Hoppa yfir valmynd
18. september 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 371/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 18. september 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 371/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18060038

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. júní 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júní 2018, um að synja henni um dvalarleyfi hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, og um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. sömu laga.

Af kæru má ráða að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar þann 4. desember 2017. Þá hafi kærandi einnig óskaði eftir því að verða veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júní 2018, var kæranda synjað um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærunefnd barst kæra kæranda þann 22. júní 2018, ásamt athugasemdum kæranda. Þá bárust viðbótarupplýsingar frá kæranda með tölvupóstum þann 5. og 10. júlí.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnun kom fram að samkvæmt b-lið 1. mgr. 61. gr. laga um útlendinga væri það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna starfs sem krefðist sérfræðiþekkingar að áður hefði verið veitt atvinnuleyfi samkvæmt lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. apríl 2018, hafi kæranda hins vegar verið synjað um atvinnuleyfi hér á landi. Útlendingastofnun hefði þar af leiðandi ekki heimild til að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 61. gr. laga um útlendinga og var umsókn hennar því synjað. Hvað varðaði kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga, kom fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kæmi fram að ákvæðinu skyldi ekki beitt nema skorið hefði verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfyllti ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefði ekki sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og því hefði ekki verið skorið úr um það hvort kærandi uppfylli skilyrði alþjóðlegrar verndar. Með hliðsjón af því væri Útlendingastofnun ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og var því umsókn kæranda um slíkt dvalarleyfi synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í kæru ber kærandi fyrir sig þekkingarleysi og kveðst hafa ætlað að sækja um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli en ekki dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Þá hafi hún enn fremur sótt um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna þess að hún geti ekki snúið aftur til heimaríkis. Hún hafi á hinn bóginn ekki gert sér grein fyrir því að hún hafi þurft að sækja um alþjóðlega vernd til þess að fá slíkt dvalarleyfi. Kærandi hafi aldrei ætlað sér að sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi kveðst hafa dvalið hér á landi í u.þ.b. tíu mánuði ásamt syni sínum, sem sé spænskur ríkisborgari, og hafi þau aðlagast íslensku samfélagi vel. Þá búi barnsfaðir kæranda hér á landi og hafi það verið ástæða komu þeirra til Íslands. Þá búi unnusti kæranda hér á landi og hyggist þau gifta sig. Kærandi kveður dvöl sína á Spáni hafi reynst sér og syni sínum erfið og þar sé enga vinnu að fá. Þar af leiðandi fari kærandi þess á leit að kærunefnd veiti henni og syni hennar dvalarleyfi á Íslandi. Þá kemur fram í gögnum málsins að kærandi eigi unnusta hér á landi og að þau hafi í hyggju að ganga í hjúskap.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. laga um útlendinga.

Í 61. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna eru m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 61. gr. laga um útlendinga.

Í máli þessu liggur fyrir að með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. apríl 2018, var umsókn kæranda um atvinnuleyfi synjað og hefur þeirri ákvörðun ekki verið hnekkt. Telst kærandi því ekki uppfylla skilyrði b-liðar 1. mgr. 61. gr. laga um útlendinga. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Að því virtu verður staðfest sú ákvörðun Útlendingastofnunar að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar.

Kærandi hefur einnig óskað eftir því að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ekki veitt nema skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. og 39. gr. Þar sem mál kæranda varðar umsókn um dvalarleyfi en ekki umsókn um alþjóðlega vernd getur ekki komið til þess að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Verður því einnig staðfest sú ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Samkvæmt upplýsingum frá kæranda kvaðst hún ætla að ganga í hjónaband hér á landi í ágúst sl. Kærunefnd bendir á að kærandi geti lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 69. og 71. gr. laga um útlendinga, en með leiðbeiningum þessum er hins vegar ekki tekin afstaða til þess hvort kæranda verði veitt dvalarleyfi á þeim grundvelli.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber henni að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa henni, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Anna Tryggvadóttir

                                                                                                                                             

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                              Anna Valbjörg Ólafsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta