Viðbragðsáætlun gegn fuglaflensu
Norrænu heilbrigðis-og félagsmálaráðherrarnir samþykktu á fundi sínum í Þórshöfn í Færeyjum að kanna möguleika Norðurlandanna á að framleiða bóluefni sem lið í sameiginlegri viðbragðsáætlun gegn útbreiðslu fuglaflensu og setja niður sérstakan vinnuhóp í þessu skyni. Er honum gert að skila tillögum sínum í nóvember. Á fundinum kom fram að litið er á fuglaflensuna sem mestu heilbrigðisógn sem heimurinn hefur staðið frammi fyrir um langa hríð. Af hálfu Íslands var lögð áhersla á það á fundinum að kanna möguleikana á framleiðslu bóluefnis enda væri mikilvægast að framleiða bóluefni fyrir utan að móta alþjóðlega stefnu um það hvernig bregðast skuli við hinni miklu ógn.