Undirritun samninga vegna þjónustu við geðfatlaða
Í dag undirritaði Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra samkomulag við Brynju, Hússjóð Öyrkjabandalagsins, um kaup á 15 íbúðum í Reykjavík sem notaðar verða í þágu geðfatlaðra. Íbúðirnar hafa þegar verið teknar í notkun. Stofnframlag Straumhvarfa til kaupanna er 210 milljónir króna. Íbúar fá félagslega þjónustu og frekari liðveislu í íbúðum sínum. Þar sem þörf er á verður um sólarhringsþjónustu að ræða en reynslan sýnir að unnt er að fella niður næturvakt þegar þjónustan er komin í fastar skorður. Dagleg framkvæmd þjónustunnar verður á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík.
Með þessum íbúðum hefur verið tekið í notkun í Reykjavík húsnæði fyrir 27 einstaklinga á árinu 2007 fyrir atbeina Straumhvarfa, að hluta til í samstarfi við Reykjavíkurborg.
Einnig undirritaði félagsmálaráðherra samninga við tvenn sjálfstæð félagasamtök, Klúbbinn Geysi og Geðhjálp. Heildarfjárhæð samninganna eru 10 milljónir króna á tveimur árum. Markmið samninganna er að styrkja dagþjónustu sem veitt er á vegum félaganna. Notendur þjónustunnar fá stuðning við að ná tökum á eigin lífi með þátttöku í daglegum verkefnum og leiðsögn við að setja sér markmið um að ná ákveðinni virkni. Fjárstuðningur Straumhvarfa kemur til viðbótar þeim fjárframlögum sem Klúbbnum Geysi og Geðhjálp eru veitt á fjárlögum ríkisins.
Straumhvörf er nýtt nafn á átaksverkefni félagsmálaráðuneytisins sem miðar að því að efla þjónustu við geðfatlaða. Verkefnið nær til 160 einstaklinga á landinu öllu sem þurfa búsetu á vegum svæðisskrifstofu eða félagsþjónustu sveitarfélaga. Markmiðið er að bjóða fólki búsetu í einstaklingsíbúðum utan stofnana og styrkja þjónustu er eflir virkni fólks sem býr við geðfötlun, eykur lífsgæði, skapar tækifæri til hvers konar endurhæfingar, þátttöku á vinnumarkaði og jafnvel menntunar. Ásta R. Jóhannesdóttir alþingismaður er formaður verkefnisstjórnar Straumhvarfa. Verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum frá félagsmálaráðuneyti og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.