Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2014 Forsætisráðuneytið

A-516/2014. Úrskurður frá 13. febrúar 2014

Úrskurður

Hinn 13. febrúar 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-A516/2014 í máli ÚNU13090003.

Kæra og málsatvik

Með bréfi, dags. 28. ágúst 2013, kærði [A] synjun Ríkiskaupa á beiðni hans um gögn. Í kærunni segir:

„Vísað er í bréf frá Ríkiskaupum dags. þann 16. ágúst sl., þar sem það kemur fram, að undirrituðum sé synjað um staðfest afrit af samningum er gerðir voru milli GlaxoSmithKline ehf. og Embættis landlæknis, er hér óskað eftir að úrskurðað verði í þessu máli [til] að fá þessi gögn frá Ríkiskaupum.

Undirritaður vill geta þess hér að hann vill fá þessi gögn frá Ríkiskaupum en ekki frá landlækni, þar sem hann vill ekki að landlæknir hafi neina aðkomu að málinu. Þar sem að menn hafa upplifað vonbrigði, sárindi og leiðindi með [að] hafa lagt inn mál til Embættis landlæknis […] Undirrituðum er ekki kunnugt um að bannað sé að fá þessi gögn frá Ríkiskaupum, en skv. lögfr. hjá Umboðsmanni Alþingis, þá þarf að úrskurða með fá þessi gögn frá Ríkiskaupum, þar sem að undirrituðum var synjað um gögnin hjá Ríkiskaupum, því er málið lagt inn til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.“

Með kærunni fylgdi afrit af umræddri synjun, dags. 16. ágúst 2013. Þar segir m.a.:

Ríkiskaup vísa til bréfs dags. 5. ágúst sl. þar sem óskað er eftir afritum af rammasamningum 2143 og 2144, útboðslýsingu Ríkiskaupa nr. 14042 og tilboðum GlaxoSmithKline dags. 12. júní 2012 merktum GSK-1 og GSK-2. Vísað er til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál A-[431] frá 28. júní 2012. Ríkiskaup vísa til 17. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007 varðandi trúnaðarskyldu og hafna því að afhenda rammasamninga við tiltekin fyrirtæki og tilboð einstakra fyrirtækja. „Þess ber einnig að geta að það er landlæknir en ekki Ríkiskaup sem tilvitnaður úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-431 beinist að. Í bréfi þínu er ekki tekið fram hvort reynt var að fá gögnin afhent hjá landlækni skv. úrskurðinum. Ríkiskaup telja æskilegt ef þú óskar eftir frekari gögnum, að útskýrt verði ef við á, hvers vegna óskað er eftir gögnum hjá Ríkiskaupum sem annar opinber aðili hefur verið úrskurðaður að afhenda.“

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 10. september 2013, var Ríkiskaupum gefinn kostur á að tjá sig um framangreinda kæru. Í svari til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. október 2013, segir m.a.:

„Ríkiskaup vísa til svarbréfs Ríkiskaupa til kæranda dags. 16. ágúst 2013. Þar er óskað eftir því að hann upplýsi hvers vegna hann reynir ekki að fá afhent umbeðin gögn hjá þeim aðila er úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál beinist að. Sjá úrskurð A-431/2012 þar sem landlæknir er úrskurðaður til að afhenda þau gögn sem Ríkiskaup eru beðin um nú.

Hér er um að ræða gögn er varða viðskipti landlæknis og einkafyrirtækja á grundvelli útboðs sem Ríkiskaup sáu um.

Í niðurlagi bréfs Ríkiskaupa 16. ágúst sl. kemur fram að Ríkiskaup telja æskilegt að kærandi útskýri hvers vegna hann óskar eftir þessum gögnum hjá Ríkiskaupum þegar annar opinber aðili hefur verið úrskurðaður til að afhenda þau. Jafnframt er útboðslýsing nr. 14042 send skv. beiðni þar um.Það er heilmikil vinna fólgin í því að grafa upp gögn sem eru orðin nokkurra ára gömul. Ríkiskaup telja að þar sem Landlæknir hefur verið úrskurðaður til að afhenda gögnin, þá eigi kærandi að snúa sér þangað. Ástæða er til að kanna hvort Landlæknir hefur þegar afhent kæranda gögnin.

Kærandi útskýrir reyndar að hann vilji fá þessi gögn frá Ríkiskaupum en ekki frá Landlækni þar sem menn hafi upplifað vonbrigði, sárindi og leiðindi með að hafa lagt inn mál hjá embætti Landlæknis. Ríkiskaup telja þetta vafasamar ástæður til að óska eftir gögnum hjá Ríkiskaupum þegar Landlæknir hefur þegar verið úrskurðaður til að afhenda þau.“

Með umsögninni fylgdi afrit af þeirri gagnabeiðni sem kærandi hafði upphaflega sent Ríkiskaupum, dags. 5. ágúst 2013. Þar segir:

„Vegna áhuga er óskað eftir gögnum og vísað er í því sambandi á úrskurð Úrskurðarnefndar um upplýsingamál A-431 frá 28. júní 2012, þar sem úrskurðað hefur að almenning[i] sé heimilaður aðgangur að þessum eftirtöldum gögnum, því er hér óskað eftir staðföstu endurriti af eftirtöldum gögnum sem hér segir:

Rammasamningur númer 2143, undirritaður þann 25. september 2009
Rammasamningur númer 2144, undirritaður þann 2. október 2009
Útboðslýsing á útboði Ríkiskaupa númer 14042
Tilboð GlaxoSmithKline ehf. dags. þann 12. júní 2012, merkt GSK-1
Tilboð GlaxoSmithKline ehf. dags. þann 12. júní 2012, merkt GSK-2.“

Með umsögninni fylgdi einnig afrit af framangreindri synjun Ríkiskaupa, dags. 16. ágúst 2013. 

Kæranda var með bréfi, dags. 12. nóvember 2013, gefinn kostur á að tjá sig um framangreinda umsögn. Þess var sérstaklega óskað að í svari kæranda kæmi fram hvort beiðni hans lyti að þeim gögnum sem úrskurðað var um, hinn 28. júní 2012, sbr. úrskurð nr. A-431/2012. Ef hún lyti að öðrum gögnum var beðið um að fram kæmi fram hvaða gögn það væru. Í svari hans, dags. 29. nóvember, segir m.a.: 

„Undirritaður endurtekur fyrri óskir að hann vilji fá þessi gögn til að skoða þau og athuga, en ef Ríkiskaup vill ekki afhenda þau, þá er óskað eftir að úrskurðað verði með að fá gögnin.“ 

Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Ríkiskaupa á beiðni kæranda um að fá afrit af rammasamningi nr. 2143, dags. 25. september 2009, rammasamningi nr. 2144, dags. 2. október 2009, útboðslýsingu vegna útboðs nr. 14042 og tilboðum GlaxoSmithKline ehf., dags. 12. júní 2012,  merktum GSK-1 og GSK-2.

Hinn 28. júní 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð nr. A-431/2012 í máli vegna synjunar landlæknis um að afhenda afrit af gögnum er vörðuðu annars vegar rammasamning nr. 2143, dags. 25. september 2009, og hins vegar gögn varðandi rammasamning nr. 2144, dags. 2. október 2009. Þar segir í úrskurðarorði:

„Landlækni ber að afhenda kæranda, [A], eftirtalin gögn:
(1) Rammasamning nr. 2143, dags. 25. september 2009, um kaup á bóluefninu NeisVac C af Icepharma hf. í heild sinni.
(2) Tilboð Icepharma, dags. 13. júní 2006, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi, þó að því undanskildu að kæranda skulu ekki afhentir þrír viðaukar með tilboðinu sem bera yfirskriftirnar „NeisVac-C –Clinical Summary“, „Expert Statement for Neis Vac-C regarding Post-Marketing Surveillance“ og „Experience and Reliability in Vaccine Government Contracts“.
(3) Rammasamning nr. 2144, dags. 2. október 2009, um kaup á tilgreindum bóluefnum af GlaxoSmithKleine ehf. í heild sinni.
(4) Tilboð GlaxoSmithKleine ehf., dags. 12. júní 2006, og auðkennt GSK-1, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi.
(5) Tilboð GlaxoSmithKleine ehf., dags. 12. júní 2006, og auðkennt GSK-2, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi.

Jafnframt ber Landlækni að afhenda kæranda, [A], útboðslýsingu vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum á Íslandi, sé hún fyrirliggjandi hjá embættinu.“

Borið hefur verið undir kæranda hvort beiðni hans lúti að þeim gögnum sem úrskurðað var um í framangreindum úrskurði. Í svari hans, dags. 29. nóvember 2013, kemur fram að hann endurtaki fyrri ósk um gögn og með fylgdi m.a. afrit af upphaflegri beiðni hans, dags. 5. ágúst 2013. Telst því óumdeilt að beiðnin varði gögn sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur þegar úrskurðað um að vera skuli almenningi aðgengileg.

Ríkiskaup hafa í fyrsta lagi stutt synjun sína með vísun til 17. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007. Sú lagagrein hljóðar svo:

„Kaupanda er óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem fyrirtæki hefur lagt fram sem trúnaðarupplýsingar. Til slíkra upplýsinga teljast einkum tækni- og viðskiptaleyndarmál auk þeirra atriða í tilboði sem leynt skulu fara.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef annað leiðir af fyrirmælum laganna, sbr. einkum þau ákvæði sem kveða á um skyldu til að birta opinberlega tilkynningu um gerð samnings á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 4. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar, og upplýsa þátttakendur og bjóðendur um tiltekin atriði, sbr. 41. og 71. gr. tilskipunarinnar, sem og skyldu til að veita kærunefnd útboðsmála upplýsingar, sbr. 5. mgr. 95. gr.
Ákvæði 1. mgr. hefur ekki áhrif á skyldu opinbers aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga.“

Af 3. mgr. 17. gr. laga nr. 84/2007 leiðir að synjun Ríkiskaupa, um að veita kæranda umbeðin gögn, verður ekki reist á henni. 

Hins vegar hafa Ríkiskaup einnig vísað til þess að það sé landlæknir en ekki Ríkiskaup, sem umræddur úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-431/2012 hafi beinst að. Úrskurðir úrskurðarnefndar um upplýsingamál eru aðfararhæfir skv. 3. mgr. 23. gr. upplýsingalaga. Þótt vera þyki nærtækt fyrir kæranda að nýta sér þau fullnustuúrræði liggur ekki fyrir að hann æski þess að fá umrædd gögn þaðan heldur hefur hann óskað þess að fá þau frá Ríkiskaupum. 

Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál. Ekki liggur fyrir að nein af þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. eigi við í máli þessu. Í 16. gr. er fjallað um hvert beiðni um gögn skuli beint. Í fyrri málslið 1. mgr. segir að sé farið fram á aðgang að gögnum í máli þar sem taka eigi eða tekin hafi verið stjórnvaldsákvörðun skuli beina beiðni til þess sem hafi eða muni taka ákvörðun í málinu. Þar sem mál þetta lýtur að afhendingu gagna varðandi útboð og samningsgerð, skv. lögum nr. 84/2007 um opinber innkaup, á þessi málsliður ekki við. Í öðrum tilvikum skal, sbr. seinni málslið, beina beiðni til þess aðila sem hefur gögnin í vörslu sinni. Af hálfu Ríkiskaupa hefur ekki komið fram að það hafi þau ekki í vörslu sinni. Þá lítur úrskurðarnefnd um upplýsingamál svo á að aðila sé í sjálfsvald sett til hvaða stjórnvalds hann beini ósk sinni um aðgang að gögnum, hafi fleiri en eitt stjórnvald þau í vörslu sinni. 

Með vísun til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Ríkiskaupum beri að afhenda kæranda þau gögn sem talin eru upp í úrskurðarorði í úrskurði nr. A-431/2012, önnur en þau gögn er varða tilboð Icepharma, dags. 13. júní 2006, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042, enda  nær kæra máls þessa ekki til þeirra.

Úrskurðarorð

Ríkiskaupum ber að afhenda kæranda þau gögn sem talin eru upp í úrskurðarorði í úrskurði nr. A-431/2012 og hafa ekki þegar verið, af hálfu Ríkiskaupa, afhent kæranda. Gögnin eru eftirtalin:

(1) Rammasamningur nr. 2143, dags. 25. september 2009, um kaup á bóluefninu NeisVac C af Icepharma hf. í heild sinni.
(2) Rammasamningur nr. 2144, dags. 2. október 2009, um kaup á tilgreindum bóluefnum af GlaxoSmithKleine ehf. í heild sinni.
(3) Tilboð GlaxoSmithKleine ehf., dags. 12. júní 2006, og auðkennt GSK-1, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi.
(4) Tilboð GlaxoSmithKleine ehf., dags. 12. júní 2006, og auðkennt GSK-2, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi.
(5) Útboðslýsing vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum á Íslandi.


Hafsteinn Þór Hauksson,formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                            

Friðgeir Björnsson                   


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta