Nr. 334/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 15. júlí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 334/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21060056
Beiðni [...] um endurupptöku
I. Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU19040115, dags. 18. júlí 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 11. apríl 2019 um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 22. júlí 2019. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 29. júlí 2019. Beiðni kæranda var synjað af kærunefnd þann 22. ágúst 2019. Kærandi óskaði eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar þann 19. nóvember 2019 og var þeirri beiðni synjað af kærunefnd þann 17. febrúar 2020. Kærandi óskaði í annað sinn eftir endurupptöku þann 16. október 2020 og var þeirri beiðni synjað af kærunefnd þann 13. nóvember 2020. Kærandi lagði í þriðja sinn fram beiðni um endurupptöku þann 7. desember 2020. Þeirri beiðni var synjað af kærunefnd þann 7. janúar 2021.
Kærandi lagði í fjórða sinn fram beiðni um endurupptöku þann 25. júní 2021 og barst greinargerð kæranda þann sama dag ásamt fylgigögnum.
Krafa kæranda um endurupptöku byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli þess að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin og að ákvörðunin hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Kærandi byggir á því að rannsókn málsins hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarskyldu stjórnvalds, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt tilteknum úrskurðum sem kærandi lagði fram með greinargerð sinni hafi íslensk stjórnvöld viðurkennt að aðstæður í Grikklandi séu þess eðlis að ýmsar kerfisbundnar hindranir komi í veg fyrir að handhafar alþjóðlegrar verndar þar í landi geti notið réttinda á við aðra borgara ríkisins. Eitt af því sem hafi áhrif á mat stjórnvalda sé m.a. hvort að verndarhafar hafi fengið útgefið skattnúmer þar í landi eða geti á annað borð útvegað sér slíkt númer en skattnúmer sé forsenda þess að verndarhafar geti nýtt sér fjárhagslegan stuðning og félagslegt húsnæði. Ekki hafi farið fram rannsókn á þessu grundvallaratriði í máli kæranda. Með vísan til óskráðrar jafnræðisreglu, jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sem og stjórnskipunarréttar, sé þess krafist að mál kæranda verði endurupptekið. Kærandi sé andlega vanheill maður og eigi því erfitt með að yfirstíga þær hindranir sem blasi við einstaklingum í hans stöðu. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU20120016 frá 4. mars 2021.
Kærandi heldur því fram að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála geti ekki tekið afstöðu til þeirra atriða sem lögum samkvæmt skuli athuga, þegar meta þurfi hvort beita eigi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, án þess að athuga hvort að kærandi hafi skattnúmer í Grikklandi. Af framangreindu telji kærandi að bæði hafi aðstæður í Grikklandi breyst á verri veg, m.a. með tilliti til Covid-19 faraldursins, en einnig að mat á aðstæðum í máli hans hafi verið rangt. Ekki hafi verið rannsakað með fullnægjandi hætti hver staða kæranda sé í Grikklandi, né hver hún muni verða, verði hann endursendur þangað.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurði í máli kæranda þann 18. júlí 2019. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærandi byggir á því að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, og vísar því til stuðnings til úrskurða kærunefndar útlendingamála í málum nr. KNU20110019 frá 4. febrúar 2021, KNU20120016 og KNU20120061 frá 4. mars 2021, KNU21020012 og KNU21020043 frá 15. apríl 2021 og KNU21020030 frá 29. apríl 2021. Í framangreindum úrskurðum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að fella ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kærenda til nýrrar meðferðar. Grundvallaðist niðurstaða kærunefndar að miklu leyti á því að kærunefnd taldi sig ekki vera í aðstöðu til að draga nægilega skýrar ályktanir af þeim læknisfræðilegu gögnum sem lágu fyrir í málunum til að leggja einstaklingsbundið mat á stöðu viðkomandi í Grikklandi eða að viðkomandi hafi verið í sérstökum áhættuhópi vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd áréttar að við meðferð mála hjá kærunefnd er heildarmat lagt á atvik í hverju máli fyrir sig á grundvelli einstaklingsbundinna aðstæðna í viðtökuríki. Að mati kærunefndar er ekki hægt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu kærenda í framangreindum úrskurðum þrátt fyrir að um sama viðtökuríki sé að ræða. Af úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 18. júlí 2019, má sjá að nefndin hafi lagt mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda í Grikklandi, m.a. á grundvelli fyrirliggjandi heilbrigðisgagna og aðgengi hans að heilbrigðisþjónustu þar í landi. Þá hefur kærandi ekki lagt fram nein frekari gögn um heilsufar með endurupptökubeiðnum sínum sem gefi tilefni til endurskoðunar á því mati. Í ljósi framangreinds sé því ekki uppi sambærileg aðstaða er varðar heilsufar kæranda líkt og var uppi í framangreindum úrskurðum kærunefndar.
Kærunefnd tekur fram að við meðferð þessarar beiðni hefur kærunefnd haft hliðsjón af nýlegum úrskurðum kærunefndar, s.s. úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU21020019 frá 29. apríl 2021, er varðar mat á aðstæðum sem hafi verið uppi vegna Covid-19 faraldursins í Grikklandi. Kærunefnd telur ekki forsendur til annars en að líta svo á að þær takmarkanir sem við lýði eru vegna faraldursins í Grikklandi séu tímabundnar og komi ekki til með að hafa teljandi áhrif á stöðu kæranda þar í landi þegar takmörkunum hefur verið aflétt.
Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að í greinargerð kæranda með beiðni um endurupptöku á máli hans sé að öðru leyti byggt á sömu málsatvikum og málsástæðum og hann byggði á og bar fyrir sig í kærumáli sínu til kærunefndar, en kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirrar málsástæðna.
Að teknu tilliti til gagna málsins er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 19. júlí 2019, hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda er hafnað.
The appellant‘s request is denied.
Tómas Hrafn Sveinsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg I. Jónsdóttir