apríl 2024 hafi kærandi bent á margvíslegar ástæður sem hafi legið að baki uppsögninni. Kærandi hafi talið að í ljósi þess að fjárhagsstaða félagsins væri bágborin hafi hann sem framkvæmdastjóri þurft að grípa til aðhalds- og skipulagsbreytinga. Að sögn kæranda hafi ekki verið tekið vel í aðhaldskröfur sem hann hafi farið fram á að yrðu framkvæmdar. Kærandi hafi verið þeirrar skoðunar að starfsaðstæður hans hefðu gert það að verkum að hann hafi ekki getað sinnt starfi sínu með fullnægjandi hætti. Honum hafi verið nauðugur einn sá kostur að segja starfi sínu lausu.

Með erindi, dags. 2. maí 2024, hafi umsókn kæranda verið samþykkt. Með vísan til starfsloka kæranda hafi réttur hans til greiðslu atvinnuleysisbóta þó verið felldur niður í tvo mánuði, sbr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 6. og 7. maí 2024 hafi borist staðfesting frá stéttarfélagi kæranda ásamt frekari skýringum frá kæranda á ástæðum starfsloka hans hjá B. Í erindi frá stéttarfélagi kæranda, Sambandi stjórnendafélaga, STF, komi fram að kæranda hafi verið nauðugur einn sá kostur að segja starfi sínu lausu. Í skýringum kæranda liggi jafnframt fyrir að hann hafi fengið þær ráðleggingar frá lögmanni að segja starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri hjá B til að koma í veg fyrir orðsporshnekki.

Þann 13. maí 2024 hafi kæranda verið sent erindi þar sem honum hafi verið tilkynnt að fyrri ákvörðun stofnunarinnar í máli hans væri staðfest þrátt fyrir að frekari gögn og skýringar á starfslokum hefðu borist. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 13. maí 2024. Rökstuðningur kæranda í kæru sé efnislega samhljóma þeim skýringum sem hann hafi þegar veitt Vinnumálastofnun.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um þau tilvik þegar starfi sé sagt upp án gildra ástæðna. Þar segi orðrétt:

,,Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á.“

Orðalagið ,,gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik hafi verið talin falla þar undir. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að með ákvæði þessu sé verið að undirstrika það markmið vinnumarkaðskerfisins að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í ljósi þess sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þar sem annað starf sé ekki í boði. Þar sé jafnframt sérstaklega tekið fram að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður, sem liggi að baki uppsögn, séu gildar, þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Í ljósi þess að um matskennda ákvörðun sé að ræða sé Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggi falli að umræddri reglu. Vinnumálastofnun beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir bótum.

Fyrir liggi að kærandi hafi sagt upp störfum sínum hjá B. Ágreiningur snúi að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögninni teljist gildar í skilningi ákvæðis 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi í fyrri úrskurðum sínum talið að almennt beri að gera ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið sé hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna.

Þær skýringar sem kærandi hafi veitt Vinnumálastofnun á uppsögn hans hafi verið að meginstefnu til vegna óánægju í starfi og deilur kæranda við stjórnendur um skipulagsbreytingar hjá félaginu. Í slíkum tilvikum hafi í framkvæmd verið gerð sú krafa til launamanna að þeir nýti sér öll tiltæk úrræði til úrbóta, svo sem að leita til síns stéttarfélags eða tryggja sér annað starf áður en þeir ákveði að segja starfi sínu lausu. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki tryggt sér annað starf áður en hann hafi sagt starfi sínu lausu.

Það sé því afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar kærandi hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun án bóta í tvo mánuði.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður hans fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið er hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi hefur gefið þær skýringar að hann hafi sagt upp starfi sínu vegna óviðunandi starfsumhverfis, auk þess sem hann hafi ekki getað sinnt starfi sínu sem framkvæmdastjóri sem skyldi. Þá hafi hann mátt þola ásakanir og rógburð í viðleitni sinni til að bæta afkomu og rekstur félagsins. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að af gögnum málsins verði ekki séð að kærandi hafi nýtt sér öll tiltæk úrræði til úrbóta, svo sem með því að tryggja sér annað starf áður en hann sagði starfi sínu lausu hjá félaginu.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki séð að kæranda hafi verið fyrirmunað að sinna sínum starfsskyldum hjá B. Þá telur nefndin málefnalegt að gera þá kröfu til launþega að þeir segi ekki upp starfi sínu nema við ýtrustu nauðsyn þegar annað starf er ekki í hendi. Að mati nefndarinnar liggur slíkt ekki fyrir í tilviki kæranda og er því ekki um að ræða gildar ástæður fyrir uppsögn í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi átti því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar hans um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. ákvæðisins.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði er, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. maí 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta