Hoppa yfir valmynd
20. október 2020 Innviðaráðuneytið

Ný heildarlög um loftferðir í samráðsgátt

Drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um loftferðir hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 16. nóvember 2020.

Markmið nýju laganna er að stuðla að og tryggja öruggar, greiðar og skilvirkar flugsamgöngur að teknu tilliti til neytendaverndar, umhverfissjónarmiða og þjóðréttarlega skuldbindinga. Í frumvarpinu eru lagðar til veigamiklar breytingar frá núgildandi lögum einkum í því skyni að taka mið af stefnu stjórnvalda á sviði flugsamgangna og þjóðréttarlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist. 

Tilefni frumvarpsins er m.a. fyrirhuguð innleiðing í landsrétt á reglugerð (ESB) 2018/1139 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins (EASA) o.fl. auk fleiri EES-gerða.

Meðal helstu breytinga má nefna:

  • Lagt er til að gildissvið laganna verði útvíkkað frá því sem nú er, einkum til að endurspegla víðtækt eftirlitshlutverk Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins (EASA) með loftförum, aðilum og starfsemi í þriðju ríkjum, en einnig til tryggja að tæki og hlutir sem ferðast um loftið en teljast ekki loftför falli undir gildissvið nýrra laga.
  • Ýmis efnisákvæðum um eftirlit bætast við. Þar á meðal ákvæði er lúta að eftirliti með flugafgreiðslu og hlaðstjórnunarþjónustu á flugvöllum, vottun og eftirliti með samevrópskum veitendum rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsögu, hönnun, framleiðslu og starfrækslu kerfa og kerfishluta sem notuð eru til veitingar rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu, opinberrar markaðsgæslu með ómönnuðum loftförum, hönnunar og skipulagningar loftrýmisins, auk tækja og hluta sem ferðast geta um loftið en teljast ekki loftför.
  • Talsvert er fjallað um ómönnuð loftför í drögum að frumvarpinu. Meðal annars er fjallað um skyldu til skráningar ómannaðra loftfara, sem eru háð vottun, skráningarskyldu flugrekenda/umráðenda ómannaðra loftfara í „opnum“ og „sérstökum flokki“, auk ákvæða er varða lofthæfi, starfrækslu o. fl.
  • Kveðið er nánar á um loftrýmisskipulag, hönnun flugferla og stjórnun loftrýmis. Lagt til að komið verði á miðstýrðu ferli þegar teknar eru ákvarðanir um takmarkanir á nýtingu loftrýmisins, s.s. vegna setningar ótímabundinna bann-, hafta- og hættusvæða. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna ómannaðra loftfara og opinberra aðila og einkaaðila sem vilja takmarka og banna flug yfir afmörkuðum svæðum.
  • Í frumvarpinu er mælt fyrir um sérstaka samráðsskyldu milli sveitarfélaga og rekstraraðila flugvalla á sviði skipulagsmála. Einnig hafa ákvæði um hindranir við flugvelli verið endurskoðuð og komið er á tilkynningaskyldu vegna mannvirkja og hluta hærri en 50 m.
  • Þá er lagt til að Montreal-samningurinn frá 1999 um bótaábyrgð í flutningum í lofti verði lögfestur í heild sinni í stað umritunar í núgildandi lögum.
  • Jafnframt eru efnisákvæði og heimildir til setningar reglugerða styrkt á fjölmörgum sviðum.

Samhliða eru lagðar til breytingar á öðrum lögum til samræmingar við ákvæði frumvarpsins. Þeirra á meðal eru lög um Samgöngustofu nr. 119/2012, lög um rannsókn samgönguslysa nr. 18/2013, lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri nr. 34/1991 og loks á tekjuskattslögum og lögum um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana auk minniháttar orðalagsbreytinga á fleiri lögum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta