Hoppa yfir valmynd
1. október 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 1. október 2021

Heil og sæl á þessum fallega föstudegi hér í Reykjavík.

Við hefjum yfirferðina á ræðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á 76. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna frá því á mánudag. 


Í ræðunni talar ráðherra fyrir aðgerðum í loftslagsmálum, jafnari dreifingu bóluefna og mikilvægi mannréttinda og alþjóðalaga fyrir hagsæld og framþróun ríkja. Stiklað er á stóru í ræðu ráðherra í fréttatilkynningu ráðuneytisins en áhugasamir geta lesið ræðuna í fullri lengd hér.

Fastanefnd Íslands í New York hefur staðið í ströngu upp á síðkastið vegna allsherjarþingsins og á mánudaginn gafst fylgjendum utanríkisþjónustunnar á Facebook tækifæri til þess að skyggnast lítillega á bakvið tjöldin á allsherjarþinginu. Hægt er að sjá söguna hér.

Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda um Afganistan fór fram á miðvikudag þar sem ráðherrarnir áttu fund með Martin Griffiths, yfirmanni Samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna vegna mannúðarmála (OCHA). María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, tók þátt á fundinum fyrir hönd Íslands. Í máli Martins Griffiths kom fram að nú sé afar brýnt að koma hjálpargögnum til almennra borgara og tryggja grunnþjónustu í landinu. Íslensk stjórnvöld hafa lagt 85 milljónir króna til mannúðarsamstarfs á undanförnum vikum í kjölfar yfirtöku talibana og leggja áherslu á áframhaldandi samráð við Norðurlöndin um framtíð þróunarsamstarfs og mannréttinda í landinu.

Á mánudag var Guðlaugur Þór viðstaddur undirritun samnings íslenska tæknifyrirtækisins Carbon Recycling International (CRI) við eitt stærsta efnafyrirtæki í Kína, Jiangsu Sailboat Petrochemicals, um byggingu verksmiðju til vistvænnar framleiðslu á hráefnum fyrir sólarhlöður og plexigler, með endurvinnslu koltvísýrings. Undirritunin fór fram bæði í Reykjavík og í Bejing. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, var viðstaddur, auk Þóris Ibsen, sendiherra Íslands í Kína og Jin Zhijaian, sendiherra Kína á Íslandi.

Við greindum svo frá því í vikunni að Árni Páll Árnason tæki sæti í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá og með næstu áramótum. Árni Páll hefur að undanförnu gegnt starfi varaframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðs EES. Við hans starfi tekur Borgar Þór Einarsson þann 1. janúar. Borgar Þór er hæstaréttarlögmaður en frá janúar 2017 hefur hann starfað sem aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Það hefur verið nóg um að vera hjá sendiskrifstofum okkar í vikunni og við höldum okkur við Kína.

Sendiráð Íslands í Peking heldur úti öflugri vefsíðu á enska stjórnarráðsvefnum og í vikunni sem er að líða hefur eitt og annað verið á dagskrá.

Á dögunum hitti Þórir Ibsen sendiherra nemendur í íslensku við Beijing Foreign Studies University. Þá sóttu William Freyr Huntingdon-Williams sendiráðsritari og Pétur Yang viðskiptafulltrúi ráðstefnu í borginni Guangzhou þar sem fjölmörg íslensk fyrirtæki kynntu vörur sínar.

Á miðvikudag hittu svo norrænir sendiherrar í Kína Siddharth Chatterjee fulltrúa aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á vettvangi (e. resident coordinator) þar sem rætt var um málefni Sameinuðu þjóðanna, áherslumál norðurlandanna á þeim vettvangi og rótgróna samvinnu þeirra. 


Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Lilongwe, hitti í vikunni Halima Daud, vararáðherra í innanríkisráðuneytinu í Malaví, þar sem þær ræddu um langvarandi og gott samband Íslands og Malaví. 

Í Moskvu hefur verið nóg um að vera upp á síðkastið. Fyrir skemmstu heimsótti Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Rússland. Megin tilgangur heimsóknarinnar var að taka þátt í Sjávarútvegssýningunni Global Fishery Forum & Seafood EXPO í Pétursborg en níu íslensk fyrirtæki á sviði sjávarútvegstækni tóku þátt í sýningunni ásamt Íslandsstofu og Sendiráði Íslands í Moskvu. Á meðan á heimsókninni stóð átti ráðherrann tvíhliða fundi með Dmítríj Patrúshev landbúnaðarráðherra Rússlands og Ilja Shestakov yfirmanni Sjávarútvegsstofnunar Rússlands. Þá skipulögðu Sendiráð Íslands og Íslandsstofa sérstaka kynningu á íslenskum fyrirtækjum á sviði sjávarútvegstækni. Auk ráðherra fluttu Árni Þór Sigurðsson sendiherra og Viktor Rozhnov forstöðumaður Fiskveiðistofu norður-Rússlands ávörp. Loks heimsótti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra höfuðstöðvar skipahönnunarfyrirtækisins Nautic Rus sem og Ísey Skyr (Icepro) sem bæði eru með aðsetur í Pétursborg. Nánar um þetta allt saman hér að neðan.

Í Nýju Delí ávarpaði Guðni Bragason sendiherra félagafund Indó-íslensku viðskiptasamtakanna (IIBA) á dögunum og minntist á góða samvinnu Íslands og Indlands í alþjóðasamstarfi. Ræddi hann helstu áherslur íslenskra stjórnvalda í alþjóðastjórnmálum og utanríkisviðskiptum um þessar mundir, m.a. áherslu á öryggi, mannréttindi og sjálfbæra þróun.

Í Danmörku er Ísland í brennidepli á kvikmyndadögum í Kaupmannahöfn. Fimmta útgáfa kvikmyndahátíðarinnar Nordatlantiske Filmdage fer fram þessa dagana í menningarhúsinu Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Nánar er fjallað um hátíðina í ítarlegri frétt sendiráðsins hér.

Unnur Orradóttir Ramette sendiherra Íslands í París afhenti Michel Aoun forseta Líbanon trúnaðarbréf sitt við hátíðlega athöfn í Baabda Palace forsetahöllinni í Beirút á þriðjudag.


Í vikunni vakti Unnur svo einnig athygli á samstarfi Íslands og UNESCO um fjárstuðning við skapandi greinar og menningarlíf í Beirút. 

Í gær bauð sendiherra Íslands í Osló, Ingibjörg Davíðsdóttir, kollegum sínum í Ósló sem eru með Ísland í sínu umdæmi, til upplýsingafundar um niðurstöður nýafstaðinna Alþingiskosninganna. 39 sendiherrar í Ósló hafa Ísland í sínu umdæmi.

 

Þá bauð hún aðilum að hópi FAO (Female Ambassadors Oslo) til umræðna í embættisbústað Íslands um nýafstaðnar kosningar til Stórþings Noregs, með blaðamönnunum Kjetil Wiedswang hjá Dagens Næringsliv og Aslak Bonde stjórnmálaskýranda, sem báðir eru sérfróðir um norsk stjórnmál. Í Oslo eru 20 aðilar að FAO af um 70 sendiherrum

Auðunn Atlason sendiherra í Helsinki hitti utanríkisráðherra Eistlands Eva-Maria Liimets á dögunum í Tallinn þar sem umhverfismál og utanríkismál voru til umræðu.


Þá ræddi hann einnig um nýafstaðnar kosningar á Íslandi á dögunum á vettvangi Norden i fokus.

Í Washington fundaði Bergdís Ellertsdóttir sendiherra með evrópskum starfssystrum sínum og ráðamönnum í Bandaríkjunum þar sem tengslin yfir Atlantshafið voru til umræðu. 


Þá hitti Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum Abdulla Shahid sem var forseti 76. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.


Fleira var það ekki í bili.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta