Hoppa yfir valmynd
6. mars 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 12/2013

Hinn 2. janúar 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 12/2013:

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 58/2009

Ákæruvaldið

gegn

X

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I.         Beiðni um endurupptöku

Með erindi dags. 13. maí 2013 óskaði X eftir endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 58/2009 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 28. maí 2009. Þann 9. mars 2013 tóku gildi lög nr. 15/2013 um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 15/2013 gilda þau um meðferð og afgreiðslu á beiðnum um endurupptöku mála sem borist höfðu Hæstarétti eftir 1. janúar 2013. Innanríkisráðuneytið kom erindi endurupptökubeiðanda á framfæri við nefndina 4. júní 2013. Erindið var kynnt ríkissaksóknara með bréfi dags. 25. september 2013 auk þess sem óskað var afrits af málsgögnum. Umbeðin gögn og athugasemdir bárust með bréfi dags. 14. október 2013. Frekari bréfaskipti urðu í kjölfarið af hálfu endurupptökubeiðanda og ríkissaksóknara sem lauk með bréfi ríkissaksóknara til endurupptökunefndar dags. 28. nóvember 2013.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.


II.        Málsatvik

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 58/2009 var endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni með því að hafa haft samræði við hana nokkuð reglulega um þriggja ára skeið, sbr. 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Endurupptökubeiðandi var dæmdur til að sæta fangelsi í átta ár og til greiðslu miskabóta.

III.      Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir á því að hann hafi verið ranglega sakfelldur þar sem brotið hafi verið á honum einkum með þeim hætti sem fjallað sé um í b-, c- og hugsanlega d-lið 211. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og því beri að endurupptaka málið fyrir Hæstarétti.

Hvað b-lið 211. gr. laga nr. 88/2008 áhrærir er á því byggt að lögregla hafi lagt miklu meiri áherslu á að sanna sekt endurupptökubeiðanda í stað þess að vinna að því að hið sanna og rétta kæmi í ljós. Lögregla hafi hunsað ábendingar endurupptökubeiðanda um rannsókn atriða sem að hans mati voru til þess fallin að varpa rýrð á trúverðugleika framburðar stjúpdóttur hans. Hann hafi látið lögreglu vita af smáskilaboðum í síma frá henni, sem gengið hafi þvert gegn þeim framburði hennar að hún hafi freistað þess að forðast hann um árabil, án þess að þau væru rannsökuð. Þá hafi hann vakið athygli á að hljóðbært væri milli herbergis hans og þess sem eiginkona hans svaf í án þess að það hafi verið rannsakað frekar. Með því hafi lögregla virt að vettugi hlutlægnisskyldu laga um meðferð sakamála, sbr. 53. gr. laganna, sem leggi þá skyldu á herðar lögreglu að gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar.

Þá er á því byggt af hálfu endurupptökubeiðanda að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess þannig að fullnægt væri skilyrði c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Bæði hafi verið litið framhjá vitnisburði sem var til þess fallin að kasta rýrð á trúverðugleika framburðar stúpdóttur endurupptökubeiðanda og eins hafi hlutræn gögn ekki stutt niðurstöðu dómsins. Vitni hafi borið um að stúlkan væri mjög undirförul og læknir sem framkvæmdi læknisfræðilega rannsókn á stúlkunni hafi ekki getað borið um kynhegðun stúlkunnar út frá þeirri rannsókn. Þá telji endurupptökubeiðandi nánast ómögulegt að stjúpdóttir hans hafi getað stundað kynlíf reglulega án þess að nokkur yrði þess var. Slíkt hefði verið í lófa lagið að upplýsa ef líf fjölskyldunnar hefði verið skoðað enda stúlkan aldrei það oft ein með karlmanni, hvorki með endurupptökubeiðanda né öðrum, að um reglulegt kynlíf gæti verið að ræða. Endurupptökubeiðandi greindi frá því að hann hefði gefið eðlilegar skýringar á öðru sem talin voru sönnunargögn í málinu. Þá gerði hann sérstaka athugasemd við ályktanir héraðsdóms um að hann teldist hafa kynferðislegar hneigðir til barna en sú ályktun styddist ekki við sérfræðilegt mat og ætti að auki ekki við rök að styðjast.

Þá telur endurupptökubeiðandi að auk ofangreindra ágalla hafi framganga verjenda hans leitt til verulegra galla á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess þannig að skilyrði séu til endurupptöku á grundvelli d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Fyrri verjandi hans hafi ekki kynnt sér gögn málsins áður en stjúpdóttir hans gaf skýrslu í Barnahúsi og þar af leiðandi ekki komið að mikilvægum spurningum. Þegar málið var rekið fyrir dómstólum hafi sá síðari gefið sér knappan tíma til að sinna því og meðal annars ekki kallað til vitni sem hefðu getað borið endurupptökubeiðanda í hag. Þá hafi verjandinn gefið sér takmarkaðan tíma til að hafa samband við endurupptökubeiðanda eftir að dómur héraðsdóms lá fyrir og hafi endurupptökubeiðandi frétt af dómsniðurstöðu Hæstaréttar í gegnum fjölmiðla. Að auki hafi verjandinn ekki sinnt vörninni sjálfur í Hæstarétti þegar málið var flutt fyrir réttinum.

Að mati endurupptökubeiðanda hafa dómstólar látið undan þrýstingi samfélagsins um minni sönnunarkröfur í kynferðisbrotamálum en áður. Svo mjög í hans tilviki að brotið hafi verið gegn þeirri grundvallarreglu að hver maður sem borinn er sökum skuli teljast saklaus þar til sekt hans hafi verið sönnuð. Endurupptökubeiðandi vísar í þeim efnum til 2. mgr. 70. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, auk þess sem vísað er til mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var 10. desember 1948.

IV.      Athugasemdir ríkissaksóknara

Í athugasemdum sem ríkissaksóknari kom á framfæri við endurupptökunefnd var tekin afstaða til þeirra atriða sem endurupptökubeiðandi byggði beiðni sína á. Vikið var að því að óumdeilt hefði verið, meðal annars með vísan til framburða stjúpdóttur endurupptökubeiðanda, hans sjálfs og vitna, að stúlkan hefði verið hænd að honum. Hún hefði verið í samskiptum við hann eftir að hún hefði greint frá þeim kynferðisbrotum sem endurupptökubeiðandi hefði verið sakfelldur fyrir meðal annars með sms smáskilaboðum og til þeirra vísað meðal gagna í ágripi. Þá var vitnað til framburðar vitnis sem taldi ekki hljóðbært milli herbergja. Þá var öðrum þeim atriðum andmælt sem færð voru fram af hálfu endurupptökubeiðanda er hnigu að því að rýra trúverðugleika framburðar stjúpdóttur endurupptökubeiðanda. Því var sérstaklega mótmælt að lögreglu hefði verið tækt að rannsaka líf fjölskyldunnar þannig að unnt væri að greina hvort stúlkan hefði verið það oft ein með karlmanni, endurupptökubeiðanda eða öðrum, að um reglulegt kynlíf gæti hafa verið að ræða.

Þá var gerð athugasemd við að endurupptökubeiðandi hefði hvorki við meðferð málsins fyrir héraðsdómi né í erindi sínu til endurupptökunefndar greint frá því hvað vitni hefðu getað borið um honum í hag þannig að áhrif hefði á sönnunarstöðu málins. Hann hefði á engu stigi nefnt vitni til sögunnar sem borið gætu um slíkt; ekki við rannsókn lögreglu, meðferð málsins fyrir dómstólum eða fyrir endurupptökunefnd.

Þess var getið að ríkissaksóknari hefði ekki forsendur til að leggja mat á samskipti endurupptökubeiðanda og verjanda hans en við dómsmeðferð málsins hefði ekkert verið athugavert við framgöngu verjandans. Tekið var fram að málið hefði verið flutt sem prófmál til öflunar málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti. Verjandinn, sem áður hafði skilað greinargerð til réttarins, hefði verið viðstaddur málflutninginn auk þess sem prófmaður hefði skilað ítarlegri greinargerð.

Með vísan til þessa var gerð grein fyrir því mati ríkissaksóknara að ekkert lægi fyrir um að lögregla, ákærandi eða dómari eða aðrir hefðu haft í frammi refsiverða háttsemi þannig að fullnægt væri áskilnaði c-liðar 211. gr. laga um meðferð sakamála til endurupptöku. Að sama skapi væri það mat ríkissaksóknara að endurupptökubeiðandi hefði ekki leitt verulegar líkur að því að sönnunargögn hefðu verið rangt metin eða slíkir ágallar á meðferð málsins að verulegar líkur væru fyrir hendi á að niðurstaða málsins hafi orðið röng, sbr. c- og d-liði 1. mgr. 211. gr. laganna.

V.        Frekari athugasemdir aðila

Að framkomnum athugasemdum ríkissaksóknara bárust endurupptökunefnd frekari athugasemdir af hálfu endurupptökubeiðanda. Áréttaði hann þar fyrri sjónarmið endurupptöku til stuðnings auk þess sem gerð var athugasemd við hæfi ríkissaksóknara til að fjalla um endurupptökubeiðnina þar sem ríkissaksóknari hafði flutt málið af hálfu ákæruvaldsins fyrir dómi.

Ríkissaksóknari brást við athugasemd um hæfi með því að vísa til skyldna og hæfis ákærenda samkvæmt III. kafla laga um meðferð sakamála. Jafnframt var áréttað að það hefði ekki áhrif á hæfi ákærenda þótt þeir hefðu komið fyrr að máli til dæmis fyrir héraðsdómi áður en það kæmi til úrlausnar Hæstaréttar.

V.        Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. lög nr. 15/2013. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að nefndin geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a – d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Endurupptökubeiðandi vísar í fyrsta lagi til b-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála þess efnis að ætla megi að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins. Í öðru lagi vísar endurupptökubeiðandi til c-liðar 1. mgr. 211. gr. þess efnis að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Loks telur endurupptökubeiðandi að hugsanlega eigi d-liður 1. mgr. 211. gr. við, um að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Vegna athugasemda endurupptökubeiðanda skal fyrst vikið að hæfi ríkissaksóknara til að veita umsögn um endurupptökubeiðni þessa. Á saksóknurum hvílir hlutlægnisskylda samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga um meðferð sakamála og ber þannig jafnt að huga að atriðum sem horfa til sektar og sýknu, sbr. einnig 4. mgr. 211. gr. laganna en samkvæmt því ákvæði er ríkissaksóknara heimilt að óska endurupptöku til hagsbóta fyrir dómfellda telji hann skilyrðum 1. mgr. fullnægt. Saksóknarar fara hins vegar ekki með úrlausnarvald um sakarefni og verða því ekki vanhæfir til umfjöllunar um mál þótt þeir hafi fyrr komið að meðferð þess, ólíkt því sem gildir um dómara. Af þessum ástæðum eru ekki efni til að gera athugasemdir við hæfi ríkissaksóknara til umfjöllunar um endurupptökubeiðni máls þessa.

Hvað skilyrði b-liðar 1. mgr. 211. gr. snertir telur endurupptökubeiðandi að lögregla hafi brotið gegn lögbundinni hlutlægniskyldu, sbr. til dæmis 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála, með því að sinna ekki ábendingum endurupptökubeiðanda er málið var til rannsóknar um atriði sem rannsaka þyrfti.

Í þessum efnum er til þess að líta að sönnunarfærsla í sakamálum fer fram fyrir dómi þar sem sakborningi gefst færi á að leiða þau vitni og leggja fram þau gögn sem hann telur málstað sínum til framdráttar. Um er að ræða eina helstu grundvallarreglu sakamálaréttarfars sem bæði er stjórnarskrárvarin, sbr. 1. mgr. 70. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, auk þess sem kveðið er á um hana í 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland hefur fullgilt og gefið lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Í lögum um meðferð sakamála er kveðið á um þessi atriði í XVI. kafla laganna. Þannig er kveðið á um það í 109. gr. að dómari meti hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Sérstaklega er svo kveðið á um það í 111. gr. laganna að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi.

Í samræmi við þá grundvallarreglu að ákæruvaldið beri þá byrði að sanna sekt ákærðs manns þá er það ákæranda að afla sönnunargagna málsins og þá bæði þeirra sem horfa til sektar og sýknu enda ber ákæruvaldið hlutlægnisskyldu í þeim efnum. Ákærði getur á hinn bóginn einnig aflað sönnunargagna telji hann ástæðu til þess. Að auki getur dómurinn beint því til ákæranda að afla þeirra gagna sem dómurinn telur nauðsynlegt til að upplýsa mál eða skýra. Næg úrræði standa þannig að lögum til þess að bregðast við hafi rannsókn lögreglu farið úrskeiðis á einhvern hátt.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins að skilyrði b-liðar 211. gr. séu uppfyllt, þ.e. að  að ætla megi að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins. Verður endurupptaka hæstaréttarmáls nr. 58/2009 því ekki byggð á þessari forsendu.

Þá hefur endurupptökubeiðandi ekki leitt líkur að því að sönnunargögn, sem færð voru fram í málinu hafi verið ranglega metin, svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Í dómi Héraðsdóms Suðurlands er fjallað um þau atriði sem endurupptökubeiðandi tiltekur sérstaklega því til stuðnings að forsendur séu til endurupptöku. Fjallað var af hálfu endurupptökubeiðanda fyrir dómi um að hljóðbært væri í húsinu án þess að dómurinn teldi þann framburð ráða neinum úrslitum andspænis gagnstæðum framburði vitnis fyrir dóminum. Þá var lagt mat á trúverðugleika framburðar stjúpdóttur endurupptökubeiðanda fyrir héraðsdómi og talið með vísan til framburðarins og vitnaskýrslna, bæði þeirra sem kunnugir voru stúlkunni og sérfræðinga, að útilokað væri að svo ung stúlka hefði getað skáldað þá frásögn sem stúlkan lýsti í Barnahúsi. Því var slegið föstu að ekkert hefði komið fram fyrir dóminum sem rýrði frásögn stúlkunnar, en gögn um samskipti hennar við endurupptökubeiðanda með smáskilaboðum voru meðal gagna málsins. Dómurinn taldi að framburður stúlkunnar ætti sér stoð í öðrum framburðum og væri í samræmi við sýnileg sönnunargögn. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í þessum efnum með vísan til forsendna. Hæstiréttur gerði hins vegar athugasemd við forsendur héraðsdóms að því leyti að við mat á sönnun sakargifta samkvæmt ákæru hefði ekki skipt máli að systir endurupptökubeiðanda hafi borið um kynferðislega tilburði hans gagnvart sér þegar hún var barn að aldri og að ákærði hafi viðurkennt það að vissu marki. Geta ályktanir héraðsdóms í þeim efnum ekki grundvallað endurupptöku málsins.

Gegn þeim atriðum sem leiddu til sönnunar um sekt endurupptökubeiðanda leiða þau sjónarmið í beiðni hans um endurupptöku, sem einnig var haldið fram fyrir dómi, ekki til þess að verulegar líkur teljist á að sönnunargögn sem færð voru fram hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Þá hefur ekkert komið fram í máli þessu sem sýnir fram á að vörn endurupptökubeiðanda hafi verið svo áfátt í málinu, fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti, að fullnægt sé áskilnaði d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála um að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Þau atriði sem endurupptökubeiðandi gerir athugasemdir við og lúta að málsvörninni fyrir dóminum breyta því ekki.

Samkvæmt framansögðu eru engin af skilyrðum b-, c- eða d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála uppfyllt og er beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 58/2009 því hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni X um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 58/2009 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 28. maí 2009 er hafnað.

 

Ragna Árnadóttir formaður

Björn L. Bergsson

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta