Hoppa yfir valmynd
5. júní 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 166/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 166/2024

Miðvikudaginn 5. júní 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. apríl 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. apríl 2024, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar og að innheimta ofgreiddar bætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 25. apríl 2023 og var umsóknin samþykkt með 75% bótarétti. Við reglubundið eftirlit kom í ljós að kærandi var skráð í 29 eininga nám við B á vorönn 2024. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 19. mars 2024, var óskað eftir að kærandi legði fram skólavottorð og ástæðu þess að hún hefði ekki upplýst stofnunina um nám sitt. Skýringar bárust frá kæranda sama dag. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. apríl 2024, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2024, að fjárhæð 694.905 kr., auk álags.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. apríl 2024. Með bréfi, dags. 11. apríl 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 14. maí 2024, og var hún kynnt kæranda 15. maí 2024 með bréfi úrskurðarnefndar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru óskar kærandi eftir því að fallið verði frá ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar bætur eða að 15% álag sem lagt hafi verið á endurgreiðslukröfuna verði fellt niður.

Kærandi greinir frá því að hún hafi ekki vitað af skyldu sinni til að upplýsa Vinnumálastofnun um námið þar sem um ólaunað starfsnám hafi verið að ræða.

Þann 19. mars 2024 hafi kærandi fengið bréf frá stofnuninni þar sem óskað var eftir að hún skilaði skólavottorði og skýringum á því hvers vegna hún hefði ekki upplýst stofnunina um nám sitt. Kærandi greinir frá því að hún hafi ekki vitað af þessari skyldu sinni en hafi sagst vera reiðubúin að skila inn frekari gögnum væri þess óskað. Kærandi hafi þó ekki vitað að námssamningur þyrfti að liggja fyrir milli hennar og Vinnumálastofnunar.

Þann 8. apríl 2024 hafi kærandi fengið bréf frá Vinnumálastofnun um að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar, auk þess sem krafist væri að hún endurgreiddi ofgreiddar bætur að fjárhæð 799.140 kr., að meðtöldu 15% álagi. Það hafi komið kæranda mjög á óvart þar sem hún hafi ekki vitað af skyldu sinni til að upplýsa um ólaunað starfsnám í C. Þá sé um að ræða endurgreiðslukröfu á hárri fjárhæð. Kærandi hafi verið án vinnu og þurft á umræddum bótum að halda til að greiða fyrir leigu og annað.

Kærandi sé í virkri atvinnuleit að fullu starfi eða kvöld- og helgarvinnu. Hún muni tilkynna Vinnumálastofnun ef hún fái atvinnu.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um  atvinnuleysistryggingar hjá Vinnumálastofnun þann 25. apríl 2023. Með bréfi, dags. 23. maí 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt með 75% bótarétti. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi hún hætt störfum hjá vinnuveitanda í maí 2023.

Við reglubundið eftirlit hafi komið í ljós að kærandi hefði verið skráð í 29 eininga nám á vorönn 2024 við B, samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga. Enginn námssamningur hafi legið fyrir á milli kæranda og Vinnumálastofnunar. Með erindi, dags. 19. mars 2024, hafi verið óskað eftir því að kærandi skilaði skólavottorði þar sem umfang náms hennar væri tilgreint, ásamt skýringum á því hvers vegna hún hefði ekki upplýst Vinnumálastofnun um nám sitt.

Sama dag, þann 19. mars 2024, hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Kærandi hafi kveðist vera mjög virk í starfsleit og hafa sótt um fjölda starfa. Kærandi hafi greint frá því að hún væri í ólaunuðu starfsnámi í C en hafi láðst að láta stofnunina vita af því. Vinnumálastofnun hafi borist því til stuðnings bæði námssamningur um starfsnám C milli kæranda og B, dags, 1. mars 2024. Stofnuninni hafi einnig borist skólavottorð, dags. 20. mars 2024, hvar kærandi hafi verið sögð vera skráð í 29 eininga nám. Þá hafi jafnframt borist skráningareyðublað í nám á D þar sem fram kæmi að kærandi væri skráð þar í nám fyrir tímabilið 8. apríl 2024 til 15. maí sama ár.

Með erindi, dags. 8. apríl 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hún hefði stundað nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga hefði hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins janúar 2024 til mars 2024, sem næmu 694.905 kr., auk álags, sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi kæranda einnig verið tilkynnt að greiðslur til hennar hefðu verið stöðvaðar á grundvelli 52. gr. laganna.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í c. lið 3. gr. laganna sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:

„Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar kveðið á um nám. Í 1. mgr. 52. gr. segi orðrétt:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c. lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.“

Ljóst sé af ákvæði 1. mgr. 52. gr. að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum með 52. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé tiltekið að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða fjarnám, dag- eða kvöldskóla.

Í 2. mgr. 52. gr. laganna sé þó að finna heimild fyrir atvinnuleitendur til að stunda nám sem nemi að hámarki 12 einingum. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.“

Þá segi í 4. mgr. sömu greinar að Vinnumálastofnun sé heimilt að meta ólánshæft nám, sem skipulagt sé samhliða vinnu, þannig að ekki komi til skerðingar svo fremi sem námið hindri ekki virka atvinnuleit né þátttöku í vinnumarkaði. Ljóst sé að 36 stunda vinnuvika á dagvinnutíma komi til með að hindra hvoru tveggja.

Fyrir liggi að kærandi hafi skráð sig í og stundað 29 eininga nám við B á vorönn 2024, á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um þessa tilhögun og enginn námssamningur hafi verið gerður við stofnunina vegna umrædds náms. Þá eigi undanþáguákvæði 3. til 5. mgr. 52. gr. laganna ekki við í tilfelli kæranda.

Með vísan til 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé því ljóst að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar til 31. mars 2024. Í 39. gr. laganna sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. 39. gr. segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreinds hafi kæranda borið að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún hafi fengið greiddar fyrir tímabilið [1. janúar til 31. mars 2024], samtals 694.905 kr. auk álags, enda liggi fyrir að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á umræddu tímabili, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Heildarskuld kæranda nemi 789.535 kr., þar af sé álag að fjárhæð 104.235 kr. en skuldajafnað hafi verið samtals 9.605 kr. í síðar tilkominni greiðslu.

Í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. sé kveðið á um að fella skuli niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til skuldmyndunar. Kærandi hafi í skýringum sínum til Vinnumálastofnunar greint frá því að hún hafi ekki vitað af skyldu sinni til að upplýsa stofnunina um námið þar sem um ólaunað starfsnám væri að ræða. Hún hafi staðið í þeirri trú að henni væri heimilt að stunda nám.

Vinnumálastofnun vilji koma því á framfæri að í kerfum stofnunarinnar megi sjá að kærandi hafi fengið námssamninga á vorönn 2023 vegna 10 eininga náms og leitað eftir upplýsingum um tilhögun greiðslna samhliða námi. Henni hafi verið veittar upplýsingar um námsþátttöku samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga, bæði í tölvupósti 25. apríl 2023 og í ágúst sama ár. Kærandi hafi fengið þar áréttingu um með hvaða hætti hún ætti að leita sér ráðgjafar þegar kæmi meðal annars að námsþátttöku samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga. Kærandi hafi áður gert námssamning við Vinnumálastofnun og verið greint frá því að ávallt þurfi að gera námssamning og að framvísa þurfi skólavottorði. Það sé því mat stofnunarinnar að kæranda hafi verið veittar viðeigandi upplýsingar og leiðbeiningar er varði heimildir hennar til að stunda nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga. Það sé jafnframt á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysistryggingar að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er haft geti áhrif á rétt til slíkra greiðslna. Með vísan til framangreinds beri kæranda því að greiða umrædda skuld auk álags, enda hafi kærandi að mati stofnunarinnar ekki fært rök fyrir því að fella eigi niður álag á skuld hennar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 1. janúar til 31. mars 2024, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að meðtöldu álagi, samtals 789.535 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar bætur.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.

Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr., án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“

Í c. lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur er umsækjandi spurður hvort hann sé skráður í nám á umsóknardegi. Upplýst er að almennt sé ekki heimilt að vera í námi samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þó séu undantekningar á þeirri meginreglu. Tekið er fram að það sé því mjög mikilvægt að hafa samband sem fyrst við ráðgjafa Vinnumálastofnunar til að kanna hvort viðkomandi eigi rétt á námssamningi.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var skráð í 29 eininga nám við B þegar hún þáði atvinnuleysisbætur en upplýsti ekki um námið. Við reglulegt eftirlit Vinnumálastofnunar í mars 2024 kom það þó í ljós og var hún í kjölfarið innt eftir skýringum og gögnum vegna námsins. Eftir að kærandi lagði fram skólavottorð og skýringar tilkynnti Vinnumálastofnun henni um ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta og að innheimta ofgreiddar bætur.

Kærandi hefur meðal annars vísað til þess að hún hafi ekki vitað af skyldu sinni til að upplýsa Vinnumálastofnun um námið þar sem um ólaunað starfsnám væri að ræða. Þá hafi hún ekki vitað að námssamningur þyrfti að liggja fyrir á milli hennar og stofnunarinnar.

Þann 25. apríl 2023 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi hennar og skyldur væri að finna undir liðnum „Hvað þarftu að vita“ á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar er fjallað um nám og atvinnuleysisbætur og fram kemur að almennt sé ekki heimilt að stunda nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Á því geti þó verið undantekning að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Slíkt nám atvinnuleitanda þurfi að vera samþykkt af Vinnumálastofnun og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt reglugerð. Vegna náms á framhaldsskólastigi samhliða virkri atvinnuleit þurfi að gera námssamning við Vinnumálastofnun sem geti að hámarki verið vegna 12 fein. á önn. Þá er tekið fram að mikilvægt sé að ráðfæra sig við ráðgjafa Vinnumálastofnunar vegna náms samhliða atvinnuleit.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita af tilkynningarskyldu vegna ástundun náms, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um hvort slík skylda væri fyrir hendi.

Samkvæmt staðfestingu á skólavist frá B, dags. 20. mars 2024, var kærandi skráð í 29 eininga nám á vorönn 2024. Fyrir liggur að nám kæranda var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar og einnig liggur fyrir að undanþáguheimildir 2., 3. og 4 mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 eiga ekki við í máli kæranda þar sem hún var skráð í nám umfram 20 einingar og nám hennar var ekki skipulagt samhliða vinnu. Að því virtu uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggð samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hún var í náminu og var Vinnumálastofnun því rétt að stöðva greiðslur til hennar.

Með hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar voru einnig innheimtar ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. janúar 2024 til 31. mars 2024. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um nám sitt er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. apríl 2024, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, og að innheimta ofgreiddar bætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta