Hoppa yfir valmynd
11. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2011

Þriðjudaginn 11. október 2011

 

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags.18. janúar 2011, kærir A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu dánarbóta.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um greiðslu dánarbóta í október 2010 vegna fráfalls maka hennar þann X. Með bréfi dags. 27. október 2010 samþykkti Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda og fékk kærandi greiddar dánarbætur vegna fráfalls maka hennar fyrir tímabilið 1. október 2008 til 1. janúar 2009. Tryggingastofnun ríkisins samþykkti ekki greiðslur lengra aftur í tímann en tvö ár og er kærandi ósátt við þá niðurstöðu stofnunarinnar.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir svo:

 „Mig langar að biðja nefndina að úrskurða um makabætur mínar. Maðurinn minn B lést þann X. Fljótlega eftir fráfall hans spurðist ég fyrir um það hjá umboði TR hér á C hvort ég ætti ekki rétt á ekknastyrk eða fyrirgreiðslu, en var sagt að svo væri ekki. Var ekki bent á dánarbætur til maka yngri en 67 ára.

Snemma í október 2010 sat ég námskeið fyrir einstaklinga 60 ára og eldri á D, sem var í boði E. Voru þar mættar 12 konur frá TR sem fræddu fundargesti um tryggingamál. Kom þar fram að einstaklingur yngri en 67 ára er missir maka sinn eigi rétt á dánarbótum í 6 mánuði. Í framhaldinu sótti ég nú um bætur og var úthlutað bótum fyrir 3 mánuði þar sem starfsreglur TR leyfa ekki að greitt sé lengur en tvö ár aftur í tímann. Samanber bréf frá TR dags. 27. október 2010. (ljósrit fylgir með ).

Eins og gefur að skilja trúir maður því sem manni er sagt og á erfiðum tímum er maður fljótur að efast um eigin réttindi og þar sem mér var sagt að ég ætti ekki rétt á neinum bótum trúði ég því. Taldi ég ástæðuna vera að ég hafi ekki verið að missa fyrirvinnuna og hugsaði ekki meira út í það. E.t.v. hefur ekki verið athugað hversu mikill aldursmunur okkar hjóna var.

Ég hefði auðvitað sótt strax um dánarbætur ef ég hefði fengið réttar upplýsingar er ég leitaði eftir þeim.

Ég sætti ég mig ekki við að fá ekki fullar bætur. Það hefur trúlega verið eitthvað sem valdið hefur misskilningi þarna, en ég er ekki sátt við að gjalda þess, því fer ég þess á leit að úrskurðarnefndin taki málið til skoðunar og leiðréttingar.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 10. febrúar 2011. Greinargerð dags. 1. mars 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir svo:

 Kæruefni

Kærandi fékk einungis greiddar dánarbætur eftir fráfall maka síns í þrjá mánuði en ekki sex mánuði eins og Tryggingastofnun ríkisins er almennt heimilt að gera.  Við það er kærandi ósátt og kærir þá afgreiðslu Tryggingastofnunar til æðra stjórnvalds.

Lög sem málið snerta

Samkvæmt 1. mgr. 6.gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða hverjum þeim sem verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs bætur í sex mánuði eftir lát maka.   Upphæð bótanna er nú 32.257 kr. á mánuði.

Í 1. mgr. 14.gr. sömu laga segir að ákvæði laga um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Samkvæmt 2. mgr. 53.gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.  Í raun er hér um fyrningarákvæði að ræða.

Í 1. mgr. 52.gr. sömu laga segir að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Samkvæmt 4. mgr. 52.gr. skal starfsfólk Tryggingastofnunar og umboðsmenn hennar kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt almannatryggingalögum, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar.

Með hliðsjón af 1.mgr. 14.gr. laga um félagslega aðstoð verður að ætla að ofangreindar reglur í almannatryggingalögum gildi einnig um bætur félagslegrar aðstoðar, þar á meðal dánarbætur.

Málavextir

Kærandi er 67 ára gömul kona sem býr á C.  Hún missti eiginmann sinn þann X og var kærandi þá 64 ára að aldri.  Hún átti því rétt á að fá greiddar dánarbætur í sex mánuði skv. lögum um félagslega aðstoð.  Greiðslurnar miðast við sex mánuði eftir andlátið, þ.e. fyrir tímabilið júlí til desember 2008.

Kærandi sótti hins vegar ekki um dánarbætur eftir andlátið.  Samkvæmt kærubréfinu segist hún fljótlega eftir fráfall hans hafa spurst fyrir um það hjá umboði Tryggingastofnunar á C hvort hún ætti rétt til bóta vegna andlátsins.  Eftir því sem hún segir var henni svarað  því af starfsmönnum umboðsins að svo væri ekki.

Kærandi segist hafa komist að því í október 2010 að hún átti rétt til dánarbóta í sex mánuði eftir andlátið.  Í framhaldi af því sótti hún um þessar dánarbætur en þá voru reyndar liðin tvö ár og þrír mánuðir frá andláti eiginmannsins. Henni voru einungis veittar dánarbætur fyrir þrjá mánuði en ekki sex.  Var skýringin sú að greiðslur fyrir tímabilið júlí til september 2008 voru fyrndar samkvæmt fyrningarákvæðinu í 2. mgr. 53.gr. almannatryggingalaga.  Hún fékk því einungis greiddar dánarbætur fyrir tímabilið október til desember 2008.

 

Rök kæranda og svör Tryggingastofnunar

Kærandi heldur því fram að hún hafi fengið rangar upplýsingar hjá umboði Tryggingastofnunar á C sumarið 2008.  Ekki liggja þó nein skrifleg svör fyrir um það efni.  Í tilefni kærunnar hefur málið verið kannað hjá starfsfólki umboðsins á C.  Enginn kannast þar við að hafa haldið því fram við kæranda að hún ætti engan rétt á dánarbótum eftir missi maka síns sumarið 2008. Verður það satt að segja að teljast ólíklegt þar sem um grundvallarréttindi er að ræða. Líklegra er að einhver misskilningur hafi verið þarna á ferðinni af hálfu kæranda.

Tryggingastofnun metur það svo að með öllu sé ósannað að kærandi hafi fengið villandi upplýsingar hjá umboði stofnunarinnar á C sumarið 2008.  Kæranda ber að sækja um bætur eins og allir aðrir og hún hófst ekki handa við það fyrr en tveimur árum og þremur mánuðum eftir fráfall makans.  Kærandi hefur misst hluta réttar síns vegna þessa tómlætis og verður að bera hallann af því sjálf.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 2. mars 2011 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu dánarbóta lengra aftur í tímann en tvö ár.

Í kæru greindi kærandi frá því að maðurinn hennar hafi látist þann X. Fljótlega eftir það hafi hún spurst fyrir um það hjá umboði TR á C hvort hún ætti rétt á ekknastyrk eða fyrirgreiðslu en henni hafi verið sagt að svo væri ekki. Henni hafi þá ekki verið bent á dánarbætur til maka yngri en 67 ára. Í október 2010 hafi hún setið á námskeiði fyrir einstaklinga 60 ára og eldri þar sem tvær konur frá TR hafi frætt fundargesti um tryggingamál. Þar hafi komið fram að einstaklingur yngri en 67 sem missi maka sinn eigi rétt á dánarbótum í sex mánuði. Í framhaldinu hafi hún sótt um bætur og hafi verið úthlutað bótum í þrjá mánuði þar sem starfsreglur TR leyfi ekki að greitt sé lengur en tvö ár aftur í tímann. Þá greindi kærandi frá því að hún hefði sótt um bæturnar strax hefði hún fengið réttar upplýsingar þegar hún leitaði eftir þeim.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi haft átt rétt á dánarbótum í sex mánuði samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Kærandi hafi hins vegar ekki sótt um dánarbæturnar fyrr en tveimur árum og þremur mánuðum eftir andlát eiginmanns hennar. Henni hafi einungis verið veittar dánarbætur fyrir þrjá mánuði af sex og hafi skýringin verið sú að greiðslur fyrir tímabilið júlí til september 2008 hafi verið fyrndar samkvæmt fyrningarákvæði 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Þá var greint frá þeirri afstöðu Tryggingastofnunar að stofnunin teldi að það væri með öllu ósannað að kærandi hafi fengið villandi upplýsingar hjá umboði stofnunarinnar á C sumarið 2008.

Í 6. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er kveðið á um dánarbætur. Þar segir í 1. mgr.:

 „Heimilt er að greiða hverjum þeim, sem verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs, bætur í sex mánuði eftir lát maka.“

Í 14. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 kemur fram að ákvæði laga um almannatryggingar gilda um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Í 52. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 segir að sækja skuli um allar bætur til Tryggingastofnunar ríkisins. Umsókn er því forsenda þess að Tryggingastofnun ríkisins greiði dánarbætur.

Maki kæranda lést þann X. Kærandi sótti um greiðslu dánarbóta í október 2010, eða tveimur árum og rúmlega þremur mánuðum eftir andlát maka hennar. 

Í 53 gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 segir í 1. mgr. að bætur skuli reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandi hefur uppfyllt skilyrði til bótanna. Í 2. mgr. 53. gr. er heimild til að úrskurða bætur aftur í tímann, þó aldrei lengra en tvö ár. 

Að framangreindu virtu er umsókn um bætur nauðsynlegt skilyrði bótaákvörðunar og hefur Tryggingastofnun ríkisins ekki heimild til að greiða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár. Kærandi bar fyrir sig að hafa fengið rangar upplýsingar hjá starfsmanni í umboði Tryggingastofnunar ríkisins á C. Úrskurðarnefnd almannatrygginga getur á engan hátt metið það eða staðfest hvort kærandi hafi fengið rangar upplýsingar frá starfsmanni hjá umboði Tryggingastofnunar á C. Það er á ábyrgð hvers og eins að huga að réttindum sínum og sækja um bætur til stofnunarinnar.

Kærandi sótti um dánarbætur vegna andláts maka tveimur árum og rúmlega þremur mánuðum eftir andlát maka. Þegar af þeirri ástæðu kemur greiðsla dánarbóta til kæranda vegna andláts maka ekki til álita lengra aftur í tímann en tvö ár að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um greiðslu dánarbóta vegna andláts maka lengra aftur í tímann en tvö ár er staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um dánarbætur lengra en tvö ár aftur í tímann er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta