Kaflaskil í samvinnu Stjórnarráðsins og landshlutasamtaka sveitarfélaga
620 m.kr. til 73 verkefna árið 2013
Með undirritun samninga um sóknaráætlanir í átta landshlutum er brotið blað í sögu samskipta þeirra við Stjórnarráðið þegar kemur að úthlutun opinberra fjármuna til einstakra verkefna innan landshluta.
Með samningunum er staðfest nýtt verklag sem einfaldar þessi samskipti, gerir þau skilvirkari og stuðlar að bættri nýtingu fjármuna. Markmiðið er að færa aukin völd og aukna ábyrgð til landshlutanna við forgangsröðun og skiptingu opinbers fjár sem rennur til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar.
Í fyrstu eru verkefnin sem falla undir sóknaráætlanirnar tengd atvinnumálum og nýsköpun, markaðsmálum, menntamálum og menningarmálum. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að aðrir þættir byggðamála á borð við velferðarmál og þróun innviða falli undir sama verklag.
Einfaldara og skilvirkara
Nú renna um 5 milljarðar króna frá ríki til landshluta á grundvelli um 200 samninga um styrki eða aðra fjármögnun verkefna sem ekki eru á forræði ríkisins. Ef það nýja verklag sem nú er tekið upp reynist vel skapar það grundvöll fyrir því að enn stærri hluti fjárframlaga ríkisins til landshluta verði færður í þennan nýja farveg. Sóknaráætlanir landshlutanna yrðu þannig hafðar til hliðsjónar við stefnumótun og áætlanagerð ríkisins og hefðu grundvallar þýðingu fyrir byggðamálin í heild sinni.
Sóknaráætlanir landshluta er þróunarverkefni ráðuneyta og sveitarfélaga sem byggir á samvinnu. Ráðuneytin skipa öll fulltrúa í hóp sem myndar stýrinet (e. governnace network) af hálfu Stjórnarráðsins. Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að stýrinetinu og Byggðastofnun hefur þar áheyrnarfulltrúa. Sóknaráætlanirnar og framkvæmd þeirra fylgir ákveðnum samskiptaás þar sem ráðuneytin (stýrinetið) og landshlutasamtökin ráða ráðum sínum.
Með undirritun samninganna um sóknaráætlanir landshlutanna hafa alls 73 verkefni verið samþykkt og fengið úthlutað samtals 400 m.kr. úr ríkissjóði og eru mótframlög verkefnanna a.m.k. 220 m.kr. til viðbótar.
Dæmi um verkefni (eitt úr hverjum landshluta):
- Vesturland Ferðaþjónusta utan háannatíma
- Vestfirðir Vestfjarðaklasi
- Norðurland vestra Atvinna og menntun til framtíðar
- Norðuland eystra Akureyri hlið inn í landið
- Austurland Atvinnumálaráðstefna
- Suðurland Bændamarkaður, vöruþróun og nýsköpun
- Suðurnes Efling fullvinnslu á sjávarfangi
- Höfuðborgarsvæði Vörumerkið Reykjavík
Frekari upplýsingar er að finna á vef sóknaráætlana landshluta: stjornarrad.is/sl
Nýsköpun í stjórnsýslu - kaflaskipti í samskiptum ríkis og landshluta
Vinna við sóknaráætlanir landshluta hófst í byrjun árs 2011. Í fyrsta áfanga var stefnt að því að beina samskiptum Stjórnarráðsins og átta landshlutasamtaka sveitarfélaga í tiltekinn farveg (sjá mynd). Markmiðið var að færa aukin völd og aukna ábyrgð um forgangsröðun og skiptingu ríkisfjár til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar til landshlutanna. Þannig mætti ná fram betri nýtingu fjármuna byggða á svæðisbundnum áherslum og færa ákvarðanatöku nær heimamönnum.
Samskiptin um verkefnafé og áherslur hafa hingað til verið bundnar samningum (u.þ.b. 200) eða skyndisamráði um aðgerðir. Ákveðið var að gera tilraun til þess að ráðstafa fjármagni til verkefna á grundvelli stefnumótunar og áætlanagerðar einstakra landshluta þar sem landshlutasamtök sveitarfélaga væru ábyrgðaraðilar. Ráðgert var að fjármagna hluta sóknaráætlana með fjármagni vaxtarsamninga og menningarsamninga ásamt nýju fé. Samhliða þessu átti að endurskipuleggja stoðkerfi atvinnu- og byggðaþróunar. Því verki verður haldið áfram ef nýja verklagið reynist vel þetta árið.
Samstarf ráðuneytanna í stýrineti og vinnulag landshlutana var fastmótað á árinu 2012. Stýrinetið var skipað, ráðinn var verkefnisstjóri og hver landshluti þróaði með sér samráð um framkvæmd sóknaráætlana. Samstarfið var með ágætum og því náðu allir landshlutar að skila fyrstu sóknaráætlununum fyrir árið 2013-2014 í ársbyrjun 2013. Það fé sem notað er til að reyna vinnulagið þetta fyrsta eiginlega ár áætlananna eru 400 m.kr. úr fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, auk mótframlaga heimamanna.
Verkefnið er nýsköpunarverkefni í stjórnsýslunni. Nýsköpunin endurspeglar m.a. áherslur um aukið samstarf þvert á ráðuneytin. Áeggjan um slíkt kemur m.a. fram í skýrslunni Samhent stjórnsýsla (2010) og áherslum OECD síðustu misseri þar sem aukin áhersla er lögð á að vinna með málaflokka eins og byggðamál þvert á skipulagsheildir. Í fyrsta sinn vinnur allt Stjórnarráðið sem heild að byggðamálum. Það er gert á grundvelli hugmynda að nýrri skilgreiningu á byggðamálum: „Byggðamál eru öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, s.s. búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta.“
Samskiptin milli ráðuneyta hafa stóraukist og aðkoman að málaflokknum er samstillt. Byggðastofnun veitir landshlutum og stýrineti sérfræðiaðstoð auk þess sem verkefnisstjórinn, sem er staðstettur í innanríkisráðuneyti, er starfsmaður Byggðastofnunar. Með þessum hætti eru samskiptin einfölduð og tryggð góð samvinna stjórnsýslustiganna tveggja. Nýbreytnin felst ekki síst í því að Stjórnarráðið vinnur með þessu móti að byggðamálum sem ein heild.
Framtíðarsýnin er sú að nýtt verklag muni:
- skerpa og skýra samskiptaferlið milli ríkis og sveitarfélaga
- stuðla að langtíma áherslum landshluta í gegnum stefnumótun og áætlanagerð
- leggja grunn að nýrri hugsun í byggðamálum
- tengja framtíðarsýn, áherslur og markmið landshluta í sóknaráætlunum við meginstefnu og áætlanir ríkisins (í gegnum eina byggðaáætlun)
- stuðla að bættri og gangsærri nýtingu fjármuna
- auka áhrif landshluta á úthlutun og forgangsröðun fjármuna.