Hoppa yfir valmynd
22. desember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samkomulag um framhald NPA verkefnisins á næsta ári

Samkomulag hefur tekist milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun NPA þjónustuformsins (notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar) á næsta ári. Hlutdeild ríkisins í gildandi samningum hækkar úr 20% í 25% auk þess sem ríkið bætir við fjármagni til að mæta auknum launakostnaði í kjölfar kjarasamninga.

Í lögum um málefni fatlaðs fólks 152/2010 er kveðið á um samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og samtaka fatlaðs fólks um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Undirbúningur að innleiðingu þjónustunnar hófst sem tilraunaverkefni árið 2011 en gert var ráð fyrir að því lyki árið 2014. Markmið verkefnisins er að þróa leiðir til að taka upp þetta þjónustuform með markvissum og árangursríkum hætti. Miðað er við að þjónustan sé skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans um leið og hún verði sem heildstæðust milli ólíkra þjónustukerfa.

Ákveðið var að framlengja tilraunaverkefnið til að öðlast meiri reynslu og þekkingu og er nú kveðið á um það í lögum að verkefninu ljúki eigi síðar en í lok árs 2016.

Verkefnisstjórn um innleiðingu NPA starfar samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólk og hefur það hlutverk að móta ramma um fyrirkomulag þjónustunnar. Umfjöllun um framtíðarskipulag og framkvæmd NPA munu því verða stærstu verkefni verkefnisstjórnarinnar á komandi ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta