Hoppa yfir valmynd
20. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 39/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 39/2021

Fimmtudaginn 20. maí 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. janúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. október 2020, um að kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 18. maí 2020. Með bréfi, dags. 9. september 2020, var umsókn kæranda samþykkt. Kæranda var jafnframt tilkynnt sama dag að hún ætti 34,46 mánuði eftir af 36 mánaða bótatímabili sínu. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir upplýsingum um bótatímabilið og var þá upplýst að um gamalt bótatímabil væri að ræða þar sem hún hafi ekki starfað samfleytt í 24 mánuði. Kæranda var bent á að hún gæti skilað gögnum sem sýndu fram á hið gagnstæða, ef það ætti við. Kærandi lagði fram gögn 10. september 2020 og óskaði eftir endurskoðun bótatímabilsins. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. október 2020, var kæranda tilkynnt að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir nýju bótatímabili þar sem hún hafi ekki starfað í 24 mánuði á Íslandi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. janúar 2021. Með bréfi, dags. 16. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 12. apríl 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. apríl 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að tilgangur kærunnar sé að benda á það sem hún telji vera ákveðið misrétti byggt inn í útreikningakerfi atvinnuleysisbóta, sem halli á starfsfólk í tímabundnum verkefnum, hvort sem þau séu hérlendis eða erlendis. Samkvæmt upplýsingum frá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar hafi 36 mánaða bótarétti kæranda lokið í júlí 2020, byggt á útreikningi bótatímabils sem hófst árið 2006. Á þeim 14 árum hafi hún unnið á vegum íslenska ríkisins í þremur tímabundnum verkefnum, eða samtals þrjú og hálft ár. Þar sem hvert verkefni hafi ekki náð 24 mánaða marki, sem henni skiljist að þurfi til að skapa nýtt bótatímabil, hafi hún haldið áfram að nýta bótarétt sem hafi tekið 14 ár að ljúka. Þrátt fyrir að kærandi hafi starfað samfleytt á vegum stofnana B erlendis í rúm fimm ár, eða frá árinu 2010 til 2015, hafi Vinnumálastofnun útskýrt að samkvæmt reglum eigi 24 mánaða reglan eingöngu við um íslenskar stofnanir/fyrirtæki.

Þegar 11 mánaða tímabundnum samningi við C í D hafi lokið í maí 2020 hafi kærandi sótt um atvinnuleysisbætur og átt í samskiptum við starfsfólk Vinnumálastofnunar. Það ferli hafi tekið fimm mánuði áður en staðfest niðurstaða hafi legið fyrir um að kærandi hefði aðeins rétt á atvinnuleysisbótum í einn og hálfan mánuð þar sem 36 mánaða bótaréttur, sem hafi tekið gildi fyrir 14 árum síðan, væri uppurinn. Atvinnusaga kæranda sýni að hún hafi verið virk á vinnumarkaði í 11 ár af þessum 14. Nú sé hún ekki bara atvinnulaus vegna COVID-19 með litlar vonir um að finna vinnu á næstu mánuðum, heldur hafi hún engan rétt á aðstoð til að brúa þetta tímabil atvinnuleysis sem komið sé til af heimsfaraldri, ekki leti.

Kærandi hafi valið að vinna að mannúðarverkefnum erlendis og hún sé mjög þakklát fyrir íslenska velferðarkerfið sem hafi gert henni kleift að mæta skuldbindingum í biðstöðinni milli verkefna. Kannski muni COVID-19 heimsfaraldurinn sýna fram á að tímabundnir samningar geti í auknum mæli hjálpað atvinnugreinum að viðhalda rekstri/þjónustu á óvissutímum og það sé von kæranda að Vinnumálastofnun muni endurskoða grundvöll útreikninga á bótarétti sem taki tillit til fólks í hennar sporum sem fái enga aðstoð af þeirri einu ástæðu að vinnuveitendur á hennar starfssviði bjóði ekki upp á langtíma starfssamninga.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga þegar þeir verði atvinnulausir. Í VI. kafla laganna sé fjallað um það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Í 29. gr. laganna komi fram að atvinnuleitandi geti í mesta lagi átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í samfellt 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun taki við umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Í tilfelli kæranda hafi hún átt rétt á 36 mánaða bótatímabili.

Í 30. og 31. gr. laganna sé fjallað um þau tilvik sem leiði til þess að bótatímabil endurnýist. Annars vegar endurnýjun á tímabili eftir að atvinnuleitandi hafi fullnýtt bótarétt sinn og hins vegar endurnýjun á bótatímabili áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Þar sem kærandi hafi ekki fullnýtt bótarétt sinn í september 2016 komi ákvæði 31. gr. laganna einungis til álita í málinu en þar sé fjallað um þau tilvik þar sem nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Samkvæmt ákvæðinu sé það skilyrði fyrir því að nýtt bótatímabil geti hafist að viðkomandi hafi starfað í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi fengið síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Áður en kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 9. september 2020, hafi hún síðast þegið atvinnuleysisbætur á tímabilinu 29. janúar 2019 til 21. júní 2019. Frá 21. júní 2019 hafi kærandi starfað á vegum B á tímabilinu 23. júní 2019 til 22. maí 2020. Sú vinna kæranda uppfylli ekki skilyrði 31. gr. laganna um samfellt starf á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hún hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til framangreinds hafi kærandi því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils á grundvelli 31. gr. laganna.

Meðal gagna málsins sé staðfesting á því að kærandi hafi starfað á vegum B samfellt í rúm fjögur ár, eða árin 2010 til 2015, en óljóst sé í hvaða ríki kærandi hafi starfað. Sett sé það skilyrði í 31. gr. að starfið feli í sér þátttöku á innlendum vinnumarkaði. Aftur á móti sé Vinnumálastofnun heimilt samkvæmt 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að taka tillit til starfstímabila atvinnuleitanda sem launagreiðanda eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum á ávinnslutímabilinu við mat á atvinnuleysistryggingu hans, enda hafi störf hans í því ríki veitt honum rétt samkvæmt lögum þess um atvinnuleysistryggingar. Skilyrði fyrir því að Vinnumálastofnun geti reiknað með starfstímabili í öðru EES-ríki sé að atvinnuleitandi hafi starfað á Íslandi eftir að hann hafi komið til landsins og áður en hann sæki um atvinnuleysisbætur. Þá beri atvinnuleitanda jafnframt að afla staðfests U1-vottorðs frá viðkomandi ríki. Fyrir liggi að kærandi hafi aldrei aflað U1-vottorðs frá því ríki þar sem hún hafi starfað undanfarin ár. Af þeirri ástæðu geti Vinnumálastofnun ekki tekið tillit til starfstímabils kæranda í öðru ríki við mat á rétti hennar til atvinnuleysistrygginga. Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á nýju bótatímabili samkvæmt 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, með vísan til 31. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils á grundvelli 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði, áður 36 mánuðir, frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 30. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 30 mánuði geti áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum, enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í að minnsta kosti sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Þá kemur fram í 31. gr. laganna að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun með hléum frá nóvember 2006 en þá hófst 36 mánaða bótatímabil hennar. Þar sem kærandi hafði ekki, þegar umsókn hennar barst Vinnumálastofnun þann 18. maí 2020, starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur hafði hún ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006. Ákvæði 47. gr. laga nr. 54/2006 kemur ekki til skoðunar í máli kæranda þar sem hún hvorki starfaði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabili 15. gr. laga nr. 54/2006 né í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Í maí 2020 hafði kærandi fengið greidda 34,46 mánuði af bótatímabili sínu og hafði því í júlí 2020 fullnýtt 36 mánaða bótatímabil sitt.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. október 2020, um að A, hafi ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta