Hoppa yfir valmynd
14. desember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Bætt kjör lögfest

Alþingi hefur samþykkt ný lög um breytingu á lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

„Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt fyrir mig að fylgja þessari lagabreytingu úr hlaði og finna fyrir eindregnum stuðningi við hana á Alþingi. Nú treysti ég því að hin nýju lög nýtist vel langveikum börnum og foreldrum þeirra og mun fylgjast grannt með framkvæmd laganna”, segir Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra.

Markmiðið með setningu laganna er að koma betur til móts við aðstæður foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna enda hefur reynslan sýnt að fjölskyldur barna með mjög alvarlega og langvinna sjúkdóma eða fatlanir hafa oft lent í fjárhagslegum erfiðleikum enda eru tækifæri þeirra til tekjuöflunar takmörkuð af þungri umönnun barnanna.

Lögin kveða á um tvískipt kerfi. Annars vegar er um að ræða tekjutengdar greiðslur í allt að sex mánuði enda hafi foreldrar verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði þegar barn greinist langveikt eða alvarlega fatlað. Greiðslurnar nema 80% af tekjum foreldra á tilteknu viðmiðunartímabili en hámarksfjárhæð þeirra miðast við tekjur foreldra að tæplega 650 þúsund krónum. Er um sambærilegt kerfi að ræða og fæðingarorlofskerfið. Koma þessar greiðslur til viðbótar við þann rétt sem foreldrar kunna að eiga í sjúkrasjóðum stéttarfélaga sinna. Fellur það í hendur framkvæmdaraðila að meta hvort og í hversu langan tíma foreldrið geti átt rétt á tekjutengdum greiðslum.

Hins vegar kveða lögin á um félagslegt greiðslukerfi sem ætlað er foreldrum sem geta ekki verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði til lengri tíma vegna verulegrar umönnunar barna sinna. Félagslega greiðslukerfinu er ætlað að taka við þegar vinnumarkaðstengda kerfinu sleppir og ljóst er að foreldrar mjög alvarlegra sjúkra eða fatlaðra barna geti ekki snúið til baka á vinnumarkaðinn vegna verulegrar umönnunar barna sinna. Geta þeir foreldrar þá átt rétt á almennri fjárhagsaðstoð að mati framkvæmdaraðila í formi mánaðarlegra greiðslna að fjárhæð 130.000 krónur auk barnagreiðslna. Enn fremur er gert ráð fyrir að foreldrar þessara barna sem þegar eru utan vinnumarkaðar við gildistöku laganna kunni að eiga rétt á þessum greiðslum sem og þeir sem eru ekki virkir á vinnumarkaði þegar barn greinist langveikt eða fatlað enda geti þeir ekki orðið virkir þátttakendur á vinnumarkaði vegna verulegrar umönnunar barna sinna. Um er að ræða ótímabundin réttindi meðan aðstæður haldast óbreyttar eða barnið verður átján ára.

Lögin taka gildi 1. janúar næstkomandi en koma til framkvæmda 1. mars næstkomandi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta