Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 50/2013

Þriðjudaginn 11. febrúar 2014


A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 29. nóvember 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 28. nóvember 2013. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. nóvember 2013, þar sem umsókn hans um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi var synjað.  

Með bréfi, dags. 4. desember 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 9. desember 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. desember 2013, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með ódagsettu bréfi þann 23. desember 2013.

 

I. Málsatvik.

Kærandi er nemi í B-fræði við Háskóla Íslands. Þann Y. janúar 2013 eignaðist kærandi barn og sótti um fæðingarstyrk námsmanna vegna þess. Kæranda var synjað um fæðingarstyrk námsmanna með bréfum, dags. 10. og 17. október og 15. nóvember 2013, á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um fullt nám á haustönn 2012.  

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hann sé háskólanemi og hafi eignast barn þann Y. janúar 2013. Kærandi hafi sótt um fæðingarstyrk námsmanna en verið synjað á þeim forsendum að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði um fullt nám á haustönn 2012. Sú synjun hafi verið byggð á röngum upplýsingum, þ.e. að kærandi hafi einungis lokið 6 ECTS-einingum á önninni. Kærandi hafi leiðrétt það, en hann hafi lokið 16 ECTS-einingum á önninni. Þrátt fyrir það hafi kæranda á ný verið synjað þar sem 16 ECTS-einingar teljist ekki til fulls náms í skilningi laganna.

Maki kæranda hafi kannað hvort unnt væri að sækja um undanþágu frá framangreindu skilyrði þar sem kærandi sé lesblindur. Maki kæranda hafi fengið þær upplýsingar að til séu dæmi um slíkar undanþágur og sendi kærandi inn staðfestingu á lesblindunni frá viðurkenndum greiningaraðila ásamt staðfestingu frá skóla kæranda að kærandi ætti rétt á undanþágu. Einnig hafi kæranda verið ráðlagt að samþykkja lægri fæðingarstyrkinn og fengi hann undanþáguna yrði fjárhæðin leiðrétt.

Kærandi hafi sent umbeðin gögn til Fæðingarorlofssjóðs en þrátt fyrir það hafi kæranda verið synjað um fæðingarstyrk námsmanna á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki verið í fullu námi og sýnt viðunandi námsframvindu í að minnsta kosti sex mánuði af síðustu tólf fyrir fæðingu barnsins.

Kærandi sé ósáttur við að sjóðurinn taki ekki tillit til námsörðugleika kæranda við úthlutun fæðingarstyrkja námsmanna. Kærandi hafi verið skráður í fullt nám síðustu tólf mánuði fyrir fæðingu barnsins og lokið fullu námi í fimm mánuði af þeim tólf, þ.e. á vorönn 2012. Á haustönn 2012 hafi kærandi verið skráður í fullt nám en fallið í einum áfanga. Kærandi hafi fengið námslán fyrir önnina þar sem Lánasjóður íslenskra námsmanna veiti undanþágu frá úthlutunarreglum vegna lesblindu.

Hvergi sé minnst á viðmið um námsárangur í reglum Fæðingarorlofssjóðs eða í lögum heldur sé einungis talað um að vera skráður í 75-100% nám með viðunandi námsárangri. Kærandi líti svo á að hann hafi náð viðunandi námsárangri með því að ljúka 16 einingum á fyrstu önn sinni í háskóla með lesblindu. Kærandi telji að við mat á hvað teljist viðunandi verði að taka mið af aðstæðum hvers og eins því eins og gefi að kynna geti það sem einum nemenda fundist auðvelt verið öðrum nemanda ofviða, til dæmis vegna leshömlunar.

Þá bendir kærandi á að samkvæmt reglum um skyldubundið mat stjórnvalda verði þau að meta og taka ákvörðun sem best hentar hag hvers aðila með tilliti til allra aðstæðna. Aðstæður kæranda séu þær að hann fái synjun um fæðingarstyrk námsmanna vegna leshömlunar sinnar sem geri það að verkum að mun erfiðara sé fyrir kæranda að sjá um tíu mánaða gamlan son sinn. Kærandi geti ekki séð að hag sínum eða barns hans verði betur borgið við að fá synjun á fæðingarstyrk.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með umsókn, dags. 28. september 2012, hafi kærandi sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi vegna fæðingar barns þann Y. janúar 2013.

Með umsókn kæranda hafi fylgt námsferilsáætlun frá D-framhaldsskóla, þrjú námsferilsyfirlit frá Háskóla Íslands, bréf frá náms- og starfsráðgjafa Háskóla Íslands, dags. 5. nóvember 2013, bréf frá kæranda, dags. 11. nóvember 2013, tölvupóstur frá kæranda, dags. 22. október 2013, mat á lestrarerfiðleikum, dags. 21. maí 2012, og mat á lestri og stafsetningu með GRP 14h. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands.

Með bréfum Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. og 17. október og 15. nóvember 2013, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.), eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75-100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda fæddist þann Y. janúar 2013 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. janúar 2012 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsáætlun frá D-framhaldsskóla hafi kærandi lokið 15 einingum á vorönn 2012. Þegar um sé að ræða nám við framhaldsskóla sé meginreglan sú að 18 einingar á önn teljist 100% nám og því teljist 13-18 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Kærandi hafi staðist kröfur um námsframvindu á vorönn 2012.

Samkvæmt námsferilsyfirlitum frá Háskóla Íslands hafi kærandi lokið 16 ECTS-einingum á haustönn 2012. Þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 ECTS-einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22-30 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl.

Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi hafi ekki uppfyllt almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í málinu liggi fyrir gögn sem staðfesta leshömlun (dyslexíu) hjá kæranda sem verði að telja að geti valdið honum erfiðleikum í námi eða námsörðugleikum. Í ffl. og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 1218/2008, sé að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám. Þar sé hins vegar ekki að finna neina undanþágu sem heimili að vikið sé frá skilyrðinu um fullt nám vegna framangreindra aðstæðna kæranda, sbr. til dæmis úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í sambærilegum málum nr. 50/2008, 32/2010 og 47/2010.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk og hafi hann verið afgreiddur með hann, sbr. greiðsluáætlun dags. 24. október 2013.

 

IV. Athugasemdir kæranda.

Kærandi ítrekar að hann hafi verið skráður í fullt nám á haustönn 2012, þ.e. 24 ECTS-einingar, en fullt nám á háskólastigi séu 22-30 ECTS-einingar. Á vef Fæðingarorlofssjóðs segi að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi eða annað sambærilegt nám. Leggja þurfi fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í að minnsta kosti 75% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Kærandi telji sig uppfylla framangreint skilyrði því hann hafi verið skráður í fullt nám, bæði á vor- og haustönn 2012 og Fæðingarorlofssjóður skilgreini ekki nákvæmlega hvað viðunandi námsárangur sé.

 

V. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni með bréfi, dags. 15. nóvember 2013.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl. segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda fæddist Y. janúar 2013. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því frá Y. janúar 2012 fram að fæðingu barnsins. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir framangreint skilyrði um fullt nám á vorönn 2012 og sýnt viðunandi námsárangur.

Ljóst er af gögnum málsins að kærandi lauk einungis 16 ECTS-einingum á haustönn 2012 en fullt nám er 22-30 ECTS-einingar. Kærandi byggir meðal annars á því að skilyrðið um að standast kröfur um námsframvindu sé hvergi skilgreint í ffl. eða öðrum reglum Fæðingarorlofssjóðs. Að mati úrskurðarnefndar er ljóst að með framangreindu skilyrði sé vísað til þess að foreldri þurfi að standast próf eða ljúka með öðrum hætti 75-100% námi á umræddu tímabili.

Skilyrði ffl. og reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 1218/2008, eru mjög ströng varðandi námsframvindu. Hvergi er þar að finna heimild til undanþágu vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í máli kæranda, þ.e. sökum lesblindu. Skyldubundið mat stjórnvalda nær ekki til þess að fara á svig við lög á grundvelli þess mats að það myndi henta þeim sem í hlut á hverju sinni.

Af þeim ástæðum og með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 15. nóvember 2013, um að synja kæranda, A um fæðingarstyrk námsmanna í fullu námi er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta