Hoppa yfir valmynd
4. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skipulag vinnumarkaðsmála og athugasemdir Ríkisendurskoðunar

Vinnumál
Vinnumál

Velferðarráðuneytið hefur skoðað kosti og galla þess að sameina Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið. Ráðuneytið telur ekki sýnt að með því náist faglegur ávinningur eða hagræðing að því marki að það réttlæti sameiningu stofnananna að svo stöddu.

Ríkisendurskoðun birti í gær skýrslu þar sem ítrekaðar eru fyrri ábendingar stofnunarinnar til ráðuneytisins varðandi skipan vinnumarkaðsmála. Stofnunin hvetur ráðuneytið til að endurskoða stofnanaskipan á sviði vinnumarkaðsmála, til dæmis með sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins, meta þurfi ávinning þess að skipa fagráð vinnumarkaðsmála í stað stjórnar Vinnumálastofnunar, kanna beri hvort fýsilegt sé að sameina greiðslukerfi vegna almannatrygginga og loks er ráðuneytið hvatt til að gera árangursstjórnunarsamning við Vinnumálastofnun.

Ríkisendurskoðun gaf velferðarráðuneytinu kost á því að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum vegna athugasemdanna og eru þau birt í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar kemur fram að ráðuneytið hefur þegar kannað kosti þess að sameina Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins. Niðurstaðan er sú að faglegur ávinningur af slíkri sameiningu sé lítill þótt mögulega náist hagræðing til lengri tíma litið með rekstrarlegri samlegð. Ráðuneytið telur að ókostir geti fylgt sameiningu þessara stofnananna, meðal annars kunni að skapast togstreita vegna ólíkra hlutverka, þar sem önnur stofnunin annast aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum en hin hefur meðal annars það hlutverk að vernda störf. Ráðuneytið bendir einnig á að vinnueftirlitsstofnanir í nágrannaríkjunum eru sjálfstæðar stofnanir.

Aðrar leiðir til hagræðingar í skoðun

Í greinargerð velferðarráðuneytisins kemur fram að áformað er að sameina í hagræðingarskyni þjónustumiðstöðvar Tryggingastofnunar ríkisins og Vinnumálastofnunar jafnt á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Samhliða verður skoðað mögulegt hagræði af því að Vinnueftirlitið samnýti skrifstofuhald á landsbyggðinni með þessum stofnunum. Eins bendir ráðuneytið á að til skoðunar séu kostir og gallar þess að sameina útgreiðslu almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar með flutningi Fæðingarorlofssjóðs frá Vinnumálastofnun til Tryggingastofnunar ríkisins. Fleiri möguleikar til hagræðingar verða skoðaðir af starfshópi sem skila mun tillögum þess efnis í október.

Nánar má lesa um viðbrögð velferðarráðuneytisins við athugasemdum Ríkisendurskoðunar í skýrslunni sem birt er á vef stofnunarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta