Hoppa yfir valmynd
20. júní 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 70/2018 - Úrskurður

Mál nr. 70/2018

Miðvikudaginn 20. júní 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Jón Baldursson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. febrúar 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. febrúar 2018, um synjun á umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, móttekinni 5. febrúar 2018, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hennar X 2018. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. febrúar 2018, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að skilyrði um fullt nám á vorönn 2018 væri ekki uppfyllt og undanþága 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof ætti ekki við í hennar tilfelli.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 23. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 26. febrúar 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 12. mars 2018, og með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún stundi meistaranám við Háskólann í Reykjavík og eigi von á barni á miðri skólaönn. Kærandi kveðst hafa lokið fullu námi á haustönn 2017 en fram að þeim tíma hafi hún verið í fullu starfi. Í janúar 2018 hafi ljósmóðir kæranda farið fram á að hún myndi stunda lágmarks nám vegna meðgönguháþrýstings og því hafi hún einungis skráð sig í 25% nám (7,5 ECTS einingar) á þeirri önn. Kærandi bendir á að í Háskólanum í Reykjavík sé greiðsla skólagjalda miðuð við einingafjölda. Kæranda hafi því fundist fráleitt að greiða hærri skólagjöld einungis til þess að Fæðingarorlofssjóður gæti séð að hún hefði verið skráð í fullt nám á pappírum. Þá hefði hún þurft að greiða full skólagjöld til þess eins að falla á flestum einingunum sem hún hefði greitt fyrir, vitandi að hún gæti einungis náð 7,5 ECTS einingum, bæði samkvæmt læknisráði og áætluðum fæðingardegi barnsins. Kærandi tekur fram að hún eigi nú einungis rétt á lágmarksfæðingarstyrk frá Fæðingarorlofssjóði sem dugi ekki til framfærslu með nýfætt barn. Kærandi fer því fram á að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði þrátt fyrir að hafa ekki verið skráð í 75-100% nám á vorönn 2018.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldrar, sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins verði að horfa til tímabilsins frá X 2017 fram að væntanlegum fæðingardegi þess X 2018. Á vottorði um skólavist frá Háskólanum í Reykjavík, dags. 30. janúar 2018, komi fram að á framangreindu tólf mánaða tímabili hafi kærandi lokið 26,25 ECTS-einingum á haustmisseri 2017 og sé skráð í 7,5 ECTS-einingar á vormisseri 2018. Í staðfestingu frá Háskólanum í Reykjavík, dags. 19. febrúar 2018, komi fram að kærandi hafi verið skráð í 15 ECTS-einingar í upphafi vormisseris 2018 en hún hafi sagt sig úr 7,5 ECTS-einingum. Á háskólastigi jafngildi 30 einingar á önn 100% námi og því teljist 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda uppfylli hún ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að í 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 sé að finna undanþágu frá framangreindu skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um viðunandi námsárangur við tilteknar aðstæður. Þar komi fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk samkvæmt 1. mgr. þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Því til staðfestingar skuli leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hafi móður á meðgöngu ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám. Þá komi fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni. Í málinu liggi fyrir læknisvottorð, dags. 24. janúar 2018, þar sem meðal annars komi fram að kærandi hafi verið skoðuð af lækni þann sama dag og sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið var 17. sama mánaðar. Þá liggi fyrir staðfesting frá Háskólanum í Reykjavík þess efnis að kærandi hafi einungis verið skráð í 15 ECTS-einingar í upphafi vormisseris 2018 en sagt sig úr 7,5 ECTS-einingum. Í samræmi við framangreint geti heimildarákvæði 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 ekki tekið til vormisseris 2018 þar sem kærandi hafi ekki verið skráð í fullt nám á því misseri, sbr. 2. málsl. 13. mgr. 19. gr. laganna.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað en kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. laga nr. 95/2000.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Almennt teljast 30 ECTS-einingar á önn því vera 100% nám við háskóla og fullt nám í skilningi laganna því 22–30 einingar.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var X 2018. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2017 fram að áætluðum fæðingardegi barnsins. Kærandi hóf nám við Bdeild Háskólans í Reykjavík haustið 2017, sbr. framlögð gögn, og stendur námið yfir í tvö ár. Fullt nám á hverri önn nemur 30 ECTS-einingum eða samtals 120 ECTS einingum í heild. Samkvæmt yfirliti frá Háskólanum í Reykjavík, dags. 30. janúar 2018, lauk kærandi 26,25 ECTS-einingum á haustönn 2017 og var skráð í 7,5 ECTS-einingar á vorönn 2018. Í staðfestingu frá Háskólanum í Reykjavík, dags. 19. febrúar 2018, kemur fram að kærandi hafi verið skráð í 15 ECTS-einingar í upphafi vorannar 2018 en sagt sig úr 7,5 ECTS-einingum. Að framangreindu virtu fullnægði kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um að hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Við þær aðstæður skal móðir leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám. Líkt og að framan greinir liggur fyrir staðfesting þess efnis að kærandi hafi ekki verið skráð í fullt nám við Háskólann í Reykjavík á vorönn 2018. Að því virtu kemur undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 ekki til skoðunar á þeirri önn, enda stundaði kærandi ekki fullt nám á þeim tíma.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur nefndin óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um að hafa verið í fullu námi í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. febrúar 2018, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta