Hlutdeildarlán sem auðvelda tekjulágum einstaklingum að eignast fyrstu íbúð samþykkt á Alþingi
Alþingi samþykkti í kvöld frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um hlutdeildarlán sem ætlað er að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hlutdeildarlánin eru að skoskri fyrirmynd og brúa bilið á milli lána veittum af fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum annars vegar og kaupverðs hins vegar. Hægt verður að sækja um lánin frá 1. nóvember næstkomandi.
Hlutdeildarlánin virka þannig að kaupandi leggur til að lágmarki 5% eigið fé og tekur 75% fasteignalán hjá lánastofnun. Ríkið lánar síðan einstaklingum sem eru að kaupa sína fyrstu eign, að vissum skilyrðum uppfylltum, ákveðið hlutfall af verði þess íbúðarhúsnæðis sem þeir hyggjast kaupa. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum. Lántakendurnir endurgreiða hlutdeildarlánið þegar íbúðin er seld.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Ég er gríðarlega ánægður með að frumvarp mitt um hlutdeildarlán hafi verið samþykkt á Alþingi í kvöld! Með þessari nýju og róttæku aðgerð erum við að taka mikilvægt skref í þá átt að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á fasteignamarkaðinn. Hlutdeildarlánin eru eitt af helstu áherslumálum mínum og ríkisstjórnarinnar, og mikilvægt innlegg inn í lífskjarasamningana. Lægstu tekjutíundir hafa verið fastar á leigumarkaði og við vitum að mikill meirihluti þeirra vill komast í eigið húsnæði. Nú er ríkið að stíga myndarlegt skref til þess að aðstoða þetta fólk og við sem samfélag erum að segja að við sættum okkur ekki við að einungis þeir sem eru með sterkt bakland eigi að geta eignast eigið húsnæði.“