Hoppa yfir valmynd
12. september 2017 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Aukin framlög til eflingar ferðaþjónustu

Aukin framlög til eflingar ferðaþjónustu eru helstu áherslubreytingar sem liggja til grundvallar fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 af hálfu ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.

Alls er gert ráð fyrir að svigrúm í málaflokknum aukist um 570 milljónir króna og verði tæplega 2,3 milljarðar.

Lagt er til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða eflist um tæpar 200 m.kr. og hafi því tæpar 800 milljónir til ráðstöfunar. Þá verði auknu fé varið til rannsókna og gagnaöflunar í ferðaþjónustu og stuðningur við Markaðsstofur landshlutanna aukinn verulega, enda sinna þær mikilvægu starfi hver í sínum landshluta.

Varðandi nýsköpun ber hæst að gert er ráð fyrir um 2,3 milljörðum til Tækniþróunarsjóðs og öðrum 2,3 milljörðum í aðra styrki til nýsköpunarfyrirtækja, sem eru fyrst og fremst í formi skattaafsláttar vegna rannsóknar- og þróunarverkefna. Báðir þessir liðir eru lítt breyttir á milli ára en hafa ber í huga að framlög til þeirra beggja hafa stóraukist á undanförnum árum.

Gert er ráð fyrir að endurgreiðslur á framleiðslukostnaði kvikmynda breytist lítið á milli ára og verði liðlega 1,1 milljarður króna.

Byggingarannsóknir verða efldar í samræmi við áherslur og verkefni sem fram komu í fjármálaáætlun fyrr á árinu og er gert ráð fyrir sérstöku 40 m.kr. framlagi til Nýsköpunarmiðstöðvar í því skyni.

Í orkumálum ber hæst að heildarframlög til niðurgreiðslna á kostnaði við húshitun hækka samkvæmt frumvarpinu um 306 m.kr. á milli ára og verða tæpir 3,3 milljarðar. Munar þar mestu um liðlega 300 m.kr. stofnstyrki til nýrra hitaveitna og 160 m.kr. aukningu á niðurgreiðslum á orkukostnaði til húshitunar til að mæta verðhækkunum og aukinni notkun.  Á móti kemur að fjárheimildir til tímabundinna verkefna á þessu sviði, sem er lokið, falla niður frá fyrra ári.

Af öðrum verkefnum í orkumálum má nefna að gert er ráð fyrir 20 m.kr. framlagi til að greina möguleika á smávirkjunum á landsvísu og staðbundnum lausnum í orkumálum, í samræmi við skilgreindar aðgerðir og markmið sem fram komu í fjármálaáætlun.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta