Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar með framkvæmdastjórum Evrópusambandsins

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Valdis Dombrovskis, viðskiptamálastjóri ESB - mynd

Betri markaðsaðgangur fyrir fisk og sjávarafurðir og betra jafnvægi í viðskiptum með landbúnaðarvörur var í forgrunni viðræðna Guðlaugs Þór Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við æðstu stjórnendur Evrópusambandsins í dag.

Guðlaugur Þór átti í dag fundi með Josep Borrell utanríkismálastjóra ESB, Valdis Dombrovskis viðskiptamálastjóra ESB, Virginijus Sinkevičius framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála ESB og Janusz Wojciechowski framkvæmdastjóra landbúnaðarmála ESB.

,,Ég hef lagt áherslu á að Ísland njóti betri markaðsaðgangs fyrir fisk og sjávarafurðir sem eitt nánasta samstarfsríki sambandsins,” sagði Guðlaugur Þór. ,,Ég er ánægður með að Evrópusambandið sé reiðubúið að hefja viðræður við okkur um þetta. Ísland vinnur náið með ESB og aðildarríkjum þess á grundvelli EES-samningsins og okkar sameiginlegu gilda og það hlýtur að vera okkur öllum í hag að sanngirni ríki í viðskiptum okkar í milli.”

Tilgangur þessara funda var að sækjast eftir frekari tollfrjálsum aðgangi fyrir sjávarafurðir í tengslum við viðræður EES/EFTA-ríkjanna og ESB um framlög til Uppbyggingarsjóðs EES á næsta starfstímabili 2021-2027. Guðlaugur Þór fylgdi einnig eftir kröfu sinni um endurskoðun samnings við ESB um landbúnaðarvörur í því skyni að draga úr því ójafnvægi sem ríkir í viðskiptum samningsaðila. Farið var fram á endurskoðun samningsins í desember sl. en viðræður um það ekki enn skilað viðunandi árangri.  

Á fundi sínum með utanríkismálastjóra ESB ræddi utanríkisráðherra enn fremur stöðuna í alþjóðamálum og öryggis- og varnarmálum auk þess sem utanríkisráðherra greindi honum frá þeim árangri sem náðist á formennskutímabili Íslands í Norðurskautsráðinu sem er nýlokið.

  • Guðlaugur Þór og Virginijus Sinkevičius framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála ESB - mynd
  • Guðlaugur Þór og Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB - mynd
  • Guðlaugur Þór og Janusz Wojciechowski framkvæmdastjóri landbúnaðarmála ESB - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta