Tryggingastofnun ríkisins mun annast framkvæmd laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefur ákveðið að fela Tryggingastofnun ríkisins framkvæmd laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum. Ný lög sem fela í sér breytingu á eldri lögum taka formlega gildi 1. janúar næstkomandi en koma til framkvæmda 1. mars næstkomandi. Greiðslur fyrir hvern mánuð samkvæmt lögunum verða inntar af hendi eftir á, fimmtánda virka dag hvers mánaðar, þannig að greiðslur til foreldra fyrir janúar og febrúar 2008 verða greiddar eigi síðar en 26. mars 2008 enda hafi foreldrar lagt inn umsókn fyrir 7. mars 2008. Miðað er við að Tryggingastofnun taki við umsóknum foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna frá 1. febrúar næstkomandi.