Hoppa yfir valmynd
6. október 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Skapandi tækifæri fyrir öll börn á Íslandi

Fræðsluefni á vefnum listfyriralla.is - mynd
Öllum grunnskólanemum landsins gefst nú tækifæri á að taka þátt í áhugaverðum og skapandi menningarverkefnum, m.a í gegnum verkefnið List fyrir alla. Það verkefni er skipulagt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og tekur á sig ýmsar myndir en markmið þess er að velja og miðla listviðburðum af margbreytilegu tagi til barna og ungmenna um land allt.

„Við viljum jafna aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag og einnig setja þeirra eigin sköpun og menningu í öndvegi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Sérstök áhersla er nú á miðlun efnis sem stuðlar að sköpun og skilningi nemendanna sjálfra á ólíkum listgreinum. Því er meðal annars kynnt til sögunnar glænýtt efni fyrir unga listamenn sem áhuga hafa á kvikmyndagerð. Kvikmyndagerð fyrir alla leggur áherslu á virkrar þátttöku unglinga í elstu bekkjum grunnskóla og hefur námsefni verið gert aðgengilegt þar sem nemendur eru leiddir í gegnum það ferli að búa til stuttmynd. Þá gefst þeim tækifæri til að taka þátt í í stuttmyndasamkeppni sem ber yfirskriftina Kvikindahátíð. Upplýsingar um menningarverkefnin má nálgast á vefnum listfyriralla.is.

„Þessu frábæra efni fylgja þættir sem gefa innsýn í líf og starf sex íslenskra listamanna á sviði kvikmyndagerðar. Það er okkur hjartans mál að efla miðlalæsi og kvikmyndamenntun hér á landi og ég hef trú á því að þessi fræðsla og tækifæri muni tendra áhuga hjá mörgum. Unga fólkið á Íslandi er skapandi og sköpun er lykilþáttur í menntun,“ segir ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta