Hoppa yfir valmynd
24. maí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 240/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 240/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18040034

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. apríl 2018 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. apríl 2018, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. apríl 2018, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að veita honum dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi fengið dvalarleyfi hér á landi sem maki Íslendings þann 25. ágúst 2016 með gildistíma til 25. ágúst 2017. Leyfið hafi verið endurnýjað 1. ágúst 2017 en verið afturkallað með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 15. mars 2018 þar sem kærandi og maki hans hefðu skilið þann 13. febrúar sama ár. Þann 22. febrúar 2018 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. apríl 2018, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 19. apríl 2018 og þann 6. maí sama ár barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var gerð grein fyrir skilyrðum fyrir dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga og 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Kom fram að kærandi hefði dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis í 18 mánuði og stundað á þeim tíma atvinnu. Var það mat Útlendingastofnunar, í ljósi þess að kærandi hefði dvalið hér á landi í tiltölulega skamman tíma, að kærandi hafi ekki myndað sterk tengsl við landið á grundvelli menningarlegra eða félagslegra þátta í gegnum atvinnuþátttöku. Þá hefði kærandi engin fjölskyldutengsl við landið. Vísaði Útlendingastofnun jafnframt til upplýsinga í umsókn kæranda um dvalarleyfi um að hann ætti foreldra og [...] son í heimaríki. Að virtum gögnum málsins og aðstæðum kæranda í heild var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki svo sérstök tengsl við landið að honum yrði veitt dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er byggt á því að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi Útlendingastofnun ekki fylgt ákvæðum laga um útlendinga eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, m.a. rannsóknarreglu 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. Fram kemur að kærandi hafi kynnst fyrrverandi eiginkonu sinni fljótlega eftir komu hingað til lands í nóvember 2015 og fengið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar í september 2016. Kærandi hafi því dvalið hér á landi í yfir tvö og hálft ár og verið með gilt dvalarleyfi í 20 mánuði. Allan þann tíma hafi kærandi stundað atvinnu hér á landi við góðan orðstír, en hann sé auk þess með hreina sakaskrá.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga skuli, við mat á tengslum umsækjanda við landið, að jafnaði horfa til lengdar lögmætrar dvalar. Kærandi hafi dvalið hér á landi frá því í nóvember 2015 og myndað á þeim tíma rík tengsl við vinnufélaga og vini. Gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi miðað dvalartíma hans hér á landi við útgáfu dvalarleyfis, en leyfið hafi ekki verið gefið út fyrr en sex mánuðum eftir að kærandi hafi lagt fram umsókn hjá Útlendingastofnun. Í athugasemdum við 78. gr. laga um útlendinga í frumvarpi til laga um útlendinga komi fram að miða eigi við að lágmarki tveggja ára dvöl hér á landi og sé það engum vafa undirorpið að kærandi hafi dvalið hér á landi í meira en tvö ár.

Byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki litið heildrænt á dvalartíma hans hér á landi og tengsl í gegnum atvinnuþátttöku við mat á því hvort veita skyldi honum dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Varðandi tilvísun Útlendingastofnunar til þess að kærandi hafi ríkari tengsl við heimaríki þar sem hann eigi foreldra og son þar í landi bendir kærandi á að hann hafi flúið til [...]. Hafi kærandi nær engin tengsl haft við son sinn síðan þá.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geta m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 er fjallað um mat á umsóknum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar kemur fram að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horft til atriða sem tilgreind eru í a-e liðum greinarinnar. Samkvæmt a-lið 19. gr. skal horft til lengdar lögmætrar dvalar. Þá segir að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veita nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár, eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Í d-lið kemur fram að m.a. skuli horft til fjölskyldutengsla og fjölskyldumynsturs og samkvæmt e-lið ákvæðisins skal horft til umönnunarsjónarmiða, þ.e. hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis, sem sé tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður.

Í úrskurðum kærunefndar hefur verið litið svo á að með lögmætri dvöl í skilningi 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga og a-liðar 19. gr. reglugerðar um útlendinga sé átt við dvöl samkvæmt dvalarleyfi útgefnu á grundvelli laga um útlendinga. Samkvæmt því sem rakið hefur verið var kærandi með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar í rúma 18 mánuði áður en það var afturkallað með fyrrnefndri ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2018. Þar sem lögmæt dvöl kæranda hér á landi var skemmri en tvö ár verður honum ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið nema önnur tengsl hans við landið séu mjög sterk, sbr. a-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Í því sambandi verður, eins og áður greinir, lagt heildstætt mat á tengsl kæranda við landið.

Kærandi kveðst hafa komið hingað til lands í nóvember 2015. Af gögnum málsins má ráða að hann hafi stundað atvinnu hér á landi frá því í september 2016 og verður lagt til grundvallar að hann hafi myndað einhver félagsleg tengsl við landið í gegnum atvinnuþátttöku. Að mati kærunefndar vegur hins vegar þungt í málinu að kærandi hefur engin fjölskyldutengsl við landið og þá er ekkert í málinu sem bendir til þess að umönnunarsjónarmið styðji við umsókn kæranda um dvalarleyfi, sbr. d- og e-liði 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður því ekki talið að kærandi hafi mjög sterk tengsl við landið í skilningi a-liðar 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber honum að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is confirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                               Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta