Endurskoðun aðalnámsskrár: spurningakönnun til allra grunnskóla
„Ég hvet skólafólk til þess að taka virkan þátt í þessari könnun og miðla af reynslu sinni. Það er dýrmætt fyrir okkur að fá greinargóðar upplýsingar um hversu vel námsskráin nýtist í daglegu starfi, viðhorf skólasamfélagsins til þeirra áherslna sem þar er að finna og hvernig til tókst með innleiðingarferlið. Niðurstöðurnar munu síðan nýtast okkur vel við að forgangsraða þeirri vinnu sem framundan er við endurskoðun aðalnámsskrár,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sett fram áætlun um reglulega endurskoðun greinasvið aðalnámskrár grunnskóla. Í stað þess að endurskoða öll greinasvið samtímis er fyrirhugað að árlega verði eitt til tvö greinasvið skoðuð sérstaklega. Gert er ráð fyrir að Menntamálastofnun vinni að undirbúningi þessa og hefur stofnuninni þegar verið falið að undirbúa endurskoðun á þeim þætti aðalnámsskrár sem tengist íslensku sem öðru tungumáli.
Spurningakönnunin sem nú hefur verið send öllum grunnskólastjórum er rafræn. Könnunin er hluti af lögboðnu eftirliti mennta- og menningarmálaráðuneytisins skv. 4. og 38 gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og reglugerð nr. 893/2009 um mat og eftirlit í grunnskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald.