Fjárfestingar fyrir rúma 10 milljarða
Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir liðlega 10,3 milljörðum króna til fjárfestinga samkvæmt sérstakri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar 2013 til 2015. Áætlunin tekur til framkvæmda sem ráðgert er að fjármagna með veiðileyfagjöldum og arðgreiðslum af eignahluta ríkisins í viðskiptabönkuum eða sölu á þeim eignahlutum.
Í fyrsta hefti Peningamála Seðlabanka Íslands 2013 segir um þessa áætlun ríkisstjórnarinnar. „Í nóvemberspá Seðlabankans var gert ráð fyrir þeim verkefnum í fjárfestingaráætluninni sem voru í upphaflegu fjárlagafrumvarpi. Á milli fyrstu og annarrar umræðu fjárlaga kynnti ríkisstjórnin hins vegar áætlun um aukna fjárfestingu sem sett var á fjárlög. Er tekið tillit til hennar nú. Vöxtur opinberrar fjárfestingar verður því nokkru meiri í ár en spáð var í síðustu Peningamálum.“
Markmið fjárfestingaáætlunar er að styðja við hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífi. Hún er liður í nýrri sókn eftir efnahagshrunið og er ætlað að auka fjölbreytni atvinnulífsins og styðja við efnahagsbata og hagvöxt. Hún hvílir á því að ríkissjóður endurheimti stóran hluta af þeim fjármunum sem lagðir voru fram til að endurfjármagna bankakerfið og að með nýjum lögum um veiðigjöld og fiskveiðistjórnun fái þjóðin aukna hlutdeild af arði sjávarauðlinda.
Arður af auðlindunum
Áætlað veiðigjald og leiga á aflaheimildum skilar 4,2 milljörðum króna til fjárfestingaráætlunarinnar á þessu ári. Þar af renna 2,5 milljarðar króna til samgönguframkvæmda. Má þar geta Norðfjarðarganga sem flýtt var í krafti áætlunarinnar er nú stendur yfir útboð Vegagerðarinnar og má áætla að verkið hefjist síðar á þessu ári.
Þá verður framlag til rannsókna- og tækniþróunarsjóða aukið um 1,3 milljarða króna á árinu.
Loks verður af 400 milljónum varið til Sóknaráætlana landshlutanna sem marka kaflaskil í samskiptum landshlutanna og ríkisins og færa forgangsröðun og áhrif á þróun atvinnumála í auknum mæli heim í hérað. Ráðgert er að þetta framlag aukist umtalsvert á næstu árum. Þess má geta að með mótframlögum úr landshlutunum nemur heildarupphæðin nú um 620 milljónum króna.
Arðurinn af bönkunum
Nærri 6,2 milljarðar króna af arði ríkisins af eignarhlutum þess í viðskiptabönkunum og hugsanlegrar sölu á þeim eignarhlutum verður varið til nýframkvæmda eða viðhalds fasteigna, örvunar græna hagkerfisins, skapandi greina og uppbyggingar ferðaþjónustunnar.
Áætluð skipting er sem hér segir:
Fasteignir / framkvæmdir: |
3.430 milljónir króna |
---|---|
Fangelsi |
1.000 millj. |
Hús íslenskra fræða | 800 millj. |
Herjólfur/Landeyjarhöfn | 640 millj. |
Náttúruminjasafn | 500 millj. |
Kirkjubæjarstofa | 290 millj. |
Húsverndarsjóður |
200 millj. |
Græna hagkerfið: |
1.030 milljónir króna |
Grænn fjárfestingarsjóður |
500 millj. |
Grænkun fyrirtækja |
280 millj. |
Græn skref og vistvæn innkaup | 150 millj. |
Grænar fjárfestingar | 50 millj. |
Orkuskipti í skipun | 50 millj. |
Skapandi greinar | 920 milljónir króna |
Kvikmyndasjóður |
470 millj. |
Verkefnasjóður skapandi gr. | 250 millj. |
Netríkið Ísland |
200 millj. |
Ferðaþjónusta |
750 milljónir króna |
Uppbygging ferðamannastaða | 500 millj. |
Innviðir friðlýstra svæða |
250 millj. |
Ástæða er til að fara nánar yfir nokkra liði. Framlög í Kvikmyndasjóð hækka um 82% á árinu vegna fjárfestingaráætlunarinnar. Framlög til verkefnissjóða lista og skapandi greina aukast um 250 milljónir króna frá því sem áætlað var á fjárlögum. Þá er gert ráð fyrir stofnun fjögurra nýrra sjóða, Hönnunarsjóðs, Handverkssjóðs, Myndlistarsjóðs og Útflutningsssjóðs.
Hálfum milljarði króna verður varið til uppbyggingar ferðamannastaða. Mótframlög fyrirtækja í ferðaþjónustu nema oft um helmingi úthlutaðrar upphæðar og verður auglýst eftir umsóknum á næstunni.
Vernd ferðamannastaða og grænt hagkerfi
Til að mæta auknu álagi á fjölsóttum friðlýstum svæðum verður varið 250 milljónum króna. Þar af renna um 60 milljónir króna til að bæta göngustíganet Þingvallaþjóðgarðs og 57 milljónum króna til ýmissa framkvæmda í Vatnajökulsþjóðgarði. Rétt um 30 milljónum króna verður varið til verkefna á öðrum friðlýstum svæðum. Hægt er að hefjast handa nú þegar á ýmsum svæðum en önnur bíða útboðs.
Grænn fjárfestingarsjóður fær 500 milljónir króna til ráðstöfunar. Gert er ráð fyrir að hann verði útfærður undir forystu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er vistaður.
Ýmis verkefni sem miða að sókn græna hagkerfisins og aukinni fjölbreytni fá 280 milljónir króna í sinn hlut en gert er ráð fyrir að þessu fé verði úthlutað undir forystu forsætisráðuneytisins. Þá verður jafnframt varið um 150 milljónum króna til að stuðla að grænum eða vistvænum innkaupum. Verður þetta gert í formi endurgreiðslna.
Um framkvæmdir eða einstakar fasteignir
Unnið er að endanlegri hönnun nýs fangelsins og er gert ráð fyrir að verkið verði boðið út í vor. Á þessu ári verður einum milljarði króna varið til verksins.
640 milljónir renna til Landeyjarhafnar og hönnunar nýs Herjólfs, en framkvæmdirnar dreifast á a.m.k. þrjú ár.
Hús íslenskra fræða fær 800 milljónir króna í sinn hlut en verkefnið er fullhannað og hefur þegar verið tekin skóflustunga að því. Um 600 milljónir króna koma frá Happdrætti Háskóla Íslands. Húsið hýsir Árnastofnun, handritin og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
Náttúruminjasafnið í Perlunni í Reykjavík verður eflt og nemur framlag til uppbyggingar þess 400 milljónum króna.
Ætlunin er að stórefla rannsókna- og menningarsetrið Kirkjubæjarstofu og renna á þessu ári 290 milljónir króna í krafti fjárfestingaráætlunarinnar. Markmið Kirkjubæjarstofu er að efla og styðja rannsóknir og lifandi fræðslu um náttúrufar, sögu og menningu héraðsins.