Ljósmyndahátíðin Les Rencontres d´Arles
Heiða Helgadóttir, Hallgerður Hallgrímsdóttir og sýningastjórinn Æsa Sigurjónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands voru fulltrúar Íslands á alþjóðlegu ljósmyndahátíðinni Les Rencontres d´Arles sem haldin hefur verið árlega á sumrin í borginni Arles í Provence-héraði í Frakklandi frá árinu 1970. Um er að ræða stærstu ljósmyndasýningu Evrópu og því fylgir mikill heiður að sýna verk á hátíðinni.
Sýningin í ár markar tímamót þar sem í fyrsta skipti er sett upp sérstök samsýning listamanna frá Norðurlöndunum, sýningin Søsterskap eða Systralag, sem sameinar verk 17 kvenkyns og hán listamanna frá Norðurlöndunum. Sýningin er í Sainte-Anne kirkjunni í miðborg Arles og stendur til 24. september 2023. Aðrir sýningarstjórar eru Anna-Kaisa Rastenberger, Anna Tellgren, Charlotte Præstegaar Schwartz, Eilina Heikka, Nina Strand og Susanne Østby Sæther.
Systralag leitast við að skoða jafnréttishugtakið í stærra samhengi með því að greina samtvinnun og mismunun innan norrænna velferðarsamfélaga. Verkin sýna hvernig kyn og kyngervi fela í sér undirstöðubreytur misréttis ekki bara með því að veita innsýn í birtingarform kynjahlutverka í daglegu lífi, heldur varpa listamennirnir upp myndum af dekkri hliðum velferðarkerfisins, brothættum samfélögum, ofbeldi, rasisma, útskúfun og hvítleika – og takast þannig á við ákallandi verkefni samtímans. Í verkum sínum á sýningunni fjalla þær Heiða Helgadóttir og Hallgerður Hallgrímsdóttir um einstaklinginn í brothættu umhverfi þar sem tekist er á við djúpar tilfinningar, brottflutninga, fæðingu og söknuð.
Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, flutti ræðu fyrir hönd sendiráða Norðurlandanna í París á opnun sýningarinnar þann 4. júlí.
Þá buðu sendiráð Norðurlandanna til móttöku til að fagna opnun sýningarinnar og vekja athygli á norrænni ljósmyndalist við tengiliði í menningarstarfi á Frakklandi.
Nánari upplýsingar um hátíðina Les Rencontres d‘Arles og sýninguna Systralag er hægt að nálgast á heimasíðu hátíðarinnar.