Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2013 Forsætisráðuneytið

A-506/2013. Úrskurður frá 7. nóvember 2013

Úrskurður

Hinn 7. nóvember 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-506/2013, í máli ÚNU 13060002.

Kæruefni

Með bréfi, dags. 10. júní 2013, kærði A þá ákvörðun Hörgársveitar, dags. 21. maí, að synja beiðni hennar, dags. 3. maí, um aðgang að gögnum vegna afskipta sveitarfélagsins undanfarið ár af menningarfélaginu Hrauni í Öxnadal ehf.

Málsatvik

Kærandi sendi Hörgársveit beiðni um afhendingu gagna með tölvubréfi, dags. 3. maí 2013. Þar kemur eftirfarandi m.a. fram: 

„Málefni hlutafélagsins [Hrauns í Öxnadal ehf.] hafa verið til umfjöllunar í sveitarstjórn og menningar- og tómstundanefnd á undanförnum mánuðum, og bókað um það:

11. fundur menningar- og tómstundanefndar 3. september 2012 fjallaði um tillögu Íslandsbanka um lausn á vanda félagsins og ósk [um] viðræður og lagði nefndin til við sveitarstjórn að hún gengi til viðræðna um tillöguna27. fundur sveitarstjórnar fjallaði um tillögu Íslandsbanka um lausn á fjárhagsvanda hlutafélagsins og samþykkt var að ganga til samninga við bankann á grundvelli erindis hans dags. 3. september 201228. fundur sveitarstjórnar fjallaði um fyrirliggjandi drög að kaupsamningi um hlutafé og samþykkti að fela sveitarstjórn að undirrita þau með breytingum sem gerðar voru á fundinum30. fundur sveitarstjórnar samþykkti fyrir sitt leyti ósk um landskipti í Hrauni þar sem 12 ha spilda er tekin undan jörðinni fyrir frístundahús

Getur þú sent mér afrit af þeim skjölum sem vísað er til í umræddum bókunum og þeirra annarra gagna sem til hafa orðið og eru í vörslum sveitarfélagsins vegna málefna hlutafélagsins og jarðarinnar undanfarið ár og tengjast ofangreindri umfjöllun. (Í áðurnefndri fundargerð menningar- og tómstundanefndar frá 3. september 2012 er bókað: '6. Hraun í Öxnadal ehf. Málefni Hrauns í Öxnadal ehf. hafa verið nokkuð til umfjöllunar að undanförnu m.a. hjá sveitarstjórn, hluthöfum og kröfuhöfum.' Ég hef ekki fundið neinar bókanir sveitarstjórnar frá því fyrir þennan tíma þó ég hafi farið yfir allar fundargerðir ársins. Ekki er því ljóst til hvers fundargerð nefndarinnar vísar að þessu leyti.)“

Eins og fram hefur komið synjaði Hörgársveit kæranda um aðgang að gögnunum með bréfi, dags. 21. maí. Í bréfinu kemur eftirfarandi m.a. fram:

„Þau gögn sem beðið var um eru eftirfarandi:

1. Erindi Íslandsbanka dags. 3. september 2012 um lausn á vanda Hrauns ehf.
2. Fyrirliggjandi drög að kaupsamningi um hlutafé
3. Ósk um landskipti í Hrauni
4. Önnur gögn sem hafa orðið til undanfarið ár, (m.v. 3. maí 2013), sem sveitarfélagið hefur í sínum vörslum vegna:
a. Hlutafélagsins
b. Jarðarinnar

Fyrir liggur að um umbeðnar upplýsingar gilda upplýsingalög. Í 4. mgr. 35. gr. hinna nýrri upplýsingalaga nr. 140/2012, segir að ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 skuli halda gildi sínu gagnvart sveitarfélögum með íbúa undir 1.000 manns við gildistöku nýju laganna, til 1. janúar 2016. Því er ljóst að hin eldri upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda um meðferð máls þessa.

Eldri upplýsingalög eru takmörkuð við starfsemi þeirra sem fara með stjórnsýslu. Starfsemi einkaaðila, s.s. hlutafélaga, fellur undir lögin að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, en lögin gilda að öðru leyti ekki um einkaaðila, Einkaaðilar í skilningi laganna eru t.d. hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu, nema þeim hafi verið falið sérstakt stjórnsýsluhlutverk.

Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps til upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að sé hlutafélag í eigu ríkis eða sveitarfélaga nái lögin til upplýsinga er varða eignarhald opinberra aðila á félaginu, nema þær upplýsingar lúti að viðskiptahagsmunum þess, en þá sé heimilt að takmarka aðgang að gögnum.

Einnig er varðandi upplýsingaskyldu vísað til 5. gr. sömu laga sem fjallar um takmörkun á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna, þ.e. einstaklinga, fyrirtækja og lögaðila, sem í þessu tilfelli teljast Hraun í Öxnadal ehf. og hluthafar þess. Hraun í Öxnadal ehf. sem sveitarfélagið Hörgársveit á hlut í, hefur ekki verið falið sérstakt stjórnsýsluhlutverk eða opinbert vald. Hörgársveit telur sér því hvorki skylt né heimilt skv. upplýsingalögum nr. 50/1996 að veita umbeðnar upplýsingar að undanskildum upplýsingum viðvíkjandi 3. tölulið hér að ofan, að svo miklu leyti sem um er að ræða gögn sem varða afgreiðslu sveitarstjórnar sem stjórnvalds. Beiðni um afrit af öðrum ofangreindum gögnum er því synjað.

Að því er varðar lið 4.b. þá er fyrirspurnin fremur opin og lítt afmörkuð. Í gögnum sveitarfélagsins eru ekki skjöl sem varða afgreiðslu þess sem stjórnvalds, önnur en þau sem tengjast 3. lið og fylgja hjálagt.“

Í kæru málsins, dags. 10. júní, kemur fram að kæran grundvallist annars vegar á upplýsingalögum nr. 50/1996 og hins vegar á lögum nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál að því marki sem upplýsingarnar varða umhverfismál. Kærandi vísar til þess að hún og eiginmaður hennar eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sem eigendur jarðarinnar Hóla í Öxnadal, sem er gegnt jörðinni Hrauni í Öxnadal. Kærandi vísar t.a.m. til þess að jarðirnar séu báðar hluti af sama svæði á náttúruminjaskrá. Kærandi vísar til þess að það séu fyrir hendi bæði ríkir einka- og almannahagsmunir af því að upplýst verði um efnisatriði samkomulags sem lýtur að yfirtöku sveitarfélagsins á meirihluta hlutafjár Hrauns í Öxnadal ehf. og hver séu tengsl þess við heimild fyrir landskiptum og þá væntanlega fyrirhuguðu afsali einkahlutafélagsins á hinu úrskipta landi og auknu landi undir frístundabyggð. Kærandi fjallar því næst um inntak 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og vísar til þess að ákvæðið feli í sér takmörkun á upplýsingarétti vegna m.a. mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækja eða annarra lögaðila. Kærandi vísar til þess að ekki fáist séð hverjir þeir hagsmunir geti verið og hvernig þeir geti vegið þyngra en hagsmunir almennings einkum þar sem hér ræði um ráðstöfun opinbers fjár og eigna. Þá er á það bent að félagið sé menningarfélag sem sé ekki í samkeppnisrekstri. 

Málsmeðferð

Kæran var send Hörgársveit til athugasemda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. júní 2013. Barst svar við því 5. júlí s.á.

Í bréfi Hörgársveitar kemur fram að sveitarfélagið hafni því að kærandi geti átt einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 fyrir það eitt að jörð hans liggi að þeirri jörð sem hér um ræðir og að jörðin sé hluti af tiltekinni landslagsheild. Þá hafnar sveitarfélagið því að lög nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál geti átt við vegna afmarkaðs gildissviðs þeirra laga. Í bréfi sveitarfélagsins er fjallað um fólkvanginn að Hrauni í Öxnadal og tilgang friðlýsingar. Fram kemur að umrædd frístundabyggð sé 12 hektarar, sem sé hluti af 77 hektara heimalandi jarðarinnar Hrauns, en alls sé fólkvangurinn 2.286 hektarar auk heimalandsins, sem hafi verið undanskilið fólkvanginum í auglýsingu um friðlýsingu fólkvangsins að Hrauni í Öxnadal nr. 534 frá 10. maí 2007. Fram kemur að þótt frístundabyggð hafi verið skipulögð á landinu gefi það ekki tilefni til þess að sveitarstjórn beri að afhenda gögn er varða hlutafélagið Hraun í Öxnadal ehf. Þá kemur eftirfarandi m.a. fram í bréfinu:

„Ef óskað er eftir gögnum varðandi hvernig staðið var að skipulagi svæðisins eins og kærandi fjallar nú um, má beina þeirri beiðni til skipulagsnefndar eða sveitarstjórnar sérstaklega. Taka skal fram að ástæður beiðni um upplýsingar voru ekki tilgreindar sérstaklega í upphafi og var því ekki með öllu skýrt hvaða gögn skyldi birta.

Í Aðalskipulagi Hörgár[sveitar] 2006-2026 er gert ráð fyrir 10 sumarhúsum í landi Hrauns á um 5 ha svæði. Varnaraðili vill koma því á framfæri að í ágúst 2010 kom fram beiðni Hrauns í Öxnadal ehf. um landskipti allt að 10 ha (sbr. skjal 1e). Var beiðnin lögð fyrir sveitarstjórn sem gerði ekki athugasemdir við slík landskipti skv. bókun á fundi þann 20. september 2010. Málið var aftur tekið fyrir með nýrri beiðni frá félaginu þann 19. desember 2012 (sjá einnig 1e) þar sem sveitarstjórn samþykkti aftur fyrir sitt leyti landskipti þeirra 12 ha sem lýst var og tilkynnti félaginu það með bréfi. Í framhaldi af seinna erindinu veitti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið félaginu leyfi til að leysa þetta landsvæði, 12 ha úr landbúnaðarnotum sem var og gert. Ekki er vitað hvers vegna félagið sendi ráðuneytinu sitt erindi eftir seinna samþykki sveitarstjórnar, en ekki það fyrra og telst það vart til málefna sveitarstjórnar. Í tillögu að Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2014 sem bíður nú staðfestingar, er gert ráð fyrir frístundabyggð, 12 ha og um 20 hús á grundvelli seinna erindisins. Meðfylgjandi er einnig erindi stjórnarformanns Hrauns í Öxnadal ehf. (skjal 5-1) um heimild til þess að láta skipuleggja byggð fyrir allt að 10 hús nyrst í landi Hrauns, 5-20 ha skv. bréfinu. Bréfið var sent þann 16. ágúst 2005 og samkvæmt bókun sveitarstjórnar um málið 17. ágúst sama ár tekur sveitarstjórn jákvætt í erindið. Er því ljóst að áætlanir um frístundabyggð á svæðinu og stærð svæðisins hafa verið uppi frá því að félagið eignaðist jörðina.

Það er því ekki um það að ræða að varnaraðili hafi greitt fyrir stækkun svæðisins í tengslum við samning um kaup á hlutafé, heldur hafði sveitarstjórn samþykkt það tveimur árum fyrr og fyrstu áætlanir um landskipti árið 2005 voru um allt að 20 ha. svæði.

Hvað varðar ráðstöfun opinberra fjármuna vísar varnaraðili á ný til svars til kæranda, dags. 21. maí 2013. Í því kemur fram að varnaraðili telji upplýsingalög nr. 50/1996 takmarkast við starfsemi þeirra sem fara með stjórnsýslu. Starfsemi einkaaðila, s.s. hlutafélaga, falli því undir lögin að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, sem er ekki raunin um félagið Hraun í Öxnadal ehf. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps til upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að ef hlutafélag er í eigu ríkis eða sveitarfélaga, nái lögin til upplýsinga er varða eignarhald opinberra aðila á félaginu, nema upplýsingarnar lúti að viðkvæmum viðskiptahagsmunum þess, en þá sé heimilt að takmarka aðgang að gögnum. Eins og kom fram í svarinu þá telur varnaraðili að um slíkt sé að ræða í þessu tilfelli og vísar til 5. gr. laganna um takmörkun á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Félagið Hraun í Öxnadal ehf. á hagsmuna að gæta í málinu sem einkaaðili og umbeðin gögn tengjast félaginu ótvírætt, sem og hluthöfum þess.

Þá liggur fyrir að meðal gagna eru upplýsingar sem varða viðskipti félagsins Hrauns við Íslandsbanka og uppgjör þeirra á milli. Er hér um að ræða einkamálefni meðal annars Íslandsbanka, sem rétt og skylt er að leynt fari. Vera kann að Íslandsbanki telji í gögnum máls felast upplýsingar um kjör félagsins Hrauns eða aðrar viðskiptaupplýsingar sem ekki eiga erindi við aðra. Hörgársveit er ekki [í] aðstöðu til að veita umbeðnar upplýsingar í ljósi þessara sjónarmiða, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1996. Ber til þess að líta að litlar takmarkanir eru á að upplýsingar séu endurnotaðar sbr. VIII. kafla laga nr. 50/1996, sem styrkir það sjónarmið að rétt sé að gæta leyndar um viðskipti Íslandsbanka og félagsins Hrauns.

Hluti þeirra gagna sem varnaraðili hefur undir höndum vegna jarðarinnar Hrauns og hlutafélagsins, eru í vörslu varnaraðila vegna stjórnarsetu fulltrúa sveitarfélagsins í hlutafélaginu, varða ekki opinbert stjórnsýsluhlutverk varnaraðila og falla því ekki undir upplýsingalög nr. 50/1996. Varnaraðili telur nauðsynlegt að gera greinarmun á slíkum gögnum, sem komið hafa í vörslu varnaraðila vegna félagsins Hrauns í Öxnadal ehf., og svo þeim gögnum sem varnaraðili kann að hafa undir höndum vegna stjórnsýslustarfa, líkt og þau sem þegar hafa verið afhent. Þannig ætti einnig að gera greinarmun á sveitarfélaginu sem stjórnvaldi í málinu og sveitarfélaginu sem hlutafjáreiganda og stjórnunaraðila í hlutafélagi sem hefur ekki opinbert hlutverk.

Varnaraðili telur sér hvorki skylt né heimilt að afhenda þann hluta gagnanna sem varða einkahagsmuni félagsins þrátt fyrir að einhver slík gögn kunni að vera í vörslum varnaraðila. Um þetta vísar varnaraðili til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 222/2005 (viðskipti með aflamark).

Hörgársveit telur sér þannig hvorki skylt né heimilt skv. upplýsingalögum nr. 50/1996 að veita umbeðnar upplýsingar. Telji úrskurðarnefndin að það beri að afhenda einhver umbeðinna gagna, er óskað eftir því að tillit verði tekið til hagsmuna einkaaðila í málinu, s.s. félagsins Hrauns í Öxnadal ehf. og annarra aðila sem að málinu kunna að koma og atriði sem lúta að viðskiptahagsmunum og öðrum mikilvægum einkahagsmunum, strikuð út úr þeim gögnum og vísast um það til umfjöllunar um einstök gögn.“

Hörgársveit afhenti úrskurðarnefndinni samhliða bréfi sínu, dags. 19. júní, fjölda gagna sem voru númeruð í fjórum skjalapökkum og yfirlitsbréf um gögnin sem óskað var trúnaðar um. Eftirfarandi er upptalning gagna og umfjöllun um hvern gagnapakka fyrir sig eins hún er í tilvitnuðu yfirlitsbréfi.

Gögnin í pakka 1 eru eftirfarandi:
a og b) Bréf Íslandsbanka hf. til Hörgársveitar vegna Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 3. september 2012. 
c) Kaupsamningur um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgársveitar, dags. september 2012 (óundirrituð drög) og kaupsamningur um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgarásveitar, dags. 26. nóvember 2012.
d) Samþykkt stjórnar Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 1. október 2012.

Í yfirlitsbréfinu er fjallað ítarlega um þau skjöl sem tilheyra pakka 1. Hvað skjal a) og b) varðar, sem er eitt og sama skjalið, er með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 talið að ekki eigi að afhenda kæranda skjalið vegna einkahagsmuna Íslandsbanka hf. Skjal c) er tvíþætt, þ.e. annars vegar er um að ræða óundirritaðan kaupsamning milli Íslandsbanka hf. og Hörgársveitar og hins vegar undirritaðan kaupsamning milli sömu aðila. Vísað er til þess að skjölin varði einkahagsmuni bæði Íslandsbanka hf. og Hrauns í Öxnadal ehf. að verulegu leyti og þar að auki sé kveðið á um það í samningnum að hann skuli vera trúnaðarmál. Með vísan til þessa eigi 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 við bæði um undirritaðan samning og samningsdrögin. Þá kemur fram í yfirlitsbréfinu að skjal d) tilheyri Hrauni í Öxnadal ehf. og uppgjöri þess við Íslandsbanka hf. Skjalið fjalli um uppgjör bankans við félagið en ekki sé talið að félagið falli undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996. Þá er vísað til þess að vegna ákvæðis kaupsamnings um trúnað þurfi að afmá þrjár síðustu setningar skjalsins úr því verði það afhent með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. 

Þá kemur fram í yfirlitsbréfinu að gögnin í pakka 2 hafi þegar verið afhent kæranda og séu þau: Bréf Hrauns í Öxnadal ehf. til Hörgársveitar, dags. 6. ágúst 2010, mynd af afmörkun landspildu frístundasvæðis úr heimalandi Hrauns, hnits 7. desember 2012, bréf Hrauns í Öxnadal ehf. til Hörgársveitar, dags. 5. desember 2012, bréf Hörgársveitar til Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 23. janúar 2013 og mynd af afmörkun landspildu frístundasvæðis úr heimalandi Hrauns, hnits. 7. desember 2012.

Gögnin í pakka 3 eru eftirfarandi:
1. Bréf Hörgárbyggðar til Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 2. september 2003.
2. Bréf Hörgársveitar til Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 23. september 2011.
3. Bréf Hrauns í Öxnadal ehf. til Hörgársveitar, dags. 1. júlí 2011.
4. Bréf Hrauns í Öxnadal ehf. til Hörgársveitar, dags. 8. október 2011.
5. Fundarboð hluthafafundar Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 4. ágúst 2012.
6. Hluthafaskrá Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 31. desember 2010.
7. Samþykkt stjórnar Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 1. október 2012.
8. Skrá yfir skuldir Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 30. september 2012.
9. Kaupsamningur um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgársveitar, dags. september 2012 (óundirrituð drög).
10. Kaupsamningur um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgarásveitar, dags. 26. nóvember 2012.

Fram kemur í yfirlitsbréfinu að gögnin í pakka 3 séu gögn úr skjalaskáp Hörgársveitar er varða Hraun í Öxnadal ehf., merkt 3-1 til 3-10. Eftirfarandi kemur fram um þessi gögn:

„Hluti þessara gagna falla mögulega undir lið 2 í fyrirspurn kæranda, önnur gögn „sem til hafa orðið og eru í vörslum sveitarfélagsins vegna málefna hlutafélagsins og jarðarinnar undanfarin ár“, sem þýðir tímabilið frá maí 2012 til maí 2013. Ekki verður fjallað um þau skjöl sem urðu til fyrir maí 2012, sem eru skjal 3-1 til 3-6, enda fjalla öll þau gögn um einkamálefni félagsins Hrauns í Öxnadal og teljast ekki undir upplýsingalög nr. 50/1996.

3-7 til 3-10

Skjal 3-7 er einnig í pakka nr. 1, skjal d) og er vísað í umfjöllun þar.Skjal 3-8 er frá september 2012 og fjallar um skuldir félagsins Hrauns í Öxnadal ehf. Ekki fæst séð að þetta skjal falli undir upplýsingalög, þar sem það varðar aðeins einkahagsmuni hlutafélagsins, fjallar ekki um stjórnsýslustörf að neinu leyti né eignarhald sveitarfélagsins á félaginu. Varnaraðili telur því ekki sitt hlutverk að afhenda þetta skjal öðrum. Skjöl nr. 3-9 og 3-10 eru einnig í pakka 1, hluti c) og er vísað í umfjöllun þar.“ 

Gögnin í pakka 4 eru eftirfarandi:
1. Afsal milli Hrauns í Öxnadal ehf. og Íslandsbanka hf., dags, 19. apríl 2013.
2. Samkomulag milli Íslandsbanka hf. og Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 19. apríl 2013.
3. Bréf atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytis til Hrauns í Öxnadal ehf. vegna lausnar úr landbúnaðarnotum, dags. 6. febrúar 2013.
4. Kaupsamningur milli tíu einstaklinga annars vegar og Hrauns í Öxnadal ehf. hins vegar, dags. 8. júlí 2003.
5. Veðbandayfirlit frá Þjóðskrá Íslands fyrir Hraun land Hörgársveit,  fastanúmer 234-8008, prentað út 8. mars 2013.
6. Bréf atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytis til Hrauns í Öxnadal ehf. vegna lausnar úr landbúnaðarnotum, dags. 6. febrúar 2013.
7. Fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands vegna Hrauns land Hörgársveit, fastanúmer 234-8008, prentað út 8. mars 2013.
8. Bréf atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytis til Hrauns í Öxnadal ehf. vegna lausnar úr landbúnaðarnotum, dags. 6. febrúar 2013.
9. Bréf Hrauns í Öxnadal ehf. til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um lausn úr landbúnaðarnotum, dags. 29. janúar 2013.
10. Mynd af afmörkun landspildu frístundasvæðis úr heimalandi Hrauns, hnits. 7. desember 2012.
11. Mynd af afmörkun landspildu frístundasvæðis úr heimalandi Hrauns, hnits. 7. desember 2012.
12. Bréf Íslandsbanka hf. til Hörgársveitar vegna Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 3. september 2012. 
13. Bréf Íslandsbanka til Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 9. júlí 2012. 
14. Bréf Hrauns í Öxnadal ehf. til Hörgársveitar, dags. 5. desember 2012. 

Í yfirlitsbréfinu er fjallað um pakka 4 með eftirfarandi hætti:

„Varnaraðili telur að gera þurfi greinarmun á þeim gögnum sem varðaraðili kann að hafa undir höndum vegna stjórnsýslustarfa og svo vegna stjórnarsetu í einkahlutafélagi sem sinnir engu opinberu hlutverki. Þegar af þeirri ástæðu telur varnaraðili sér hvorki heimilt né skylt að afhenda þau gögn sem tilheyra pakka 4 sem er til staðar hjá sveitarfélaginu vegna stjórnarsetu þess í félaginu. 

Þessi gögn bárust á skrifstofu Hörgársveitar frá fyrrverandi stjórnarformanni Hrauns í Öxnadal ehf. eftir að fyrirspurn kæranda dags. 3. maí 2013 var svarað af sveitarstjóra þannig að í raun á ekkert þessara skjala undir fyrirspurn kæranda sem hún hefur nú kært til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Gögnin varða félagið sjálft og á engan hátt sveitarfélagið né samningagerð þess á nokkurn hátt, utan eins skjals sem gerð er grein fyrir undir pakka 1. Því telur sveitarfélagið að því sé hvorki skylt né heimilt að afhenda þessi gögn þar sem þau varða eingöngu félagið og heyra aðeins að litlum hluta undir upplýsingalög nr. 50/1996. Gögnin eru til staðar hjá sveitarstjórn þar sem sveitarfélagið á fulltrúa í stjórn Hrauns í Öxnadal ehf. og viðkoma ekki stjórnsýslustörfum sveitarfélagsins.“

Úrskurðarnefndin telur til skýringar rétt að taka fram að skjal 12 í pakka 4 tilheyrir einnig pakka 1 sem skjal a)-b) og skjöl 10, 11 og 14 í pakka 4 hafa þegar verið afhent kæranda sem hluti af pakka 2. 

Umsögn Hörgársveitar var send kæranda til athugasemda með tölvubréfi, dags. 8. júlí 2013. Með tölvubréfi, dags. 9. júlí, bárust athugasemdir hann þar sem kærandi vísar til þess að í málinu leitist hann við að fá upplýsingar um samningsgerð um kaup kærða á hlutfé í Hrauni í Öxnadal ehf. og upplýsingalög eigi við um þau gögn. Þau tengist beiðni um upplýsingar um umhverfismál en beiðnin varði landskipti fyrir frístundabyggð. Kærandi telur nauðsynlegt að sveitarfélagið afhendi tæmandi lista yfir gögn er varða þessi tvö atriði sem skýri hvaða gögn um ræði. Þá kemur þar eftirfarandi m.a. fram:

„Samningsgerð um kaup á hlutafé

Kærði hefur ekki veitt aðgang að neinum þeim gögnum er lúta að samningsgerð hans vegna kaupa á hlutabréfum í Hrauni í Öxnadal. Kærandi hefur því ekki upplýsingar um hið keypta hlutafé, kaupverð þess, aðra skilmála í tengslum við kaupin og forsendur.

Sveitarstjórnir fara samkvæmt lögum nr. 138/2011 með stjórn sveitarfélaga í umboði íbúa þess. Verkefni sveitarfélaga eru lögbundin og takmarkast við þau verkefni er talin eru til velferðarmála íbúa og annarra verkefna er varða íbúa þess og ekki eru öðrum falin að lögum. 

Kær[ði] misskilur að því er virðist upplýsingalög og/eða grundvöll beiðni kæranda. Beiðnin um gögn varða samningsgerð sveitarstjórnar Hörgársveitar og kæran er byggð á því að um það gildi upplýsingalög. Gildissvið upplýsingalaga er annað en stjórnsýslulaga, og takmarkast ekki við það þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt og skyldu manna, heldur taka þau til „hvers konar þjónustustarfsemi, samningsgerðar og annarrar starfsemi“, líkt og segir í athugasemdum með 1. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 50/1996.

Kærði hefur ekki veitt aðgang að upplýsingum um hvernig sveitarstjórn fór með vald sitt er hún gerði samning um yfirtöku á hlutafé í umræddu hlutafélagi og hefur enn ekkert staðfest um hvort sú samningsgerð stóð í einhverju sambandi við tilgreind landskipti í frístundahúsabyggð eða ekki. Andmæli af hálfu sveitarstjórnarinnar hafa ekki varpað neinu frekara ljósi á þessa samningsgerð af hálfu sveitarfélagsins. Andmælin geyma almenna tilvísun til 5. gr. laganna án þess að kærandi sé nokkuð nær um það hverja mikilvægu fjárhags- eða viðskiptahagsmuni kærði telur um að tefla. Geyma andmælin ítrekaðar tilvísanir til einkahagsmuna, án þess að fram hafi komið að málið varði neina einstaklinga sbr. fyrri málsliður 5. gr.

Kærði hefur m.a. borið því við að í hluta af gögnunum sé að finna upplýsingar er varða viðskipti Hrauns í Öxnadal ehf. við Íslandsbanka og telur þau vera einkamálefni. Um þetta atriði getur kærandi ekki tjáð sig þar sem ekki liggur fyrir hvers eðlis upplýsingarnar eru, en bendir á að ef viðskipta- eða einkahagsmunir eiga við um eitthvað af þeim gögnum sem um ræðir má ætla að hægur vandi sé að má þær út úr þeim hluta gagnanna er um kann að vera að ræða. Orðalag kæru „Vera kann að Íslandsbanki telji í gögnum málsins felast upplýsingar um kjör félagsins Hrauns eða aðra viðskiptaupplýsingar sem ekki eiga erindi við aðra“, bendir því til þess að kærði hafi ekki aðeins látið undir höfuð leggjast að inna þáverandi stjórn Hrauns í Öxnadal ehf. eftir því hvort hún samþykkir að veita aðgang að hugsanlegum trúnaðarmálum, heldur hafi Íslandsbanki heldur ekki verið spurður. Virðist það stangast á við ákvæði upplýsingalaga, sem sem þau hafa verið skýrð með vísan til frumvarpsins.

Hugleiðingar kærða um að hann hafi í vörslum sínum gögn er varða jörðina Hraun og hlutafélagið viðast enn og aftur byggðar á þeim misskilningi að gögn um hlutafélagið geti ekki fallið undir upplýsingalög. Svo virðist sem kærði telji gögn um landskiptin vera einu gögnin er varða hlutafélagið Hraun í Öxnadal sem kærði hafi undir höndum og eigi undir upplýsingalög. Kærandi hafnar alfarið þeirri lagatúlkun. 

Landskipti, sumarhús og efnissvið laga nr. 23/2006

Af því er varðar vangaveltur kærða um hvort lög nr. 23/2006 eigi við í málinu, er ítrekað það sem fram kom í kæru. Þá er vísað til þeirra staðreynda að kærði virðist nýlega hafa samþykkt að eitt af mestu frístundabyggðarsvæðum í sveitarfélaginu skuli í framtíðinni vera staðsett á svæði sem er [á] náttúruminjaskrá vegna þess að það þykir æskilegt að friðlýsa vegna landslagsverndar m.a. og er auk þess innan jarðar sem að mestu er fólkvangur skv. sérstakri friðlýsingu.“

Kærandi fjallar því næst um gildandi aðalskipulag á svæðinu og að heimild til að skipuleggja 20 sumarhús, og úrskiptingu lands sem sé á náttúruminjaskrá, varði umhverfismál Hörgársveitar. Þá kemur þar eftirfarandi m.a. fram:

„Af tilgangi laga nr. 23/2006 og einkum þó af skýru orðalagi 3. sbr. 1. tl. 1. gr. laganna er ljóst að samningsgerð, skipulag, áætlanir og ráðstafanir stjórnvalda sem líkleg eru til að hafa áhrif á land, landslag og náttúruminjar heyra undir lögin.

Miðað við ofangreint þá þykir kæranda það síður en svo langsótt að álykta í kæru að lög nr. 23/2006 eigi við um skipulagsákvarðanir er varða þessi landskipti og frístundabyggð (og þann þátt samningsgerðar kærða um kaup á hlutafé er varðar þessa úrskiptingu lands og frístundabyggð, ef marka má óstaðfestar frásagnir og þær brotakenndu upplýsingar sem lesa má úr þeim fundargerðum sem vísað er til í kæru). Hafnað er lagatúlkun kærða að þessu leyti.

Hafnað er vangaveltum kær[ða] um að tilgreina hafi þurft ástæður upplýsingabeiðni. Kærandi óskaði með skýrum hætti eftir gögnum er vörðuðu samningsgerð kærða varðandi kaup á hlutafé í Hrauni í Öxnadal ehf. (að því er virðist sem hluta af lausn á fjárhagsvanda sveitarfélagsins) sem og upplýsingum er vörðuðu beiðni um landskipti vegna fyrirhugaðrar frístundabyggðar, sem virðist vera tengd samningsgerðinni, eftir því sem næst verður komist, þó það hafi enn ekki verið staðfest með beinum hætti af kærða. Beiðninni var beint að réttum aðila og var skýrt sett fram.“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.

Kærandi hefur annars vegar vísað til upplýsingalaga nr. 50/1996 og hins vegar til laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál beiðni sinni til stuðnings. 

Ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 28. desember 2012. Með þeim féllu úr gildi að stærstum hluta ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 35. gr. hinna nýju laga. Þegar Hörgársveit tók hina kærðu ákvörðun voru enn í gildi eldri upplýsingalög nr. 50/1996 hvað varðar sveitarfélög með undir 1.000 íbúa, sbr. 4. mgr. 35. gr. hinna nýju laga, en Hörgársveit fellur þar undir.

Upplýsingalög nr. 50/1996 gilda um öll fyrirliggjandi gögn stjórnvalda sem varða tiltekið mál. Lög nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál hafa aftur á móti annað gildissvið þar sem þau gilda einvörðungu um upplýsingar um umhverfismál og er þeim sem falla undir lögin skylt á grundvelli 5. gr. þeirra að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr. m.a. vegna ákvæða upplýsingalaga um gögn sem heimilt er og/eða skylt að synja almenningi um aðgang að. Ekki er skylt að afla sérstaklega upplýsinga til þess að láta almenningi þær í té nema ástand sé yfirvofandi sem haft geti skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýr. 

Hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál er að úrskurða um ágreining sem til hennar er beint vegna synjunar stjórnvalda um aðgang að gögnum, sbr. áður 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, og nú 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, og ákvæði 15. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál. Af þessu leiðir að endurskoðun úrskurðarnefndarinnar lýtur að því hvort hin kærða ákvörðun hafi verið rétt að teknu tilliti til þeirra efnisreglna um upplýsingarétt sem í gildi voru þegar hún var tekin. Meðferð úrskurðarnefndarinnar á kærumálinu lýtur hins vegar, frá og með gildistöku hinna nýju upplýsingalaga nr. 140/2012, þeim reglum um form og hlutverk úrskurðarnefndarinnar sem þar koma fram.

2.

Af 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er ljóst að stjórnvaldi er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna.
 
Hörgársveit hefur afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál fjölda gagna og eru þau listuð upp í málsmeðferðarkafla hér að framan. Hluti þeirra gagna hefur þegar verið afhentur kæranda, þ.e. öll gögn í pakka 2, en þau gögn eru einnig að finna í öðrum skjalapökkum sem gagn nr. 7 í pakka 3 og gögn nr. 10, 11 og 14 í pakka 4. Þá hefur Hörgársveit afhent úrskurðarnefndinni gögn sem falla ekki undir beiðni kæranda vegna aldurs þeirra, þ.e. gögn nr. 1-6 í pakka 3, en kærandi óskaði aðeins afrits af skjölum sem vísað er í tilgreindum bókunum fundargerða og annarra gagna vegna Hrauns í Öxnadal ehf. sem orðið hafa til undanfarið ár, þ.e. eftir 3. maí 2012, og tengjast þeirri umfjöllun. Ennfremur var hluta þeirra gagna sem afhent voru úrskurðarnefndinni aflað eftir að beiðni kæranda um aðgang að gögnum kom fram, þ.e. gögn nr. 1-9 og 13 í pakka 4. Með vísan til ákvæðis 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er ljóst að ágreiningurinn sem hér um ræðir getur aðeins tekið til gagna sem falla undir upplýsingabeiðni kæranda og voru til þegar beiðnin var sett fram, þ.e. voru fyrirliggjandi í skilningi ákvæðisins, og hafa ekki þegar verið afhent kæranda. 

Þau gögn sem hér um ræðir eru gögn a)-d) í pakka 1 og gagn nr. 8 í pakka 3, sbr. einnig sömu gögn nr. 9 og 10 í pakka 3 og gagn nr. 12 í pakka 4. Um er að ræða eftirfarandi gögn:

• Bréf Íslandsbanka hf. til Hörgársveitar vegna Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 3. september 2012. 
• Kaupsamningur um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgársveitar, dags. september 2012 (óundirrituð drög).
• Skrá yfir skuldir Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 30. september 2012.
• Samþykkt stjórnar Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 1. október 2012.
• Kaupsamningur um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgársveitar, dags. 26. nóvember 2012.

Framangreind gögn tengjast öll kaupum Hörgársveitar á eignarhluta Íslandsbanka hf. í félaginu Hrauni í Öxnadal ehf. Þau tilheyra máli í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1996 og fer um úrlausn máls þessa eftir þeim lögum, sbr. 4. mgr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Lög nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál hafa hér ekki þýðingu, enda verður ekki séð að þau gögn sem hér um ræðir varði umhverfismál í skilningi þeirra laga.

3.

Hörgársveit synjaði kæranda um aðgang að framangreindum gögnum m.a. á þeim grundvelli að um væri að ræða gögn einkahlutafélags sem félli ekki undir upplýsingalög þar sem félagið tæki ekki ákvarðanir um rétt eða skyldur manna. Hörgársveit hefur í því sambandi vísað til 2. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. 

Í I. kafla upplýsingalaga nr. 50/1996 er kveðið á um gildissvið laganna. Í 1. mgr. 1. gr. kemur fram að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að lögin gildi jafnframt um einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þá er í 2. gr. fjallað um gildissvið gagnavart öðrum lögum og þjóðréttarsamningum. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps sem varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 kemur fram að „[ö]fugt við stjórnsýslulög er ekki gerður neinn greinarmunur á því hvers eðlis sú starfsemi er sem stjórnvöld hafa með höndum. Lögin taka því ekki einvörðungu til þess þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt og skyldu manna, sbr. 1. gr. stjórnsýslulaga, heldur og til hvers konar þjónustustarfsemi, samningsgerðar og annarrar starfsemi.“ 

Með vísan til þessa er ljóst að upplýsingalög nr. 50/1996 taka til stjórnvaldsins Hörgársveitar og er Hörgársveit skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. Breytir hér engu þótt einkahlutafélagið Hraun í Öxnadal kunni að falla utan gildissviðs upplýsingalaga, líkt og Hörgársveit hefur byggt á í synjun sinni um afhendingu gagna, enda lýtur mál þetta ekki að því að Hraun í Öxnadal ehf. hafi synjað beiðni um upplýsingar, heldur að gögnum sem eru í vörslu Hörgársveitar. 

4.

Í málsmeðferðarkafla hér að framan eru talin upp öll þau gögn sem Hörgársveit hefur afhent nefndinni þótt sveitarfélagið hafi vísað til þess að um tilvist gagnanna eigi að gilda trúnaður. Upplýsingaréttur almennings tekur m.a. til lista yfir málsgögn, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Upplýsingar um það hvaða gögn eru til í fórum stjórnvalda eru í eðli sínu ekki upplýsingar sem eðlilegt er að leynt fari en aftur á móti getur verið rétt og heimilt að synja um afhendingu þeirra með vísan til ákvæða 4.-6. gr. laganna. Með vísan til þessa eru gögnin tilgreind í málsmeðferðarkaflanum. 

Sem fyrr segir lýtur mál þetta að afhendingu á:

• Bréfi Íslandsbanka hf. til Hörgársveitar vegna Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 3. september 2012. 
• Kaupsamningi um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgársveitar, dags. september 2012 (óundirrituð drög).
• Skrá yfir skuldir Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 30. september 2012.
• Samþykkt stjórnar Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 1. október 2012.
• Kaupsamningi um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgarásveitar, dags. 26. nóvember 2012.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið framangreind gögn og í því sambandi horft til þess hvort 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 standi því í vegi að þau verði afhent kæranda. Í ákvæðinu kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem eigi í hlut. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Í bréfi Íslandsbanka hf. til Hörgársveitar vegna Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 3. september 2012, kemur fram að bankinn hafi áhuga á því að afhenda Hörgársveit eignarhlut sinn í félaginu. Ódagsett drög og kaupsamningur um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgarásveitar, dags. 26. nóvember 2012, lúta að framangreindu. Þar kemur fram hver sé hlutur bankans í félaginu, hvað Hörgársveit greiði fyrir hlutinn og hvaða skilyrði séu sett fram. Samþykkt stjórnar Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 1. október 2012, lýtur að framangreindri yfirtöku Hörgársveitar á eignarhlut Íslandsbanka hf. Skrá yfir skuldir Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 30. september 2012, inniheldur upplýsingar um skuldir við Hörgársveit, Orkusöluna, Rarik, Vís og Securitas.

Eins og fram hefur komið er félagið Hraun í Öxnadal ehf. eigandi jarðarinnar Hrauns. Í atvinnugreinaflokkun ríkisskattstjóra er félagið í flokki 90.04.0 „Rekstur húsnæðis og aðstöðu fyrir menningarstarfsemi“. Hörgársveit á nú meirihluta í félaginu. Með vísan til þessa og að virtum gögnum málsins fæst ekki séð að þær upplýsingar sem fram koma í þeim gögnum sem hér um ræðir séu þess eðlis að það geti varðað fjárhags- og viðskiptahagsmuni félagsins verði þær gerðar opinberar. Úrskurðarnefndin lítur til þess að um er að ræða upplýsingar sem lúta með beinum hætti að ráðstöfun opinberra fjárhagslegra hagsmuna og skipulagi lands innan marka sveitarfélagsins. 

Þá er það afstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið sýnt fram á að þær upplýsingar sem fram koma í gögnunum séu til þess fallnar að valda samningsaðila Hörgársveitar, Íslandsbanka hf., tjóni verði þær gerðar opinberar. Umræddur samningur milli þessara aðila og samningsdrög er það frábrugðinn almennum samningum um sölu á eignarhlutum í félögum að ekki verður séð að afhending þeirra geti skaðað fjárhags- eða viðskiptahagsmuni bankans í samningsgerð við aðra aðila. Samningurinn er sérstæður í þeim skilningi að hann verður vart borinn saman við almenna samninga um sölu eignarhluta í einkahlutafélögum. 

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þegar vegnir eru saman þeir hagsmunir Hrauns í Öxnadal ehf. og Íslandsbanka hf. af því að synjað verði um aðgang að framangreindum gögnum annars vegar og þeir mikilvægu almannahagsmunir sem felast í aðgangi almennings að upplýsingum um ráðstöfun opinberra hagsmuna hins vegar standi lagarök ekki til þess að heimilt sé að synja um aðgang að gögnunum á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Breytir engu þótt vera kunni „að Íslandsbanki telji í gögnum máls felast upplýsingar um kjör félagsins Hrauns eða aðrar viðskiptaupplýsingar sem ekki eiga erindi við aðra“ eins og Hörgársveit vísar til í bréfi sínu, dags. 5. júlí sl. 

5.

Kærandi hefur vísað til þess að hún og eiginmaður hennar eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sem eigendur jarðarinnar Hóla í Öxnadal, sem er gegnt jörðinni Hrauni í Öxnadal. Jarðirnar séu báðar hluti af sama svæði á náttúruminjaskrá og að fyrir hendi séu bæði ríkir einka- og almannahagsmunir af því að upplýst verði um efnisatriði samkomulagsins. 

Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 50/1996 sagði að stjórnvöldum væri skylt, væri þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem vörðuðu tiltekið mál ef þau hefðu að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Af lögskýringargögnum má ráða að þetta getur átt við persónuupplýsingar í skilningi laga um meðferð slíkra upplýsinga. Lög nr. 77/2000 leystu lög nr. 121/1989 af hólmi en í þeim er hugtakið persónuupplýsingar skilgreint í 1. tölul. 2. gr. Það er mjög vítt og þótt það taki fyrst og fremst til upplýsinga, sem beinlínis eru um tiltekinn mann, geta aðrar upplýsingar gert það ef þær snerta hann og hafa slík tengsl við hann að vinnsla með þær getur haft áhrif á hagsmuni hans. Það á ekki við um gögn máls þessa og því lítur úrskurðarnefnd um upplýsingamál svo á að þau hafi ekki að geyma upplýsingar um kærendur sjálfa, í skilningi 1. mgr. 9. gr. laga nr. 50/1996. Gildir sú grein því ekki um aðgang þeirra að gögnunum.

6.

Með vísan til framangreinds og meginreglu 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 um upplýsingarétt almennings ber Hörgársveit að afhenda kæranda afrit af bréfi Íslandsbanka hf. til Hörgársveitar vegna Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 3. september 2012, afrit af kaupsamningi um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgársveitar, dags. september 2012 (óundirrituð drög), afrit af skrá yfir skuldir Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 30. september 2012, afrit af samþykkt stjórnar Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 1. október 2012 og afrit af kaupsamningi um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgársveitar, dags. 26. nóvember 2012.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu þykir ekki ástæða til að fjalla um aðrar málsástæður sem hafðar hafa verið uppi vegna málsins.

Úrskurðarorð

Hörgársveit ber að afhenda A afrit af bréfi Íslandsbanka hf. til Hörgársveitar vegna Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 3. september 2012, afrit af kaupsamningi um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgársveitar, dags. september 2012 (óundirrituð drög), afrit af skrá yfir skuldir Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 30. september 2012, afrit af samþykkt stjórnar Hrauns í Öxnadal ehf., dags. 1. október 2012 og afrit af kaupsamningi um hlutafé milli Íslandsbanka hf. og Hörgársveitar, dags. 26. nóvember 2012.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður


Sigurveig Jónsdóttir

Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta